Þeir sem voru að alast upp í Reykjavík í kringum 1960 eiga flestir minningar um áramótabrennur í sínu hverfi. Greint er frá því í Morgunblaðinu frá þessum tíma að árið 1959 hafi verið gefin leyfi fyrir 90 bálköstum í borginni, en ári seinna er talið að brennur í borginni hafi verið um 70.
Það voru aðallega strákar sem sáu um að safna í brennur og á ýmsu gekk. Það var gjarnan byrjað að safna í lok nóvember eða byrjun desember og markmiðið var að brennan yrði sem allra stærst og glæsilegust. Stundum var kveikt í brennunum löngu fyrir jól, og var þá gjarnan talið að hrekkjusvín hefðu verið að verki. Árið 1960 var til dæmis kveikt í kesti við raðhúsahverfið í Ásgarði í Reykjavík seint í nóvember og brann hann auðvitað til kaldra kola. En stákarnir í hverfinu voru ekki af baki dottnir og byrjðu strax daginn eftir að draga að efni í nýja áramótabrennu.
Árið 1966 fer blaðamaður Morgunblaðsins á stúfana til að fjalla um áramótabrennurnar í borginni.
Við námum staðar hjá stóru brennunni við Sörlaskjól þar sem við sáum nokkra röska stráka að starfi við að hrófla upp kössunum til að lengja enn þessa brennu, sem í fjarlægð líkist sívölum turni. Við spyrjum strákana, hve margir hafi unnið við að safna í brennuna. „Alveg hellingur“ segir snaggaralegur stór strákur, sem kveðst vera brennustjórinn, enda elztur strákanna.
„Hvar hafið þið fengið alla þessa kassa?
Enn verður sá fyrrnefndi fyrir svörum og segir: „Hjá fyrirtækjum svo sem „Kristjánsson“ og„Blóm og ávöxtum“.
Einungis drengir hafa unnið við að safna í þessa brennu „það eru við strákarnir hérna í hverfinu, úr Sörlaskóli og af Nesveginum“ eins og einn þeirra komst að orði, og hefur þeim svo sannarlega tekist vel til bæði við að safna efniviði og stafla honum upp. Það er einna líkast sem tæknifræðingur hafi verið þarna að verki, en svo er víst ekki. Og því trúum við einna helst að einhver þessara drengja eigi síðar meir eftir að verða byggingasérfræðingur.
Morgunblaðið greinir frá því að sjötíu brennur hafi verið í Reykjavík á gamlárskvöld árið 1960 og að á Ægissíðunni hafi verið fimm bálkestir. Á þessum tíma var byrjað á því að kveikja í minnstu bálköstunum, svo yngstu börnin misstu ekki alveg af gamaninu. Fleiri bættust við um níu leytið um kvöldið en kveikt var í stærstu brennunum um klukkan ellefu. Það fylgir sögunni í blaðinu að það hafi verið tíðindalaust á þessum sjötíu brennum þetta umrædda ár.
Og þó! Það færðist fjör í áhorfendahópinn við Ásgarðsbrennuna skömimu eftir að kveikt var í henni. Tvær heljarstórar rottur komu hlaupandi út úr kestinum, þegar hann tók að loga. Hafa sýnilega valið sér óheppilegan stað til að dvelja á um áramótin. Það sló felmtri á áhorfendur. Konurnar gripu um pilsin og hlupu æpandi í allar áttir. Ekki leið þó á löngu áður en strákarnir endurheimtu hugrekki sitt. Og allur skarinn snerist gegn óvininum. Önnur rottan var horfin, en hin var elt uppi með miklum bægslagangi. Endaði eltingaleikurinn með ósigri rottunnar, og leifar hennar hurfu í logana eins og árið 1960