Sögukjallari um „hinn sanna James Bond“

Undir hinni leyndardómsfullu yfirskrift „True Spy – Sir William Stephenson Secret Cellar“ var í gær, þriðjudaginn 24. maí, formlega opnað húsnæði í kjallara að Vesturgötu 4 í Reykjavík tileinkað Vestur-Íslendingnum Sir William Stephenson, sem aðstandendur kalla „hinn sanna James Bond“. Það eru bræðurnir Hugi Hreiðarsson og Bogi Auðarson sem standa að baki verkefninu, en þeir hafa varið stórum hluta frístunda sinna undanfarin ár í að undirbúa sögukjallarann. Þeir fengu 92 ára gamlan mann frá eynni Bermuda til að opna sögukjallarann formlega með sér, en Tony var náinn vinur Stephensons seinni hluta ævi hans.

Stríðsnjósnastjóri Breta í Vesturheimi

William Stephenson átti íslenska móður, en hann fæddist í Vestur-Íslendingabyggðinni í Winnipeg í Manitoba í Kanada árið 1897. Stephenson bar upphaflega nafnið William Samuel Clouston Stanger, en var tekinn í fóstur af Vigfúsi Stefánssyni og Kristínu Guðlaugsdóttur, sem ættuð voru af Snæfellsnesi, og fékk nafn þeirra, Stephenson. Sem kanadískur hermaður barðist hann í fyrri heimsstyrjöldinni. Á árunum milli stríða varð hann iðnjöfur og auðkýfingur í Englandi og þegar seinni heimsstyrjöldin skall á fól Sir Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, honum að stýra njósnastarfsemi Breta í Vesturheimi, með aðsetur í New York. Þar var Stephenson tengiliður milli Churchills og Roosevelts Bandaríkjaforseta.

Vorið 1941 réð Stephenson mann til starfa að nafni Ian Fleming og næstu þrjú árin unnu þeir náið að ýmsum háleynilegum verkefnum. Í sögukjallaranum verður saga Stephenson sögð, skýrt frá þætti hans í seinni heimsstyrjöldinni og vináttu hans við Ian Fleming og áhrifum hans á sögupersónuna James Bond. Stephenson átti langa ævi en hann lést árið 1989, þá búsettur á Bermuda.

Átta ára undirbúningur

„Það eru átta ár síðan við bræður hófum þessa vegferð,“ segir Hugi Hreiðarsson í samtali við Lifðu núna. „Við fengum góðan aðila til að opna kjallarann formlega – mann að nafni Tony Correia, gamlan vin Stephensons.“ Tony er 92 ára gamall, fæddist árið 1930, en vinátta þeirra Stephensons hófst skömmu eftir að sá síðarnefndi fluttist til Bermuda árið 1960. Þar rak Tony veitingastað, bakarí, og verslun og í tólf ár var hann þingmaður. „Hann hefur frá mörgu að segja um vináttu þeirra og vafalaust hefur hann blandað marga Shaken, not stirred-drykki fyrir vin sinn,“ að sögn Huga.

„Upphafleg áform okkar snerust um að búa til svokallað flóttaherbergi og vorum á höttunum eftir spennandi lausn. Sama haust, árið 2014, voru sýndir þættirnir Vesturfarar þar sem Egill Helgason fór á söguslóðir Íslendinga í Kanada. Þar heyrðum við fyrst af Sir William Stephenson. Okkur fannst saga hans mjög forvitnileg og hófum að kynna okkur hana í þaula og úr varð að gera flóttaherbergi sem myndi hafa Síðari heimsstyrjöld að sögusviði – með tengingu við James Bond,“ segir Hugi.

Mikil heimildavinna að baki

„Þetta sama haust fundum við kjallara að Vesturgötu 4, beint á móti Borgarbókasafninu sem hentaði verkefninu mjög vel að okkar mati,“ segir Hugi ennfremur. Þeir bræður hafi strax þá afráðið að taka kjallarann á leigu og byrjuðu að þróa verkefnið. Þeir hafi gert ráð fyrir að það tæki nokkra mánuði, en mánuðirnir urðu fljótt að árum. „Opnun dróst á langinn og til að afla okkur frekari þekkingar fórum við haustið 2017 til Winnipeg, hittum fólk sem þekkti til Stephenson, tókum viðtöl og kynntum okkur frumheimildir. Eins fórum við árið 2019 til Bermuda, New York og London og núna fyrr á þessu ári til Toronto í sömu erindagjörðum,“ segir Hugi.

Úr varð að helmingur kjallarans verður flóttaherbergi eins og upprunaleg áform bræðranna gengu út á. Sá hluti kjallarans verður reyndar ekki opnaður fyrr en á næsta ári. En það er hinn helmingurinn sem nú hefur formlega verið tekinn í notkun. Sá hluti er fyrirlestrarrými þar sem saga Sir Williams er sögð með hjálp margmiðlunar á rúmum klukkutíma. Nánari upplýsingar um þetta má nálgast á heimasíðu verkefnisins.

Ritstjórn maí 25, 2022 07:00