Hið óvænta truflar framvinduna og lengir bækurnar

Hallgrímur Helgason rithöfundur heillaðist af Siglufirði þegar hann kom þangað sem unglingur til að keppa á skíðum. Þegar hann svo seinna heyrði að örfáum árum áður en hann hóf að renna sér í brekkunum fyrir ofan bæinn hafi ríkt þar sannkölluð stórborgarstemning fór að gerjast í höfðinu á honum söguþráður og persónur tóku að fæðast. Hann sá fljótt að efnið myndi ekki rúmast í einni bók og nú er þriðja bókin á lokametrunum og framundan námskeið um þær tvær fyrri og ekki ólíklegt að þar fái þátttakendur ofulítið blik inn í hvað næst gerist í lífi Gests Eilífssonar.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að bjóða upp á námskeið byggt á sögunum tveimur, Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum og hvernig byggir þú kennsluna upp?

„Þetta eru þrjú kvöld, Silja Aðalsteinsdóttir verður með okkur á fyrsta og þriðja kvöldinu, og Æsa Guðrún Bjarnadóttir á miðkvöldinu. Æsa er ritstjórinn minn og við vinnum svolítið saman. Hún er í miðjum klíðum núna að vinna með mér í þriðju bókinni,“ segir hann. „Silja var með tvö námskeið fyrir norðan á Hótel Siglunesi. Fyrst upp úr Sólskinsbókinni og síðan upp úr Kjaftshöggunum. Þetta var hugmynd Margrétar Jónsdóttur Njarðvík, rektors Háskólans á Bifröst og eiganda Mundo, ferðaskrifstofunnar. Hún er svo kraftmikil og full af hugmyndum og bara drífur í hlutunum. Maðurinn hennar á þetta hótel og þetta var svo skemmtileg hugmynd og virkaði vel, eiginlega bara uppáhaldshelgarnar mínar síðustu árin.

Þarna komu um þrjátíu manns og dvöldu heila helgi, einstaklega gáfaðir og góðir lesendur bókanna, og svo var snæddur Marokkómatur á kvöldin. Silja fjallaði um bækurnar og ég las upp úr þeim, sagði frá tilurð og tengslum við Siglufjörð og hvernig ég notaði heimildir, vann úr þeim og breytti til að fá frelsi sem skáldsagnahöfundur. Ég vildi ekki vera of bundinn af sagnfræðinni, en vildi samt hafa þetta allt sem sennilegast. Við fórum líka í gönguferðir, og svo hlustaði ég líka á fólkið. Það sagði sínar meiningar og spurði mig út úr. Einu sinni spurði Silja til dæmis: „Hver er uppáhaldspersóna ykkar úr bókinni?“ Og það sköpuðust mjög skemmtilegar umræður í kringum það. Þetta var allt mjög innspírerandi inn í næstu verk. Í bæði skiptin var ég í startholunum að hefja næsta bindi, þannig að þetta varð mjög gott veganesti. Maður var alveg heitur og sósaður í fyrra bindi þegar maður hóf ritun þess næsta. Auk þess skapaði þetta enn meiri tengsl við bæinn, söguna og lesendur. Fyrir mig sem höfund var þetta alveg stórkostlegt og mér sýndist þátttakendur ánægðir líka.“

Orðinn sjóaður í gagnrýni

Finnst þér þá ekkert óþægilegt að ræða bækurnar þínar á þennan hátt? Vettvangurinn er mjög opinber og hugsanlega koma óvægnar spurningar.

„Flest viðbrögðin eru nú reyndar jákvæð en það kemur einstaka sinnum fyrir að fólk gagnrýni mig eitthvað,“ segir Hallgrímur. „Þá hugsar maður um það, og það getur haft áhrif á mann inn í næsta verkefni. Oftast snýst það nú um að einhverjir kaflar gangi fram af fólki, en stundum eru það gullmolar eins og: Við konur nennum ekki að lesa um skip og vélar!“

Halldór Laxness sagði víst einhvern tíma eftir að gagnrýni hafði birst á Atómstöðina að hann kannaðist ekkert við þessa bók sem maðurinn væri að skrifa um. Hefur þú einhvern tíma verið sammála honum?

„Já, stundum finnst manni fólk misskilja eitthvað og hafa verið að lesa aðra bók en þá sem maður skrifaði,“ segir Hallgrímur og hlær. „En það getur líka barasta verið rétt hjá lesandanum, því rithöfundar eru alltaf ólæsir á eigin verk. Almennt held ég að við höfundar séum líka kannski aðeins of viðkvæmir fyrir því sem sagt er. En kominn á þennan aldur hef ég auðvitað gengið í gegnum ýmislegt, hef bæði stuðað og sært fólk og fengið alls konar viðbrögð. Svo hef ég líka stuðast sjálfur. Ég sagði frá nauðgun í bók árið 2015 og gekk í gegnum erfiðan tíma eftir það. Maður er því öllu vanur og ætti að geta tekið á hverju sem er. Ég hlakka hins vegar til að halda þetta námskeið og finna hvað fólki finnst og reyna að veita því einhverja aukaþjónustu. Kannski útskýra einhverja kafla eða segja frá hvernig þessi persóna kom til eða hvort eitthvað sé byggt á minni reynslu eða einber skáldskapur. Ég blanda auðvitað saman heimildum, skáldskap og eigin lífi líka. Þetta rennur saman í eitt og stundum erfitt að skilja þarna á milli. Og svo lauma ég kannski einhverju að um þriðja bindið sem kemur út í haust.“

Á langa sögu með Siglufirði

Þú hefur sagt frá því áður að þú dvaldir á Siglufirði og umhverfið þar varð kveikjan að þessum skáldsögum. Var sú upplifun að finna fyrir einangrun sumra staða úti á landi og skynja þá ógn sem býr í náttúrunni til þess að þú ákvaðst að fara aftur í tímann fremur en að staðsetja söguna í Siglufirði nútímans?

„Ég á langa sögu með Siglufirði. Ég var að keppa þar á skíðum í gamla daga og var heillaður af staðnum. Seinna fór ég oft þangað á skíði um páska. Þær heimsóknir byrjuðu svona 2010-2012. Ég kom alltaf við á Síldarminjasafninu og fann að sú saga kallaði alltaf meira og meira á mig. Eftir því sem ég fór oftar á safnið fannst mér það bara enn meira djúsí og mig langaði að lýsa þessu síldarævintýri nánar. Það sem heillaði mig mest var að í þessum afskekkta, þrönga firði á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar myndaðist stórborgarlíf sem við höfðum aldrei séð hér áður, og aldrei síðar heldur. Þetta var eins og bara sjálf New York sett niður á einhverja smá fjarðareyri uppi á Íslandi. Þarna var alveg svakalega þéttbýlt. Kona nokkur sagði mér að þegar hún var orðin áttræð fór hún í fyrsta sinn til London og þegar hún kom út á Oxford Street varð henni á orði: „Þetta er nú bara eins og heima á Aðalgötunni í gamla daga.“ Staðreyndin var sú að Siglufjörður var eins og lítil stórborg. Stromparnir spúandi reyk og búðirnar opnar nánast allan sólarhringinn, þrjár hattabúðir þarna og rakarastofurnar reknar á þreföldum vöktum! Mannþröngin mikil og dansað á hverju kvöldi. Stundum voru tvö böll á kvöldi, á mánudögum líka. Svona mikið fjör hefur Reykjavík aldrei getað boðið upp á. Þessi tilhugsun ærði mig alveg, enda alltaf verið hrifnari af stórborgum en óbyggðum.

Ég kom þarna fyrst sextán ára árið 1975, til að keppa á skíðum, og maður fann einhverja lykt í loftinu, liðinn anda. Bryggjurnar stóðu enn og minntu nánast á Feneyjar. Síldarævintýrinu var nýlokið en keimurinn af því sat eftir. Þetta var eins og að koma í partípleis daginn eftir. Maður gat alveg ímyndað sér fjörið. Þessi tilfinning blundaði alltaf í mér og ég var mest hissa á því að enginn hafði skrifað almennilega um þetta í skáldsögu. Til að undirbúa mig bjó ég á Siglufirði í tvo mánuði árið 2014 og fór svo aftur eftir að hafa skrifað fyrsta bindið og var í einn mánuð, í janúar 2021. Sú dvöl var dýrmæt því það var stanslaus norðanbylur allan tímann og báðar leiðirnar út úr bænum lokaðar vegna snjóflóðahættu. Þá kynntist maður því hvernig veðurfar og landshættir eru allt aðrir þarna en hér syðra. Ég hef reyndar verið með hús í Hrísey síðan 2003 svo ég þekkti Norðurlandið. Birtan er önnur og menningin líka. Það er nánast jafn mikill munur á Sigló og Reykjavík og Sigló og Svalbarða. Ég er reyndar ættaður úr Eyjafirði og kannski voru genin að kalla. Amma er fædd í Arnarnesi gegnt Fagraskógi, og mamma ólst upp í Símstöðinni á Akureyri.

Þegar ég fór svo að skoða heimildirnar áttaði ég mig á hvað þetta er gríðarlega mikið efni og ákvað að bækurnar yrðu þrjár frekar ein. Ég sé reyndar núna að ég gæti skrifað aðrar þrjár í viðbót. Efnið er svo mikið. En ég þurfti strax að skapa ramma og reyna að vera með plan, því persóna sem er lítil í fyrstu bókinni er kannski ætlað mun stærra hlutverk í þeirri þriðju. Ég þurfti þess vegna að hugsa þetta vel áður en ég byrjaði. Sá sem hverfur úr sögunni á bls. 70 kemur kannski aftur tvíelfdur í næstu bók. Þetta þurfti að skipuleggja vel. Svo gerast líka óvæntir hlutir í skrifunum og maður verður að leyfa þeim að fá sitt pláss. Vinnan er því blanda af skipulagi og óskipulagi. Það er einmitt þetta óvænta sem truflar framvinduna og lengir alltaf bækurnar, of margar hugmyndir …“ segir hann kankvís á svipinn.

Sextíu kíló af sólskini var til að mynda 461 blaðsíða svo talsvert magn af hinu óvænta hefur bankað upp meðan hún var skrifuð og Sextíu kíló af kjaftshöggum er 544. Aðdáendum bókanna finnst þær þó síst of langar og nú gefst gott tækifæri til að spyrja höfundinn spjörunum úr og upplifa Segulfjörð á nýjan leik með því fara á námskeið hjá Hallgrími í Endurmenntun Háskóla Íslands. Það er líka áreiðanlega góður undirbúningur fyrir þriðju bókina sem væntanleg er í haust.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 23, 2024 07:00