Tengdar greinar

Skemmtilegt að vinna í karlaheimi

„Maðurinn minn fær bara að vera í fötum frá Guðsteini. Hann er fimmtugur og flottur“, segir Sólveig Grétarsdóttir og hlær, en hún tók við sem rekstrarstjóri Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar á Laugaveginum fyrir tæpum tveimur árum. Sjálf fór hún ævinlega í búðina sem krakki og keypti sér „afanáttföt“, sem henni þóttu mjög þægileg. Hún vissi því alveg af Verslun Guðsteins þegar eigendur búðarinnar Rannveig Eir Einarsdóttir og Hilmar Þór Kristinsson höfðu samband við hana og spurðu hvort hún væri til í að taka við sem rekstrarstjóri . En hvað rak þessa ungu konu til að taka við rekstri Herrafataverslunar sem gjarnan eru reknar af körlum?

Keypti á soninn, eiginmanninn og pabba sinn

„Það er sennilega forvitni og áhugi á sögu búðarinnar sem verður 100 ára á næsta ári“, segir hún. „Svo þegar maður fer að kynna sér vörulínurnar, er verslunin með svo góð og vönduð merki. Við höfum aðeins verið að bæta við nýju, til að höfða líka til yngri kynslóðarinnar, sem er liður í því að þjónusta allar kynslóðir karlmanna í búðinni. Það var kona að versla hjá okkur í gær og hún keypti föt á son sinn, eiginmanninn og föður sinn. Allt hjá okkur“, segir Sólveig og brosir.“Við erum með Digel vörumerkið í jakkafötum, frökkum og þess háttar en þeir eru einmitt með tvær til þrjár kynslóðir í sinni vörulínu“.

Sólveig fyrir framan gömlu innréttingarnar

Gæðavara á sanngjörnu verði

Sólveig segir mikilvægt að búðin haldi sínum karakter og það þurfi að fara varlega í allar breytingar. Á næsta ári þegar haldið verður uppá 100 ára afmælið eru hins vegar uppi áform um að breyta versluninni. „Við viljum halda gömlu innréttingunum og hanna nýjar út frá þeim“, segir hún og bætir við að hún hafi alltaf haft áhuga á fatnaði og hönnun. Hún stundar einmitt nám í innanhúss arkitektúr í breskum skóla, með vinnunni hjá Guðsteini. „Ég er svolítið að horfa á þessar bresku Gentlemen´s stores“ segir hún. En nýir eigendur eru trúir þeirri stefnu fyrri eigenda að halda álagningu í versluninni í skefjum og bjóða gæðavöru á sanngjörnu verði.

Buxur í öllum stærðum og gerðum

Hún ítrekar hversu varlega þurfi að fara í breytingar hjá svo rótgróinni verslun og ekki megi hræða fastakúnnana sem séu margir. Þeir muni geta gengið að sínum vörum vísum í búðinni þó ný merki bætist við. Meyer buxurnar verði áfram, en það eru þýskar hágæðabuxur í mörgum stærðum. Allir geti fundið buxur við sitt hæfi, hvort sem þeir eru hávaxnir, lágvaxnir, grannir eða digrir. Þá séu líka til skyrtur í öllum stærðum, fyrir þá sem vilja þröngar skyrtur og líka hina sem vilji hafa skyrturnar víðar og þægilegar og allt þar á milli. Meðal nýrra merkja sem munu bætast við, er fatnaður frá austurrísku fyrirtæki sem sérhæfir sig í prjónavefnaði og svo fatnaður frá ítalska merkinu Breco´s.

Bara rætt um bíla á heimilinu

Sólveig sem ólst upp í Breiðholtinu hefur lagt gjörva hönd á margt á sínum starfsferli. Hún er lærður sjúkranuddari og starfaði við það í 15 ár. Um tíma vann hún í versluninni Gullfossi hjá Ruth Barker, hún var í sölu- og markaðsmálum hjá Nýherja og fór svo þaðan í SP fjármögnun og síðan í Bíla-og tækjafjármögnun Landsbankans, þar sem hún var aðallega í bílalánum. „Þarna fór ég að snúast í karlaheimi og var að ræða við bílasala alla daga. Mér finnst karlar skemmtilegir og skemmtilegt að vinna í karlaheimi“, segir hún.  Eiginmaður hennar Hörður Harðarson var á þessum tíma sölustjóri hjá BL. „Það var bara talað um bíla á heimilinu í nokkur ár. Dóttir okkar Snædís Sól var nánast farin að gráðbiðja okkur um að tala um eitthvað annað en bíla“, segir Sólveig og hlær þegar hún rifjar upp þennan tíma.

Miklar breytingar á Laugaveginum

Foreldrar hennar eru Bjarney Friðriksdóttir sem starfaði í dómsmálaráðuneytinu, eða innanríkisráðuneytinu, í mörg ár og Grétar Guðmundsson listamaður.  Hún bjó hjá þeim í Breiðholtinu til 19 ára aldurs, þegar hún flutti í miðbæinn, en þangað hafði hana alltaf langað að flytja. Það fer því vel um hana á Laugaveginum, þar sem spennandi breytingar eru í farvatningu umhverfis gömlu húsin sem standa í þyrpingu á reitnum þar sem Verslun Guðsteins Eyjólfssonar hefur verið til húsa í 100 ár.

 

Ritstjórn desember 21, 2017 15:43