Skerðingarnar ná ekki nokkurri átt

Valgerður Sigurðardóttir.

„Það var mikil stemming á fundinum og hann var fjölmennur, það voru um hundrað manns sem mættu;“ segir Valgerður Sigurðardóttir formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði en aðalfundur félagsins var haldin fyrir skömmu.  Skerðingar í almannatryggingakerfinu við útreikninga á ellilífeyri voru til umfjöllunar á fundinum og segir Valgerður að þær komi sér illa gagnvart flestum, sérstaklega þeim sem lítið hafa á milli handanna. „Um leið og fólk fær greiddar 25 þúsund krónur úr lífeyrissjóði fara greiðslur að rýrna frá Tryggingastofnun. Þetta nær ekki nokkurri átt,“ segir Valgerður. Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á fundinum:

 Aðalfundur Félags eldri borgara í Hafnarfirði  haldinn þann 21. mars 2019 mótmælir harðlega þeim óréttlátu skerðingum sem viðhafðar eru við útreikning ellilífeyris í almannatryggingakerfinu. Fundurinn skorar á stjórnvöld og Alþingi að afnema tekjutengingu við lífeyrissparnað strax og hætta á þann hátt að rýra lífsviðurværi fólks.

Í greinargerð með ályktuninni segir:

Það á að vera stolt hverrar þjóðar og metnaður að láta fólki líða sem best á efri árum.  Lífeyrissparnaður einstaklinga á að vera trygging fyrir fjárhagslegu öryggi og bættum lífskjörum alveg sama hversu mikill eða lítill hann er. Lífeyrissjóður þeirra einstaklinga sem lagt hafa fyrir, skilar sér ekki til eigenda sinna sem sá lífssparnaður sem talað var um í upphafi. Það er ekki réttlátt að rýra lífsviðurværi fólks með því að lækka greiðslur til þeirra frá Almannatryggingum vegna sparnaðar sem einstaklingar voru skyldaðir til að leggja fyrir.

Ritstjórn mars 28, 2019 08:14