Tengdar greinar

Skiptust á heimili við bresk hjón í fyrra

 

Þetta viðtal við Guðrúnu Bachmann og Leif Hauksson var tekið árið 2017, en Leifur Hauksson er látinn. Viðtalið sýnir hversu óþreytandi þau voru að prófa nýja hluti og njóta lífsins. Lifðu núna sendir ættingjum og vinum Leifs innilegar samúðarkveðjur.

 

„Við skiptum þó ekki um eldhúsinnréttingu“ segir Guðrún Bachmann vísindamiðlari í Háskóla Íslands og hlær, en hún og maðurinn hennar Leifur Hauksson útvarpsmaður, ákváðu síðast liðið sumar, að fara í heimilaskipti við fólk í Kendall í Bretlandi.  Að sögn Guðrúnar útheimti það töluverðan undirbúning að gera þetta í fyrsta sinn, en skiptin fóru fram í gegnum vefsíðuna Intervac.com.  Þau Guðrún og Leifur fengu þriggja hæða hús norðarlega í Vatnahéraðinu svokallaða, en það er skammt frá landamærum Englands og Skotlands, og voru þar í tvær vikur. „Það var stærra en við þurftum á að halda“, segir hún „því við vorum bara tvö, en lengi hafði staðið til að einhver barnanna okkar kæmu með “.  Á móti fengu eigendur hússins, þau Dave og Jill að vera í viku í húsi Guðrúnar og Leifs í Kópavogi og aðra viku í sumarhúsi þeirra í Bjarnafirði á Ströndum. „Þau fengu þannig tvo fyrir einn“, segir Guðrún.

Tóku langt tilhlaup

Leifur og Guðrún voru búin að skoða möguleikann á heimilaskiptum í tvö ár, áður en þau létu verða af því að skipta við fólkið í Bretlandi. „Við byrjuðum á að skoða þessar vefsíður til að sjá útá hvað heimilaskiptin ganga. Síðan þarf að velja góða síðu og gerast félagi, en þá skráir maður sig inn á síðuna. Hluti af undirbúningnum var svo að tala við fólk sem hafði reynslu af svona skiptum.    Við vorum skráð í tvö ár áður en við fórum í fyrstu heimilaskiptin í fyrra“. Guðrún segir að þau hafi fengið svör strax og þau skráðu sig inná síðuna, en þá hentaði kannski ekki tíminn eða staðurinn, þannig að tíminn leið. „Ég þurfti alveg á þessari aðlögun að halda“,segir Guðrún. „Á meðan lagaði ég síðuna mína. Það skiptir til dæmis máli að vera með góðar myndir af öllum herbergjunum  og veita góðar upplýsingar um landið eða  það sem hægt er að gera í nágrenni við heimilið“.

Það væsti ekki um þau Guðrúnu og Leif í húsinu

Hús og Audi-blæjubíll

Húsið sem þau fengu í Kendall var í eigu hjóna sem áttu þrjú uppkomin börn og því var nægt pláss í húsinu. Þar var líka garður og sólpallur – og Audi blæjubíll, sem fylgdi.  Þegar að húsaskiptunum kom þurfti að undibúa komu gestanna sem skipt var við.  „Þetta var í fyrsta sinn svo mér fannst ég þurfa að vanda mig rosalega“, segir Guðrún. Hún segir að þetta hafi verið svipað og þegar fólk ætli að halda stóra veislu heima hjá sér, til dæmis fermingarveislu. „Það þurfti að þrífa allt extra vel, og síðan horfir maður á þetta frá sjónarhóli gestsins og drífur í ýmsu sem hefur lengi staðið til að gera eða lagfæra. En við skiptum þó ekki um eldhúsinnréttingu!“  Svo þurfti að rýma skúffur og skápa, því gestirnir þurfi pláss fyrir sitt dót.  Það hafi í fyrstu vafist fyrir henni hvað ætti að gera við þessa hluti en eftir þessa fyrstu reynslu sjái hún að þetta sé spurning um að fylla minnsta herbergið í húsinu og setja allt þar inn, til dæmis fataslá og plastkassa fyrir fatnaðinn. Þangað sé líka hægt að setja persónulega muni sem mönnum sé sárt um, eða verðmæti. Síðan er bara að læsa herberginu eða setja að minnsta kosti verðmætin í læstar hirslur.

Ekki smeyk við að fá ókunnuga inná heimilið

Margir sem hafa áhuga á heimilaskiptum, mikla kannski fyrir sér að lána íbúðina sína ókunnugu fólki, en Guðrún segist aldrei hafa verið neitt smeyk við það. „Við erum ekki með geðveikislega flott heimili og höfum árum saman átt gamalt sumarhús sem við deilum með öðru fólki. Ég er því kunnug þessari hugsun. Við vorum líka alltaf með au-pair stúlkur hér áður fyrr og þá vandist maður því að á heimilinu væri fólk, sem var ekki hluti af fjölskyldunni“.  Hún segir að Intervac umhverfið sé mjög traust. Það sé mikið af gagnlegum upplýsingum á síðunni og margar mjög flottar eignir. Sumir séu búnir að skiptast á heimilum við aðra 20-30 sinnum.  Þetta snúist um traust og gagnkvæma hagsmuni. Þeir sem láni þér heimili sitt, séu að taka sömu áhættu og þú – og njóti sama ágóða

Andlega skyld

Þau spjölluðu við  Dave og Jill á Skype áður en þau gerðu samninginn um skiptin og þau sýndu þeim húsið. Bresku hjónin komu til Íslands daginn áður en Guðrún og Leifur héldu til Bretlands. Leifur sótti þau á flugvöllinn og þau borðuðu saman um kvöldið. „Þetta var skömmu eftir Brexit“, rifjar Guðrún upp. „Og það kom í ljós að við höfðum sömu skoðanir, svipaðan bakgrunn og hlustuðum á sömu tónlistina.  Við vorum þó nokkuð andlega skyld. Þau eru hætt að vinna, njóta þess og nota stóra húsið sitt sem gjaldmiðil til að geta ferðast.  Sækjast sér um líkir og ég er orðin nokkuð læs á það nú orðið, hvort maður á samleið með fólkinu á bakvið húsin eða íbúðirnar  “.  Hún segir að Dave og Jill hafi mikla reynslu af heimilaskiptum og það hafi komið sér vel fyrir þau Leif sem voru byrjendur í þessu. Þau hafi til dæmis verið með alveg sérstaklega góðar leiðbeiningar í húsinu, allt frá því hvernig þvottavélin virkaði til hugmynda um gönguferðir og aðrar skoðunarferðir á svæðinu.

Farin að huga að næstu ferð

Guðrún fyrir utan Bítlasafnið með kunnuglegum náunga

Guðrún segir að Vatnahéraðið þar sem þau dvöldu sé mjög fallegt og þau hafi notið þess að fara þar um. Þau hafi farið margar skoðunarferðir um nágrennið, en líka skoðað bítlasafnið í Liverpool og farið á leiksýninguna Hobbitann sem var sýnd í skógi í Lancaster. Það liðu hins vegar fjórir dagar áður en þau höfðu sig uppí að hreyfa Audi blæjubílinn, ekki síst út af vinstri umferðinni.  Á Intervac síðunni er sérstakt form sem lýtur að bílaskiptum, mjög ítarlegt. Stundum þarf viðbótartryggingar ætli menn að skiptast á bílum og þau Dave og Jill þurftu að hafa hana. Eftir að Guðrún og Leifur ræddu við sitt tryggingafélag hér, kom í ljós að ekki var krafist viðbótartryggingar vegna bílaskiptanna.  Eftir þessi velheppnuðu heimilaskipti eru Guðrún og Leifur farin að huga að næstu ferð. Þau eru helst að hugsa um að skipti sem eru þannig að þau geti farið sína ferð að hausti, eða um jól eða páska, en geti á móti lánað heimili sitt í Kópavogi að sumarlagi og verið þá vestur í Bjarnarfirði á meðan.  „Ég held að það sé sniðugt að hugsa þetta vel“, segir Guðrún. „Vilja menn fara í stutta ferð með beinu flugi, eða eru þeir til í eitthvað lengra og flóknara?“.

Guðrún og Leifur upplifðu margt sem venjulegir túristar gera ekki og hittu ekkert nema Breta þessar tvær vikur

Tækifæri til að ferðast meira

Leifur og Guðrún hafa ferðast mikið um dagana og hafa upplifað ferðalög þar sem gist var á tjaldstæði eða farfuglaheimilum, á hótelum og Airbnb íbúðum.  Ástæðan fyrir því að þau ákváðu að prófa heimilaskiptin var fyrst og fremst sú, að tryggja að þau gætu haldið áfram að ferðast án þess að það kostaði alltof mikið. „Við sjáum þetta sem tækifæri til að ferðast meira, án þess að borga stórfé í gistingu og ég er ekki spennt fyrir því lengur gista á tjaldstæðum“, segir Guðrún.  „Auk þess viljum við frekar nota peningana í að gera eitthvað skemmtilegt í ferðinni en borga fyrir dýra gistingu“. Sesselja Traustadóttir umboðsmaður Intervac á Íslandi segir að heimilaskipti hafi færst í vöxt eftir hrunið, ekki síst hér á Íslandi.  Skiptin séu að miklu leyti bundin við fólk í vestrænum löndum. Þeir sem vilji skipta á heimili til dæmis í Thailandi, séu yfirleitt Evrópubúar sem eigi þar eignir. Það sé hægt að skrá sig ókeypis í 20 daga inná Intervac, til reynslu, en hyggist menn skipta á heimili við einhvern á síðunni, þurfi þeir að greiða árgjald sem sé 95 evrur á ári.  Eins og gengið er á íslensku krónunni í dag eru það um 11.000 krónur.

Ef heimilaskiptasamningar sem Íslendingar hafa gert í gegnum Intervac síðustu 30 daga eru skoðaðir, kemu í ljós að þeir eru 28 og ná til heimila í 10 löndum.  11 þessara samninga eru við fólk á Spáni og í Frakklandi.

Ritstjórn febrúar 21, 2017 11:14