Skrautið í garðinum – rabarbarinn

Á Íslandi er vorið tími rabarbarans og þykir voruppskeran ljúffengust. Hann vex þó langt fram á sumar og ef hann er ekki skorinn vex hann úr sér og verður rammur síðsumars. Rabarbarinn er upprunninn í Asíu og barst fyrst til Evrópu sem lækningajurt fyrir mörgum öldum. En það var ekki fyrr en á 19. öld sem farið var að nota hann til matar að ráði. Hann barst ekki hingað til lands fyrr en um aldamótin 1900 eða upp úr því. Þá sáust rabarbarabeð við hvern bæ um allt land og hvert hús í kaupstöðum. Nú er hann fáséðari en þó hefur borið á að fólk hafi farið að nýta hann í matargerð hin síðari ár þegar óvissutímar hafa riðið yfir. Það gerðist í hruninu og aftur núna þegar framtíðin er óljós hjá mörgum. Rabarbarinn er afar ljúffengur ef hann er meðhöndlaður rétt. Sumar rabarbarauppskriftir eru með miklu magni af sykri en óhætt er að minnka sykurmagn og nota kryddjurtir eða engifer og chili sem bragðgjafa sem fer mjög vel með súru bragði rabarbarans.

Rabarbaragrautur með engiferi

600 g rabarbari

1 appelsína, (rifinn börkurinn og safinn úr lífrænt ræktaðri appelsínu)

150 g sykur

2 sm bútur af engiferi, smátt saxað

1 tsk. kartöflumjöl

Skerið rabarbarann í bita og látið í pott. Rífið börkinn af appelsínunni og kreistið safann úr henni og látið í pottinn. Bætið sykrinum og engiferinu út í pottinn. Látið þetta malla í 15-20 mínútur. Hrærið kartöflumjölinu saman við svolítið vatn, takið pottinn af hitanum og jafnið grautinn með kartöflumjölinu. Hellið grautnum í skálar og setjið sýrðan rjóma ofan á áður en hann er borinn fram.

 

Rabarbarasulta með jarðarberjum og chili

400 g rabarbari skorinn í bita

200 g sykur

300 g íslensk jarðarber

1 chili saxað og fræin notuð með

Látið rabarbara og sykur í pott og hitið í 20 mín. Setjið jarðarberin og chilialdinið með fræjunum út í og sjóðið áfram í 30 mín. Stappið gróflega saman, t.d. með kartöflustöppu. Má alveg vera grófstappað. Þá er orðið til dásamlegt rabarbaramauk sem bragð er að. Fer sérlega vel með litlum súkkulaðibitum sem hægt er að svindla með og kaupa tilbúna í verslunum, t.d. Stórkaup. Þeir eru niðursneiddir í kassa og mjög skemmtilegt að bera fram með kaffinu úti í garði í sumar!

Rabarbarasoð á trén

Ekki er ráðlegt að nota blöð rabarbarans til matar því þau innihalda eiturefni sem ekki eru holl til inntöku. Hins vegar má nýta þau til að búa til lífrænt eitur til að úða garða með til að berjast við óværu á blöðum trjáa. Leggir eru slitnir af blöðum og blöðin söxuð í um 2 sentimetra búta. Þessir blaðbútar eru síðan soðnir í stálpotti og ágætt að nota til þess fimm lítra pott. Þegar búið er að sjóða rabarbarablöðin í um klukkustund er vökvinn kældur niður og síðan eru blöðin sigtuð frá safanum. Þegar vökvinn er orðinn kaldur er honum úðað með handsprautu á trén.

Ritstjórn júní 19, 2020 12:19