Skyndiáhlaup á bumbuna ekki vænleg til árangurs

Þeir sem fitna borða einfaldlega meira en þeir þurfa. Málið er ekki flóknara en það. Til þess að grennast þarf að borða minna.  Í bæklingi sem Hjartavernd gaf út hér um árið, segir að þótt nálin á baðvoginni hafi færst uppá við, sé ekki endilega ástæða til að örvænta. Það sé hægt að snúa þróuninni við og það án sultar og meinlætis. „Það er meira að segja hægt að borða vel- og grennast samt“, segir í bæklingnum.

Til þess að svo megi verða þurfi hins vegar að endurmeta lífsvenjurnar og skoða hvað betur má fara, að hvaða leyti við getum borðað hollari mat og í hæfilegu magni. Öll skyndiáhlaup á bumduna séu hins vegar ekki vænleg til árangurs. „Við þurfum að muna að það tók langan tíma að safna aukakílóunum og það þarf líka tíma til að losna við þau“, segir í bæklingnum.

Ef við borðum mjög lítið hægist á brennslunni og megrunin verður erfiðari fyrir vikið. Það er þó annað og meira sem mælir á móti ströngum  megrunarkúrum, það er einfaldlega ekki hægt að halda þá út til lengdar. Allir menn þurfa að borða, rétt eins og þeir þurfa að sofa og draga andann. Flest getum við þraukað tímabundið svelti, rétt eins og við getum haldið okkur vakandi í ákveðinn tíma. En það kemur að því að við getum ekki meir, að því er fram kemur í bæklingnum.

Að borða reglulega

Og til að grennast eðilega, í sátt við líkama og sál, þarf að endurmeta neysluvenjurnar og læra að borða á annan hátt en áður.  Farið er í bæklingnum yfir þau atriði sem skipta þarna máli.  Talað er um Emmin þrjú, rétta Máltíðamynstrið, rétta Magnið og rétta matinn. Mælt er með þ ví að fólk  borði reglulega, þrjár til fjórar máltíðir á dag – morgunverð, hádegisverð, kvöldverð og hugsanlega einhverja síðdegishressingu og/eða kvöldhressingu.  Það er talið mikilvægt að takmarka átið við reglulegar máltíðir , hversu hversdagslegar sem þær annars eru. „Alls ekki borða fyrir framn sjónvarpið, í bílnum, uppi í rúmi eða sófa, á hlaupum eða fyrir framan ísskápinn!“, er ráð úr bæklingnum.

Hvorki of mikið né of lítið

Rétta magnið er auðvitað það sem allt snýst um að lokum. Við grennumst eða höldum þyngdinni í skefjum eingöngu með því að borða heldur minna en áður. Það kannast ugglaust margir við það, hversu erfitt það getur reynst að borða minna og í bæklingnum segir að magningu verði helst haldið í skefjum með einföldum reglum, svo sem eins og að fá sér aðeins einu sinni á diskinn og borða lítið eða ekkert eftir kvödverð eða á milli mála.

En það þarf að borða mátulega mikið. Sagt er í bæklingnum að margir flaski á því að ætla að taka megrunina með trompi og minnka matinn alltof mikið, finnst að þeir megi nánast ekkert borða ef þeir ætli að grennast. En það sem gildir er raunhæft mataræði fyrir þá sem vilja taka markvisst á sínum málum til frambúðar. Það þarf að borða mat sem bæði mettar og grennir.

Að borða reglulega og mátulega mikið er galdurinn

Fjölbreytt fæði án óþarfa fitu og sykurs

Hjartavernd setur í bæklingnum fram hugmyndir að mataræði og má segja að meginreglan í því sé fjölbreytt fæði án óþarfa fitu og sykurs.  Rétti matrinn hafi þá eiginleika að við verðum södd án þess að fjöldi kalóría fari upp úr öllu valdi. Slíkur matur sé án óþarfa fitu og innihaldi lítinn sykur.  Að öðru leyti eigi að neyta fjölbreyttrar fæðu  úr öllum fæðuflokkum.

Lagt er til að fólk boði á hverjum degi, annað hvort magurt kjöt, egg, baunir eða fisk og magrar mjólkurvörur. Mælt er með því að borða daglega grænmeti, ávexti og kolvetnaríkar fæðutegundir á borð við gróf brauð, morgunkorn, hrísgjrjón, kartöflur eða pasta.

„Við verðum einfaldlega heldur saddari, kaloríu fyrir kaloríu, af að borða kolvetna- og próteinríkt fæði í staðinn fyrir fituríkan mat. Eins skiptir máli hvers konar kolvetni verða fyrir valinu, því gróf brauð eru saðsamari en fín brauð“, segir í bæklngnum sem varar við sykurneyslu og leggur áherslu á grænmeti, sem veiti sárafáar hitaeiningar en samt nokkra fyllingu. Það sé um að gera að borða það í ríkum mæli, aðeins þurfi að gæta þess að salatsósan sé ekki of vel úti látin eða of fiturík. „Eins eru ávextir hentugur biti milli mála, eða sem eftirréttur“, segir að lokum í  bæklingnum.

 

 

Ritstjórn júlí 8, 2020 07:56