Er stolt af íslenskum uppruna sínum

„Ég er stolt af íslenskum uppruna mínum. Hann er hluti af mér, því hver ég er og hið sama gildir um börnin mín“, segir Ruth Ellis heimilislæknir frá Bandaríkjunum, þar sem við sitjum á kaffihúsi á Norðurbakkanum í Hafnarfirði í glampandi sól.  Bátar og skip bundin við bryggjur og ró yfir mannlífinu. Við fáum okkur kaffi blaðamaður Lifðu núna, Ruth, eiginmaður hennar David og bróðir hennar Finnbjörn Gíslason. Erindi Ruth til Íslands var að kenna Íslendingum pickleball, sem er ákaflega vinsæl íþróttagrein  ekki síst hjá eldra fólki í Bandaríkjunum.

Heimshornaflakk í utanríkisþjónustunni

Ruth og David búa í Washington DC og þar er hún alin upp. Þau eru bæði komin á eftirlaun, en David starfaði í utanríkisþjónustunni þannig að  þau hafa búið víða um heim, svo sem í Taiwan, Thailandi og David bjó um tíma í Írak. Síðasti staðurinn þar sem hann starfaði áður en hann fór á eftirlaun  var í Tel Aviv í Ísrael. Ruth gat ekki alltaf unnið sem læknir á meðan á þessu heimshornaflakki þeirra hjóna stóð, þannig að hún sneri sér meira að rannsóknum meðal annars á bóluefnum. En þau nýttu frítímann til að spila tennis og stunduðu líka þríþraut.

Ellis fjölskyldan 1962 skömmu áður en þau fluttu til Bandaríkjanna.

Neitaði að fara í Víetnam stríðið

Ruth fæddist í Reykjavík. Móðir hennar hét Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir og var frá Ísafirði. Hún átti stóra fjölskyldu þar, en systkinin voru sjö. Faðir hennar James Daniel Ellis var veðurfræðingur á Keflavíkurflugvelli. Þegar þau tóku saman höfðu þau bæði verið gift áður, Ragnhildur átti þrjú börn en James tvö.  Fjölskyldan bjó fyrst í Reykjavík en flutti síðan til Washington DC. Fjögur af hálfsystkinum Ruth fluttu með foreldrum sínum til Bandaríkjanna en þau eignuðust síðan þrjú börn saman. Finnbjörn sem situr með okkur á kaffihúsinu, flutti  aftur til Íslands eftir „high scool“ úti. Hann kom hingað þegar Víetnam stríðið hófst. Hann var kallaður í herinn en vildi ekki fara. Hann var eftirlýstur af FBI vegna þess og seinna skráður í Bandaríkjunum sem vandræðaunglingur búsettur erlendis. Hann hefur búið hér á landi síðan.

Ruth í íslenskum upphlut fyrir utan bernskuheimili sitt

Var mjög ákveðin kona

„Foreldrar okkar kenndu okkur ekki málið. Þau skildu fortíðina eftir á Íslandi og sáu framtíðina fyrir sér í Bandaríkjunum“, segir Ruth. „En þó við töluðum ekki málið heima var haldið í íslenskar hefðir og okkur fannst afar sérstakt að vera frá Íslandi.  Foreldrar okkar kenndu okkur að vera stolt af íslenska upprunanum. Pabbi elskaði Ísland og bað um að jarðneskar leifar hans yrðu sendar þangað“.   Eftir að hann lést voru jarðneskar leifar hans fluttar þangað“.  Hún segir að það hljóti að hafa verið erfitt fyrir móður sína að flytja til útlanda og skilja alla fjölskylduna eftir. „Hún var mjög ákveðin kona og hafði sterkar skoðanir á því hvað við ættum að gera og hvað ekki. En hún var ákaflega stolt af sínum stóra barnahópi, þó við værum ólík“.

Hús móðurafa og ömmu á Ísafirði

Var alltaf úti að leika sér á Ísafirði

Þegar Ruth var 11 ára kom hún í fyrsta skipti til Íslands. „Það var skrítið þá að vera útlendingur á Íslandi. Það voru fáir útlendingar hér og ég talaði ekki málið“, segir hún.  Afi hennar Finnbjörn Finnbjörnsson málarameistari bjó þá á Ísafirði en amma hennar var fallin frá. Hann hafði lært málaraiðn í Danmörku og var ættaður frá Sæbóli í Aðalvík á Ströndum þar sem hann bjó til 12 ára aldurs. Ruth var á Ísafirði í tvær vikur í fyrstu heimsókninni. „Ég man að ég var alltaf úti að leika mér á meðan við vorum þar. Ég var úti að hjóla með frændsystkinum mínum og afi kenndi mér að segja Gott kvöld. Hann sagði líka Gott kvöld þegar hann kom til Bandaríkjanna til að athuga hvernig dóttir hans hefði það“.

Finnbjörn og Ruth

Ísland hefur breyst mikið

Fimmtán ára gömul kom hún aftur til Íslands og var  hér heilt sumar, gætti barna og fór mikið í sund. Hún var mest í Reykjavík í þeirri heimsókn, en á enn ættingja sem búa á ísafirði.  Henni finnst Ísland hafa breyst mikið og nú sé allt annað að koma hingað. „ Þegar ég var lítil sáu allir að ég var öðruvísi, ég var öðruvísi klædd en hin börnin og með öðruvísi gleraugu. Nú er þetta orðið þannig að það tekur enginn sérstaklega eftir útlendingum og við föllum inn í hópinn. En börnin virðast vera eins, frjáls og glöð“, segir Ruth og David bætir við að bandarísk börn búi við miklu meira eftirlit og gæslu. „Það mega ekki vera of margir í rennibrautinni í einu og það þurfa að líða 20 sekúndur milli þess sem börnin renna sér, það er fylgst með þessu. Hérna horfir maður á börnin hlaupa í hópum í átt að rennibrautinni og skella sér í hana án þess að einhver sé að stjórna því“, segir hann.

Það auðgast allir á að blandast

Ruth er stolt af uppruna sínum og segist hugsa um forfeður sína og hvað þeir þurftu að vera sterkir til að lifa af í þessu harðbýla landi, mann fram af manni. David er ánægður með sína hálf-íslensku eiginkonu og saman eiga þau tvö börn. „Það auðgast allir á að blandast“, segir hann, en forfeður hans komu frá Austur-Evrópu seint á nítjándu öld og fyrst á þeirri tuttugustu. Þeir komu frá svæðinu frá Úkraínu til Þýskalands. Eftirnafn hans Schwarz kemur frá Þýskalandi og hann er gyðingur.

Ruth að kenna Íslendingum pickleball

Mamma væri stolt

Ruth er nokkurs konar sendiherra „pickleball“ hér á landi. „Ég vona að mamma hefði verið  stolt af mér“, segir hún ánægð, en hún skipulagði kennslu í pickleball snemma í nóvember meðal annars í samstarfi við Tennishöllina í Kópavogi og segist vona að hún eigi eftir að koma hingað aftur til að spila. „Pickleball er svo vinsælt í Bandaríkjunum og þar er líka mjög vinsælt að fara til Íslands“, segir David sem er viss um að þetta skapi ákveðið markaðstækifæri í ferðaþjónustunni hér.

Pickleball minni áreynsla fyrir líkamann

En hvers vegna er pickleball betri fyrir eldra fólk en aðrar greinar?  Ruth segir að þessi íþrótt sé ekki jafn erfið fyrir hnén og axlirnar og til að mynda tennis. Flestir sem séu komnir um sextugt eigi erfitt með að stunda það. „En það er auðvelt að læra pickleball mjög fljótt og þú getur strax farið að spila“ segir hún. „Þeir sem hafa stundað badminton og tennis læra þetta strax, jafnvel fólk með nýja hnéliði spilar pickleball. Fyrrverandi tennisleikarar spila pickleball af því það er ekki eins mikil áreynsla fyrir líkamann og tennis. Þetta er keppnisíþrótt fyrir þá sem hafa áhuga á því, þeir sem spila eru nær hver öðrum en gerist í tennis, fólk talar meira og hlær meira þegar það spilar pickleball“

 

Ritstjórn desember 2, 2022 07:00