Tengdar greinar

Sparar pláss ef duftkerin fara í leiði mömmu eða pabba

Helga Þóra Jónsdóttir

Það hefur færst mjög í vöxt að fólk velji að láta brenna sig eftir andlátið í stað þess að láta jarðsetja sig í kistu. Milli 60 og 70% þeirra sem látast á höfðuborgarsvæðinu láta nú brenna sig, að sögn Helgu Þóru Jónsdóttur forstöðumanns Fossvogskirkju. „Þetta er að aukast og á bara eftir að aukast“, segir hún. Eina bálstofa landsins er í Fossvogi og ef fólk úti á landi villl bálför, verður að flytja líkið til Reykjavíkur til að láta brenna það þar. Helga segir að það hafi líka færst í vöxtb, þó ekki sé það í sama mæli og á höfuðborgarsvæðinu. Bálstofan í Fossvogi er orðið 70 ára gömul og þar eru tveir ofnar sem voru nýlega endurnýjaðir. Um ástæðurnar fyrir því að fleiri og fleiri vilja láta brenna sig segir Helga að það hafi aukist smám saman og  til að mynda hafi orðið sýnileg aukning í bálförum þegar duftgarðurinn Sólland var opnaður, en hann stendur á fallegum stað við Fossvogskirkjugarðinn.

Duftkerin taka miklu minna pláss

„Ég held líka að umhverfisumræðan skipti þarna máli“, segir Helga. „Það þykir ekki skynsamlegt að eyða öllu þessu landi undir kirkjugarða og enda með þá lengst upp í sveit, ef fólk vill láta jarða sig í garði. Menn sáu þegar Sóllandið kom að þar var hægt að hafa miklu fleiri leiði á svona litlum landskika.  Kirkjugarðarnir mælast nú til þess að fjölskyldur noti leiði, kannski mæðra og feðra, og láti jarðsetja sig þar í duftkerum sem eru sett ofaná kisturnar.  Það er auðvelt að koma duftkerunum fyrir þar og það komast átta duftker fyrir ofaná einni kistu“, segir hún.

Líkkistur og duftker uppi á hillu

Þarf að brenna líkkistuna?

Helga segir að fólk hringi töluvert í kirkjugarðana til að spyrjast fyrir um bálfarir. Það spyrji fyrir sjálft sig og líka aldraða foreldra sína. „Umræðan er að aukast og fólk er frjálslegra að ræða um dauðann, sem var lengi „tabú“. Fólk er farið að ræða þetta og láta aðstandendur vita hvar það vill hvíla“, segir hún.  Við bálför brennur lík á  2 klukkustundum og verður að þurrum steinefnum, eða dufti. Helga segir að margir velti fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að brenna lík í kistunni, sem kostar sitt, en kistan þurfi að fara með í ofninn, hún sé eldsmaturinn fyrir bálförina.  Aðspurð segir hún að enn hafi ekki komið til tals að reisa bálstofu úti á landi, enda sé það afar kostnaðarsamt.

Hér fyrir neðan er mynd af Sóllandi þar sem þessi litli engill vakir yfir.

Sólland

Ritstjórn september 7, 2023 07:00