Spennandi flétta og flott persónusköpun

Babúska eftir Hallveigu Thorlacius er spennandi og vel fléttuð sakamálasaga, ekki ólík rússnesku dúkkunum sem hún er nefnd eftir. Í hvert sinn sem ein dúkka er skrúfuð sundur birtist önnur og koll af kolli þar til loks glittir í þá minnstu innst í kjarnanum. Í raun eru þetta tvö sakamál sem lögreglukonan Fanney glímir við og til að leysa annað þeirra nýtur hún talsverðrar hjálpar Lenu, rússneskrar vísindakonu með umtalsverða innsýn í andleg málefni.

Sagan hefst þegar Svetlana, rússnesk stúlka, er á leið heim úr vinnunni. Hún skúrar á lögfræðiskrifstofu og er á leið upp Hverfisgötu þegar hún sér lúxusbíl koma á miklum hraða og keyra á unglingsstúlku. Bíllinn stoppar ekki en Svetlana fær vonda tilfinningu því henni sýnist að bíltegundin sé sú sama og annar eigandi vinnustaðar hennar ekur um á.

Á sama tíma norður í Urriðavík sjást undarleg ljós og vera á sveimi.  Mönnum er ekki rótt, einkum þegar nokkrir bændur í sveitinni deyja snögglega. Kannski hefur vond samviska gengið í arf þar í sveit því Birta, fjórtán ára niðursetningur, hengdi sig úti í fjósi á bænum þar sem hún var vistuð fyrir um það bil öld. Það hafði verið farið illa með hana og kannski er tími reikningsskilanna kominn.

Fanney kemst fljótt á spor lögfræðingsins sem á bílinn en alls konar pólitík virðist ætla að standa í vegi fyrir rannsókninni. Þegar hún er kölluð á æskuslóðirnar norður í Urriðavík er það kærkomn hvíld frá streðinu í Reykjavík.

Þetta er vel uppbyggð sakamálasaga og Hallveig heldur öllum þráðum lipurlega í hendi sér og fléttar þá trúverðuglega og vel saman í lokin. Textinn er líflegur og rennur vel og persónurnar skemmtilegar. Tengslin við þjóðsagnaarfinn og trúna á hið yfirnáttúrulega eða innsæi mannsins er ánæguleg viðbót við hefðbundna glæpasögu. Þetta er flottur nýr sakamálahöfundur sem stigið hefur fram á það svið bókmenntanna og gefur hinum yngri ekkert eftir þegar kemur að spennandi plotti.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 24, 2024 15:04