Tengdar greinar

„Stærsta pólitíska ævintýri lífs míns“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var önnur af tveimur fyrstu borgarfulltrúum Kvennaframboðsins í borgarstórn Reykjavíkur árið 1982.  Hún hefur átt glæstan feril í pólitíkinni varð alþingismaður og ráðherra og hefur á undanförnum árum starfað fyrir alþjóðastofnanir að margvíslegum verkefnum. Kvennaframboðið kom sannarlega eins og eins og hvítur stormsveipur inní íslenska pólitík,  og í ræðu sinni á fjörutíu ára afmæli Kvennaframboðsins, sagðist Ingibjörg Sólrún hafa skynjað að þær sem stóðu að Kvennaframboðinu hefðu skynjað tímans þunga nið og náð að fanga þarfir og kröfur kvenna og búa til úr þeim nýtt og öflugt pólitískt tæki. Síðan sagði hún.

Ég verð enn innblásin og kemst í baráttuhug þegar minningarnar frá fyrstu mánuðum Kvennaframboðsins streyma til mín. Við byggðum okkar eigin draumahallir, úr okkar eigin byggingarefni og með okkar eigin aðferðum. Þessir fyrstu mánuðir – vinnan, samveran, vináttan, starfsgleðin – voru stærsta upplifun og ævintýri lífs míns. Þetta var svolítið eins og að kynnast ástinni í fyrsta sinn – og þessi ást var innblásin af ríkri réttlætiskennd.

En þetta gekk ekki átakalaust fyrir sig og það var sótt að okkur bæði af vinum og vandalausum, konum og körlum og við ýmist kallaðar svikarar eða fimmta herdeildin´sem væri að halda á lofti þeirri falskenningu að kynferði væri afgerandi í að skipa fólki sess og marka því kjör og aðstæður. Bæði frá hægri og vinstri var þessari kenningu hafnað þrátt fyrir þá himinhrópandi staðreynd að á þeim tíma voru konur aðeins 5-6% fulltrúa á þingi og sveitarstjórnum og aðeins um 3% giftra kvenna á Íslandi náði meðaltekjum borið saman við 61% karla.

En það skipti í sjálfu sér engu máli hversu mikið á okkur var barið því við vorum sannfærðar um að við vorum að gera rétt enda hefur það auðvitað komið á daginn að Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn mörkuðu ekki bara tímamót í lífi okkar sem að þessu stóðum, þau mörkuðu tímamót í íslenskum stjórnmálum. Það er í rauninni hægt að draga línu í tímatal kvennabaráttunnar og tala um fyrir og eftir 1982 og 1983. Eftir þetta varð ekki lengur undan því vikist að taka mark á konum, hlusta eftir röddum þeirra og þörfum og gera hindranir, sem urðu á vegi þeirra á degi hverjum, að pólitísku úrlausnarefni. Við hættum að banka á dyr flokkanna og biðja um áheyrn, við réðumst til atlögu við þá og það valdakerfi sem hafði virt þarfir og óskir kvenna að vettugi um aldir og árþúsundir. Við ruddum braut þar sem voru óljósir troðningar áður, eins og Magdalena Schram orðaði það í eftirminnilegri ræðu á hótel Borg í apríl 1993.

Þegar ég segi þetta er ég ekki að varpa rýrð á þær hreyfingar sem á undan fóru og mikilvægi þeirra fyrir kvennabaráttuna. Ekkert gerist í tómarúmi og þessar hreyfingar, Kvenréttindafélagið, Úur og Rauðsokkur, en margar okkar höfðu starfað í þessum samtökum, plægðu jarðveginn sem framboðshreyfingar kvenna, Kvennaframboð og Kvennalisti, sáði svo í þegar rétta stundin var runnin upp. Allt hefur sinn tíma og það er eðli grasrótarhreyfingar kvenna að taka á sig form og mynd í takt við þarfir og kröfur tímans – hún er á stöðugri hreyfingu. Aðeins þannig þjónar hún tilgangi sínum.

Með framboðshreyfingum kvenna breyttist kosningahegðun kvenna og þær tóku í auknum mæli að kjósa konur og kjósa öðru vísi en karlar. Konum fjölgaði í öruggum sætum á framboðslistum, leikskólar, launajafnrétti og fæðingaroflof urðu stefnuskrármál flokkanna.

Það er óumdeilt að á þeim 40 árum sem liðin eru frá stofnun Kvennaframboðsins hefur náðst mikill árangur í feminískum baráttumálum, hin feminíska hreyfing er líka orðin fjölskrúðugri en hún var en að mörgu leyti er andstaðan líka orðin fjölbreyttari og á stundum heiftúðugri.  Við eigum enn langt í land raunverulegs jafnréttis og þó að við höfum séð mörg vígi falla þá hefur feðraveldið, þetta árþúsunda gamla valdakerfi,  sýnt mikla getu til að viðhalda sjálfu sér á sama tíma og það er á góðri leið með að tortíma öllu öðru.

Við erum enn í viðjum menningarbundins arfs þar sem líf og störf, tilfinningar og gildismat kvenna er vanmetið og vanvirt.

Ennþá liggur víglína í gegnum líkama kvenna og klæðnaður kvenna, frjósemi og kynhegðun er í senn skotmark og herfang. Kannski hefur þetta aldrei birst með eins augljósum hætti og nú þegar kynbundið ofbeldi gegn konum, þungunarrof, vændi og staðgöngumæðrun eru dagskrármál í pólitískri umræðu dagsins. Líkami kvenna er pólitískt viðfang og allt of mörgum finnst að aðgangur að honum eigi að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði með það að markmiði að fullnægja þrám, órum og löngunum annarra.

Sem betur fer hafa ungar og kraftmiklar konur risið upp, skorið upp herör gegn þessum hugmyndum og oftar en ekki orðið að skotmarki sjálfar fyrir vikið. Enn og aftur er gripið til gamalkunnra aðferða gegn konum sem ögra feðraveldinu, þær eru smánaðar eða það er hlegið að þeim og ef það gengur ekki þá er beitt þöggun. En ekkert af þessu mun ganga þegar til lengri tíma er litið því við erum með söguna og framþróunina okkar megin. Það er kannski hægt að tefja okkur eitthvað í þessari baráttu en ef við höldum vöku okkar ætla ég að leyfa mér að halda því fram að sigurinn sé

á endanum okkar.

Það var mikill hugur í þessum ungu Kvennaframboðskonum. Ingibjörg Sólrún er þriðja frá vinstri á myndinni

 

Ritstjórn mars 14, 2022 16:08