Tengdar greinar

Starfslok – Ferðalag inn í framtíðina

Líney Árnadóttir

Líney Árnadóttir, sérfræðingur í starfsþróun og verkefnastjóri hjá VIRK skrifar:

Stefnir þú að því að vinna til 65, 70 eða lengur? Sértu að nálgast þennan aldur og ekki gefið þér tíma til að velta þessu fyrir þér geta frístundir í sumarleyfinu verið kjörnar til þess. Allt útlit er fyrir að í framtíðinni verði aukinn sveigjanleiki gagnvart starfslokum og að við getum haft meira val um hve lengi við vinnum. Sumir eru svo vinnumiðaðir að þeir vilja vinna eins lengi og hægt er. Aðra dreymir um að hætta að vinna og undirbúa það vel og tímanlega. Svo eru þeir sem láta ráðast hvernig hlutirnir þróast. Það ætti þó enginn að láta það koma sér á óvart að breytingar séu framundan þegar þessi aldur nálgast.

Hvert er ferðinni heitið?

Flest þekkjum við hvað það getur verið gaman að setjast niður og skipuleggja gott ferðalag, velja áfangastaði, skoða flugáætlanir, afþreyingu og viðburði. Allt verður ferðalagið svo miklu skemmtilegra þegar við skipuleggjum sjálf og ráðum ferðinni. Væri ekki kjörið að gera það sama þegar starfslokin nálgast? Byrja þá tímanlega að hugsa um hvernig okkur langi að verja næstu árum eða áratugum því framundan eru að öllum líkindum fjölmörg ár með spennandi tækifærum.

Tímamót tækifæra

Við þessi tímamót stöndum við frammi fyrir því að eiga val um hvaða leiðir við ættum að velja, svona svipað og þegar við vorum um sextán til tvítugt. Að þessu sinni erum við reynslunni ríkari og getum leyft okkur að velja nákvæmlega það sem hugurinn girnist, að því gefnu að heilsa og fjárhagur leyfi.

Okkur gæti dottið í hug að leggjast í ferðalög, flytja á nýjan stað, arka um fjöll, passa barnabörnin, rækta garðinn, skrifa bók, gera upp bílinn hans pabba, mastera golfið og svo mætti lengi telja. Vanti hugmyndir má finna yfir 200 viðfangsefni sem hægt er að taka sér fyrir hendur á síðunni Starfslok á velvirk.is.

Nýr starfsferill?

Ef þig langar að vinna lengur en hefur ekki tækifæri til eða langar ekki að halda áfram í starfinu þínu, ættir þú að geta fundið nýja leið upp á eigin spýtur eða leitað hugmynda á Starfsloka síðunni. Þú gætir jafnvel skapað þér alveg nýjan starfsferil, launaðan eða ólaunaðan.

Það er æ algengara að fólk skapi sér nýjan starfsferil á efri árum og ekki óalgengt hér á landi að fólk sæki til að mynda í störf í ferðaþjónustu eða komi sér upp sjálfstæðum rekstri. Það getur verið kostur að vinna minna eða í fjarvinnu, vera í hlutastarfi eða hafa einhvern sveigjanleika.

Til að finna út hvaða starfsvettvangur gæti hentað þér getur þú horft yfir reynslu þína á vinnumarkaði eða skoðað gagnvirka starfsþróunarefnið Hver ert þú? á virk.is. Það er aldrei of seint að breyta til.

Hvað sem þú kýst að gera, snúðu stöðunni þér í hag og hafðu í huga að það er í þínum höndum að veita draumum þínum athygli, velja áhugaverð viðfangsefni og plana ferðalag þitt inn í framtíðina.

 

Ritstjórn júlí 25, 2023 07:00