Stimplaði sig út í síðasta sinn

„Kaflaskipti urðu í tilveru minni síðasta föstudag. Ég stimplaði mig út í síðasta sinn. Êg er þakklát, fyrir að hætta störfum á mínum forsendum, á þessum tíma,framundan sumardagar með nýjum áskorunum og nýjum ævintýrum“, þannig hljóðar færsla Guðbjargar Þorvaldsdóttur launafulltrúa á Facebook, en hún ákvað að hætta störfum 67 ára. Og færslan heldur áfram.

Hokin af lífsreynslu og lífsgleði fer ég inn í þriðja aldursskeiðið (hefur ekkert með orku pakka að gera) með þakklæti fyrir hvað ég hef lært í gegnum tíðina, upplifað bæði gleði og sorgir, sterkari fyrir vikið. Gert mig að þeim einstakling sem ég er í dag. Motto mitt: Lífið er núna, vertu jákvæð og gefðu af þér.
PS.
Sjáumst á golfvellinum, eða hvar sem er💞

Guðbjörg, eða Gugga eins og hún er kölluð, hefur unnið hjá Grófargili, bókhaldsfyrirtæki á Akureyri síðustu 15 árin. „Ég var aðallega að vinna fyrir Samkaup og á endanum var fyrirtækið orðið mjög stórt, með rúmlega 1200 manns á launaskrá. Þetta var orðið verulega umfangsmikið. Ef maður hefur gaman af tölum og samskiptum við fólk þá er þetta skemmtilegt starf, og ég hef það, mjög gaman af að vera í sambandi við fólk“, segir Gugga. Hún segir að það hafi samt verið blendin tilfinning að stimpla sig út í síðasta sinn. „Ég sakna náttúrulega samstarfsfólksins sem var frábært. En það er líka léttir að losna við álagið sem hefur aukist með stækkun Samkaupa. Núna er ég bara að ná mér niður. Ég fékk mikið af blómum og rosalega margar kveðjur þegar ég hætti, var leyst út með gjafabréfum. Börnin mín kölluðu mig ellilíefyriþega og færðu mér rauðvín, hvítvín og krem fyrir húðina“, segir hún og hér fyrir neðan er mynd af blómum og kveðjum.

Heldur áfram að vera í sambandi við fólk

„Ég óttast ekki framtíðina, ég mun halda áfram að vera í sambandi við fólk. Ég er til dæmis í Sóroptimistaklúbbi Kópavogs, en ég byrjaði í klúbbnum á Akureyri. Þetta eru samtök kvenna sem vilja láta gott af sér leiða og þroskast saman. Fyrirkomulagið er svipað og hjá Rótarý. Þetta starf gefur mér rosalega mikið. Svo er ég í góðum saumaklúbbi, en við höfum verið saman í honum síðan við vorum rúmlega tvítugar. Við hittumst svo stelpurnar sem vorum saman í Gagganum í gamladaga, erum allar 52 módel. Við vorum búnar að tala mikið um að hittast. Svo kölluðum við saman hópinn og það er búið að vera virkilega gaman hjá okkur, við eigum þessar gömlu rætur sameiginlegar“, segir Gugga.

Flutti til að vera nær börnunum

„Svo á ég frábær börn og fjölskyldu og það er númer eitt, tvö og þrjú. Nú sé ég fram á að geta kannski farið að gefa þeim meira af mér“ segir hún glaðlega. Gugga er fædd a Akureyri og bjó þar lengi. Hún missti manninn sinn Sigbjörn Gunnarsson í febrúar árið 2009. Einu og hálfu ári síðar flutti hún til Reykjavíkur. „Ég átti svo dásamlega foreldra, þau voru komin inná elliheimili en tóku ekki annað í mál en að ég færi suður. Ég gat tekið vinnuna með mér og flutti til að geta verið nær börnunum mínum. „Mér fannst þetta svo falleg hugsun hjá þeim og óeigingjörn og er þeim óendanlega þakklát“, segir hún.

Ætlar að njóta sumarsins

Þegar blaðamaður náði í Guggu í síma, var hún á leiðinni í golf í þessu fallega sumarveðri. Hún segist ánægð með að hafa loksins tíma fyrir sig og sitt fólk. „Ég hef þurft að „stimpla“ mig einhvers staðar inn, alveg frá því ég byrjaði í Hreiðarsskóla 5 ára gömul“, segir hún, en það voru rithöfundarnir Jenna og Hreiðar sem ráku skólann og kenndu börnum á Akureyri að lesa. „Núna ætla ég að njóta sumarsins og ætla að hugsa það í haust, hvað mig langar að taka mér fyrir hendur næst. Kannski bæta við mig þekkingu, en ég ætla nú ekki að fara að taka einhver próf, ég er búin með þann kafla í lífinu“, segir hún áður en hún leggur símann á, til að þjóta í golfið í sólinni.

Ritstjórn júní 5, 2019 14:41