Stofnaði SagaMedica eftir að hann hætti störfum vegna aldurs

Þegar Sigmundur Guðbjarnason fyrrverandi háskólarektor varð sjötugur, varð hann að hætta störfum í Háskóla Íslands. Hann hélt þó áfram rannsóknum sínum og fékk aðstöðu á Raunvísindastofnun. Þar hélt f hann áfram að rannsaka lækningamátt íslenskra jurta. Aldamótaárið 2000 stofnaði hann fyrirtækið SagaMedica ásamt Þráni Þorvaldssyni og samstarfsmanni sínum Steinþóri Sigurðssyni, beinlínis í þeim tilgangi að stuðla að því að Íslendingar færu aftur að nota íslensku flóruna sér til heilsubótar.  Þar er hann enn í stjórn, rúmum 15 árum eftir að hann hætti í Háskóla Íslans vegna aldurs, og fylgist með því sem fyrirtækið er að gera.

Byrjaði að rannsaka lúpínuseyði

Sigmundur segist hafa verið forvitinn um lækningamátt íslenskra jurta. Það var lúpínuseyði Ævars Jóhannessonar sem vakti fyrst áhuga hans á efninu. „Ég fór að aðstoða hann og láta rannsaka þetta bæði hér heima og erlendis“, segir Sigmundur. Í kjölfarið tók hann að rannsaka íslenskar jurtir með stúdentum og kennurum úr Háskólanum.  Þeir rannsökuðu í fyrstu 40 jurtir sem flokkast undir lækningajurtir, virkni þeirra gegn bakteríum, vírusum og vissum krabbameinsfrumum. „Sum virkuðu en önnur ekki“ segir hann.

Að nota íslensku flóruna sér til heilsubótar

Þá ákváðu þeir að einbeita sér að áhrifum 5 jurta af þessum 40 og mæla virkni þeirra kerfisbundið.  Þetta voru ætihvönn, geithvönn, blóðberg, vallhumall og lúpína. Þeir fengu Margréti Guðnadóttur til liðs við sig, en hún hafði rannsakað veiruvirkni fram og tilbaka. „Þá sannfærðist ég um að landsmenn ættu að nota íslensku flóruna sér til heilsubótar eins og gert var hér áður fyrr.  Ég skoðaði söguna og það sem hafði verið skrifað um íslenskar lækningajurtir og sannfærðist smám saman um að það væri skynsamlegt að nota valdar jurtir til forvarna gegn sjúkdómum. Sá að það var hægt eð búa til úr þeim vörur, eða borða þær“.

Prófuðu vörurnar sjálfir

Með stofnun SagaMedia segist Sigmundur hafa viljað kom vitneskju sinni um lækningajurtirnar á markað og þróa vörur úr þeim sem gætu gagnast fólki. Hann segir að það hafi verið bráðskemmtilegt að stofna fyrirtækið. „Það var þrennt sem við vorum að glíma við.  Að vörurnar hefðu þá virkni sem þær ættu að hafa og að þær væru öruggar til neyslu. Þær voru prófaðar á tilraunadýrum í sex mánuði og það kom í ljós að þær höfðu engin eitrunaráhrif. Við prófuðum þær svo sjálfir ásamt fleiri sjálfboðaliðum  í 1-2 ár áður en þær fóru á markað. Þá vorum einnig við mjög uppteknir af gæðum vörunnar og gæðum hráefnisins“.

Sakaðir um kukl

En þeir sáu ekki fyrir þá erfiðleika sem þurfti að glíma við þegar þeir stofnuðu fyrirtækið. „Við þurftum að glíma við Lyfjastofnun, en það er þeirra verkefni að sjá um að landsmönnum sé ekki brugguð ólyfjan.  Sumir læknar gagnrýndu þetta og sökuðu okkur um kukl, á meðan aðrir voru mjög áhugasamir um það sem við vorum að gera“.  Nú er Saga Medica með nokkrar vörur á markaðinum, sem menn þekkja og fyrirtækið selur þær í Bandaríkjunum, Kanada og nokkrum Evrópulöndum. Sigmundur segir að hálstöflurnar Voxis, sem eru gerðar úr hvannalaufi séu mest seldu hálstöflurnar á Íslandi í dag.

Íslenska hvönnin er undralyf

Íslenska hvönnin er undralyf

Tók Angelicu og fór til Ástralíu

Ein þekktasta vara fyirtækisins er SagaPro sem virkar á tíð þvaglát og er notuð bæði af konum og körlum.  Þá býður fyrirtækið upp á Angelicu, sem er gerð úr hvannarfræjum, en það er til dæmis ætlað fólki til að ná upp krafti eftir veikindi. „Ég reyndi þetta á sjálfum mér“, segir Sigmundur. „Mér var boðið til Ástralíu til að flytja fyrirlestur en fannst það alltof mikið fyrirtæki. Eftir að hafa tekið Angelicu í tvo mánuði, pantaði ég far til Ástralíu fyrir mig og konuna mína“. Hann segir að þetta efni hafi einnig reynst þeim vel sem glíma við síþreytu.  Sigmundur og eiginkona hans Margrét Þorvaldsdóttir eru nú að skrifa bók um heilnæmi jurta og sögu jurtalækninga hér á landi og víðar, sem Háskólaútgáfan mun gefa út, annað hvort á þessu ári eða því næsta.

Annt um að þetta barn mitt lifi af

„Ég var ekkert að hugsa um erfiðleikana þegar við stofnuðum fyrirtækið, eða aldurinn. Ég velti fyrir mér hvað ég vildi gera og gerði það. Auðvitað fór spariféð okkar í þetta. Við vissum að það gæti farið veg allrar veraldar, en við höfðum bæði áhuga á þessu“, segir Sigmundur um sig og Margréti. Við erum sannfærð um að mikil tækifæri eru fólgin í að byggja upp iðnað í kringum heilsuvörur úr íslensku flórunni. Það er bara að nýta þau.  Sigmundur hefur ekki hugsað um að selja sinn hlut í SagaMedica. „Ég er í stjórninni og fylgist alltaf með þessu, mér er annt um að þetta barn mitt lifi af. Ég verð þarna vonandi enn um sinn “, segir hann að lokum

 

Ritstjórn maí 26, 2016 10:45