Tengdar greinar

Stundum ástæða til að gera með sér kaupmála

Haukur Örn Birgisson

Margir mæla með því að fólk sem giftir sig  um miðjan aldur eða á efri árum geri kaupmála. Oft á fólk börn frá fyrri samböndum og það skiptir máli að Það sé á hreinu hver á hvað og hver erfir hvern. Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni  segir að í hverjum hjúskap geti eignafyrirkomulagið verið þrískipt.  Um er að ræða sameign, hjúskapareign og séreignir. Sameignir eru þær eignir sem parið á saman. Það er gjarnan fasteign sem báðir hafa lagt fé í og borga jafnt af lánum, þar sem báðir aðilar eru þinglýstir eigendur. Bílar eru iðulega hjúskapareign hvors aðila fyrir sig. Séreign, er eign sem annað hjónanna á og kemur ekki til skipta ef hjúskaparslit verða. Haukur segir að það sé algengast að þetta séu eignir sem fólk hafi fengið í arf, með þeirri kvöð að þær verði séreign viðkomandi eða þá að tiltekin eign hafi verið gerð að séreign með gerð kaupmála.

Hægt að gera kaupmála hvenær sem er

Þegar hjón gera með sér kaupmála er það stundum gert áður en gengið er í hjónaband, eða á eftir. Það er hægt að gera kaupmála hvenær sem er, á meðan hjónaband varir og það er líka hægt að breyta honum.  Kaupmáli er samningur milli hjóna um að tilteknar eignir skuli vera séreign annars hvors þeirra.  Ef til skilnaðar kemur skiptast þessar séreignir ekki eins og aðrar eignir, en standa utan við búið. Það er best að láta gera kaupmála hjá lögmönnum, til að tryggja að allt sé eftir bókinni. Hjónin undirrita kaupmálann og síðan sér lögmaður um að hann sé skráður hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Það þarf að gera til að hann öðlist lagalegt gildi.

Ýmsar ástæður fyrir því að hjón gera kaupmála

Haukur segir að kaupmálar séu yfirleitt gerðir á meðan allt leikur í lyndi, en það sé fyrst þegar ágreiningur rísi sem fólk þurfi á þeim að halda. Hann segir að það geti verið ýmsar ástæður fyrir því að tilteknar eignir annars hvors makans séu séreign hans.  Það er ekki bara til að allt sé skýrt sem lýtur að makanum, heldur einnig til að koma í veg fyrir, lendi makinn í fjárhagsvandræðum, að ekki sé hægt að ganga að séreigninni.  Stundum er annar makinn mun efnameiri þegar gengið er í hjónaband og kaupmáli tryggir þá að eignum hans er haldið utan við skiptin.  Stundum eru ákvæði um að kaupmálinn sé tímabundinn og falli niður hafi fólk verið í hjúskap í ákveðinn tíma. Falli hann niður verða eignirnar hjúskapareignir.

Getur borgað sig að gera erfðaskrá

Kaupmálinn gildir aðallega ef til skilnaðar kemur, en getur einnig haldið gildi sínu við andlát. Kaupmáli getur samt einnig fallið niður við andlát. Við andlát er séreign ekki skipt, nema það hafi verið sérstaklega tekið fram i kaupmálanum.  Haukur segir að almenna reglan sé sú að þegar fólk fellur frá, erfi makinn 1/3 eignanna en börnin 2/3. Þessir erfingjar kallast skylduerfingjar viðkomandi. Ef fólk vill breyta þessu þannig að aðrir komi til með að erfa það, getur það gert erfðaskrá sem segir fyrir um vilja þess varðandi eignirnar. Þó sé aldrei hægt að ráðstafa meiru en 1/3 eigna sinna með erfðaskrá.

Getur átt rétt á að sitja í óskiptu búi

Þegar maki fellur frá í hjónabandi, getur eftirlifandi maki átt rétt á að stija í óskiptu búi, með börnum beggja, séu þau fyrir hendi.  Ef þau eiga sitt hver börnin, þ.e. stjúpbörn, þá á eftirlifandi maki einungis rétt til setu í óskiptu búi ef mælt var fyrir um þann rétt í erfðaskrá skammlífari makans eða eftirlifandi maki fær samþykki stjúpbarna sinna til þess að sitja áfram í óskiptu búi. Réttur eftirlifandi maka til þess að sitja í óskiptu búi fellur þó niður, gangi hann í hjúskap að nýju.

 

 

Ritstjórn desember 3, 2019 06:57