Sungið hlutverk Cavaradossi yfir 400 sinnum

Kristján hefur staðið á sviði í sextíu ár.

Kristján Jóhannsson söng í fyrsta sinn opinberlega 8 ára gamall þegar hann kom fram með föður sínum, Jóhanni Konráðssyni í KEA byggingunni á Akureyri en þar hafði Jóhann komið fram reglulega í áratugi. Í þetta sinn tók Jóhann stubbinn sinn með og þar með var ekki aftur snúið. Kristján hefur unað sér best á sviði allar götur síðan og við Íslendingar höfum notið góðs af.

Hefur áður sungið þetta sama hlutverk

Söngferill Krisjáns er skrautlegur enda hefur hann sungið í mörgum frægustu óperuhúsum heims. Hann er nú fluttur heim og nýtur þess að syngja á Íslandi, bæði fyrir landa sína og erlenda gesti sem nú eru allmargir hér á landi. Kristján kemur líka fram á stórum sem smáum samkomum og segist sem betur fer hafa nóg að gera og vera mjög þakklátur forsjóninni fyrir að geta enn verið með eftir að vera búinn að syngja í allan þennan tíma.

Tosca dásamleg Ópera

Kristján í hlutverki Cavaradossi í Teatro dell´Opera Roma 1992.

Kristján er núna að fara að syngja í uppfæslu á óperunni Tosca eftir Puccini. „Í Tosca koma fram söngvarar á heimsmælikvarða og það er  dásamlegt að geta enn tekið þátt í slíkri óperu,“ segir Kristján. „Ég er elstur í þessari uppfærslu og Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitastjóri er yngstur.“ Kristján syngur hlutverk Cavaradossi en hann hefur sungið þetta hlutverk yfir 400 sinnum í óperuhúsum um allan heim.

Valinn maður í hverju rúmi

Óperan Tosca er stórbrotið verk í þremur þáttum eftir meistara óperunnar Giacomo Puccini. „Tosca sjálf er í höndum stórkostlegrar, breskrar söngkonu, Claire Rutter sem hefur fengið gífurlegrar viðurkenningar fyrir frammistöðu sína. Leikstjórinn er Greg Eldridge og er nálgun hans mjög fagmannleg. Í þessari uppfærslu er valinn maður í hverju rúmi og við lofum skemmtun á heimsmælikvarða,“ segir Kristján alsæll með þessa nýju uppfærslu á óperunni Tosca sem verður frumsýnd 21. október næstkomandi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn september 25, 2017 10:02