Súpa á aðventunni

Við erum mörg komin í matargírinn og búum til jólakræsingar í stórum stíl. Í uppskriftum þessara kræsinga er oft innihald sem við vitum að er ekki gott fyrir okkur í miklum mæli eins og fita og sykur. En af því jólin eru bara einu sinni á ári leyfum við okkur þetta því í samverunni sem fylgir jólunum felst svo miklu meira en að borða. En matur er nú einu sinni það sem sameinar okkur og er sannarlega í anda jólanna. En af því við vitum hvað er í vændum er góð hugmynd að vera með léttari máltíðir áður en sjálfir jóladagarnir ganga í garð með sínum stóru kjötmáltíðum. Þegar við tölum um látta máltið eru það gjarnan máltíðir þar sem kjöt er ekki með en aðaláhersla er á grænmeti. Hér er súpa sem sannarlega fellur undir þessa skilgreiningu án þess að í henni felist öfgar. Nú erum við að tala um brokkólí sem er sérlega næringarríkt grænmeti. Borða má allan spergilinn nema allraneðsta hluta stilksins. Hafið í huga að stór hluti næringargildisins liggur samt í stilkunum.

500 g ferskt eða flosið brokkolí

1 laukur, saxaður

l vatn

1 grænmetisteningur

2 msk. ólífuolía

1 msk. hveiti

1 1/4 dl matreiðslurjómi

1 bolli rifinn ostur, t.d. óðalsostur en ementhal ostur er líka mjög góður

salt og nýmalaður pipar eftir smekk

Setjið vatnið í pott og sjóðið brokkolíið í 5 mínútur. Takið þá 200 g af því og geymið í skál. Bætið lauknum saman við ásamt grænmetisteningnum og sjóðið áfram í 15 mín. Setjið súpuna því næst í matvinnsluvél og maukið og setjið aftur í pottinn eða maukið hana með töfrasprota í pottinum. Hrærið því næst hveitinu saman við olíuna og hrærið út í súpuna til að þykkja hana. Sjóðið áfram í 2-3 mín. á meðan súpan þykknar. Bætið þá rjóma og rifnum osti út í og smakkið til með piparnum og salti ef vill en athugið að osturinn er saltur. Hrærið vel á meðan osturinn er að bráðna. Látið snöggsoðna brokkolíið út í og berið súpuna fram. Gott er að bera niðurskorið langt brauð fram með þessari súpu.

 

Ritstjórn desember 11, 2020 12:48