Tengdar greinar

„Svo var ég svo heppinn að fótbrjóta mig,“

Flestir Íslendingar telja sig geta rakið ættir sínar aftur til Haraldar hárfagra, Eiríks blóðaxar, Ragnars loðbrókar eða annarra norrænna konunga. En hvað ef við erum bara flóttamenn og á eilífum flótta um heiminn? Þessum spurningum og mörgum öðrum um eðli og upplag landans svarar Gísli Einarsson í Ferðabók sinni á Söguloftinu í Landnámssetrinu Borgarnesi. Þar kemur margt á óvart og menn geta orðið fróðari um eitt og annað.

Gísli er að búa sig undir sýningu þegar við tökum hann tali en hann er alinn upp við að fólk segi hvert öðru sögur og það hefur verið undirstaða þess að hann hefur undanfarin ár mest starfað við að segja frá. En hvernig varð þessi sýning til?

„Forsagan er sú að 2007 gerðum við stand-up sýningu sem hét Mýramaðurinn, fyrirmyndin var norskur leikhópur sem gerði grín að Norður-Norðmönnum. Þeir voru með skýringarmyndir á tjaldi sem þeir notuðu til að teygja söguna. Ég tók það aðeins lengra og bjó til vídeósketsa og fékk meira að segja þekkta leikara og aðra minna þekkta til leika en stefið var að verið var að segja molbúasögur af Mýrarmönnum, sannar sögur í bland við upplognar. Þetta gekk ljómandi vel. Síðan hafa Kjartan og Sirrý af og til nefnt að gera eitthvað meira.

„Við vorum einhvern tíma að tala um einhverjar tilvitnanir sem við höfðum rekist á úr bókinni þar sem þeir voru fjalla um fólk úr ýmsum landshlutum og töluðu tæpitungulaust.“

Þessi hugmynd að gera eitthvað upp úr Ferðabók Eggerts og Bjarna kom frá Páli Brynjarssyni sem var lengi bæjarstjóri hér í Borgarnesi. Við vorum einhvern tíma að tala um einhverjar tilvitnanir sem við höfðum rekist á úr bókinni þar sem þeir voru fjalla um fólk úr ýmsum landshlutum og töluðu tæpitungulaust. Hann spurði mig þá hvort þetta væri ekki fyrirtakst beinagrind í einhvern fíflagang eða grín. Ég var alltaf á leiðinni með að fara að gera eitthvað með þetta og það liðu eitthvað tvö, þrjú ár frá því að hugmyndin kom fram þar til ég ákvað af rælni að henda inn umsókn í uppbyggingarsjóð Vesturlands og sækja um styrk til að þróa hana frekar.

Ég fékk myndarlegan styrk og þá var hugmyndin farin að þróast þannig að ég vissi að ég þyrfti ákveðna tæknilausn tengda því að hafa bók í glerkassa sem gæti talað og styrkurinn fór í það. Hann var hins vegar keyrið sem þurfti til að keyra mig áfram í að gera eitthvað með þetta. Svo var ég svo heppinn að fótbrjóta mig og var í þrjá mánuði í gifsi síðasta haust og hafði þá ekki annað að gera en að skrifa þetta. Þótt þetta sé ekki merkilegt ritverk tekur tíma að skrifa þetta. Mest eru þetta stolnar sögur og stílfærðar í bland við alls konar hugrenningar,“ segir Gísli.

Fjölskyldan öll með, hver í sínu hlutverki

„Helga á hér á Landnámssetrinu var búin að ákveða frumsýningardag og þá var bara að standa sig, og það small,“ heldur hann áfram. „Það sem mér finnst skemmtilegast við þetta er að þetta endaði sem hálfgert fjölskylduverkefni. Börnin mín öll komu að þessu og konan með óbeinum hætti. Eldri sonur minn og kærastinn hans eru svona leikhúsrottur og þeir leikstýrðu þessu. Yngri sonurinn er tæknimaðurinn og hann bjó til þessa tæknilausn sem þurfti með kærustu sinni. Tengdadóttir er sýningarstjóri en strákurinn stýrir tækninni og Ferðabókinni. Tengdasonurinn kom kom líka að þessu og dóttirin sér um að sminka mig fyrir sýningar. Konan sér svo um að passa svo allir geti gengt sínum hlutverkum.“

Ertu Mýrarmaður sjálfur?

„Nei, ég er Borgfirðingur en hef búið á Mýrunum í 23 ár ef Mýrarnar eru hér en það er skilgreiningaratriði,“ segir Gísli. „Ekki er sátt um landfræðileg fyrirbæri. Einhvers staðar segir að Mýrarnar byrji vestan við Langá en það þýðir að Borg á Mýrum er þá ekki á Mýrum. Ég vil miða við þessi gömlu sýslumörk þar sem Borgarfjarðarsýsla var sunnan Hvítár en Mýrarnar norðan. Ég er hins vegar úr uppsveitum Borgarfjarðar eða úr Lundarreykjardal, fæddur þar og uppalinn.“

En Ferðabók Eggerts og Bjarna; mörgum finnst það rit varla nokkuð sem neinn nennir að glugga í lengur nema fræðimenn.

„Já, það er svolítið þannig en maður finnur víða tilvitnanir í hana ef maður fer eitthvað að grúska. Þessu ótengt hef ég verið að vinna sjónvarpsþáttaröð um matarsögu Íslands frá landnámi til vorra daga til dæmis leituðum við fanga fyrir það verkefni í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Eggert Ólafsson skrifaði líka matreiðslubók sem reyndar hefur aldrei komið út. Annað slagið sér maður í ferðahandbókum og öðru slíku tilvitnanir í þá. Þessar rannsóknir þeirra, þótt margt þyki hlægilegt í dag sem þeir sögðu, voru margar gagnmerkar og þetta var grundvallarrit um jarðfræði, hljóðfræði og landafræði. Búið er að byggja mikið ofan á það var þetta eigi að síður merkileg bók og allir hafa heyrt um hana þótt fáir hafi lesið hana spjaldanna á milli. En að því sögðu vona ég að enginn hafi komið á sýningu hjá mér í þeirri von að þetta sé eitthvað menningarlegt og sögulegt. Nafnið varð samt að vera, þetta varð að heita Ferðabók þótt þetta sé ekki bók í almennum skilningi.“

Örlagaríkir leiðarar í Skessuhorni

Gísli er órjúfanlega tengdur við landsbyggðina í hugum fólks. Bæði vegna þess að hann kýs oftast að klæðast lopapeysum og gúmmístígvélum. Ertu bóndi?

„Nei, ég hef aldrei verið bóndi beint þótt ég sé bóndasonur og alinn upp á bóndabæ þar sem stundaður var blandaður búskapur. Ég bjó í Skagafirði eftir að ég útskrifaðist frá Bifröst og vann í Kaupfélagi Skagfirðinga í tvö og hálft ár. Svo flutti aftur í sveitina og bjó í Lundarreykjadal, í húsinu þar sem ég var fæddur og uppalinn og því fylgdi smáskiki og ég var með nokkrar kindur þar í kofa til að eiga í matinn. Ég hef aldrei náð lengra en að vera nokkurs konar frístundabóndi en ég var afleysingabóndi í nokkur ár. Starfaði við að leysa af kúabændur í Borgarfirði. Var með sex til átta bændur undir og dvaldi í nokkra daga á hverjum bæ til að bændur gætu tekið frí og aðeins slakað á.“

En hvernig leiddist þú út í uppistand og dagskrárgerð í sjónvarpi?

„Þetta gerðist á svipuðum tíma. Árið 1998 stofnuðum við tveir saman héraðsfréttablaðið Skessuhorn. Fyrstu árin skrifaði ég sem ritstjóri leiðara í blaðið. Það þurfti að vera leiðari í þessu blaði eins og öðrum. Mér hefur alltaf fundist leiðarar leiðinlegir, meiningarfullir og þreytandi svo ég hafði mína í léttari dúr, svona kersknisstíl. Ég held að það hafi verið ástæða þess að ég var beðinn að vera veislustjóri á þorrablóti og í framhaldi af því á árshátíð. Svo gerðist það mjög fljótt að ég var farinn að vinna sem uppistandari en aðallega veislustjóri. Auðvitað hafði ég fíflast áður, heima í sveitinni verið í þorrablótsnefnd og slíkt en þetta þróaðist upp úr þessu og fyrstu atvinnutilboðin komu út frá þessum skrifum í Skessuhorni.

Eins var með sjónvarpið. Við sömdum við fréttastofu RÚV, fljótlega eftir að Skessuhorn varð til um að sinna ákveðinni fréttaþjónustu í héraðinu. Síðan þróaðist það áfram eftir að ég var búinn að vera þar með annan fótinn í þrjú ár að ég kom með hugmynd að þáttaröð sem ég kallaði Út og suður. Það var aðallega vegna þess að ég taldi að það vantaði dagskrárefni af landsbyggðinni. Viðkvæðið hafði alltaf verið að það væri svo dýrt að fara út á land en á þessum tíma var það akkúrat að gerast að tæknin var að verða léttari og meðfærilegri svo það þurfti ekki að hafa eins mikið við og hún var ekki eins mannfrek. Við vorum bara tveir og gerðum einhverja hundrað þætti á sjö sumrum og svo kom Landinn í kjölfarið.“

Ekki lífshættulegt en veldur óþægindum

Gísli hefur sagt frá því í viðtölum að hann greindist fyrir nokkrum árum með sjaldgæfan taugsjúkdóm, Pure Autonomic Failure. Hann er ekki lífshættulegur en veldur ýmsum óþægindum.

„Blóðþrýstingurinn er lágur og dettur niður við áreynslu,“ segir Gísli. „Ekkert alvarlegur sjúkdómur en veldur óþægindum á köflum. Það er að hluta til ástæðan fyrir því á sýningunni kom ég því þannig fyrir að ég get tyllt mér. Ég ætti erfitt með að standa alveg í tvo tíma, alla vega kyrr. En ég geng samt sem áður á fjöll og allt svoleiðis.“

„Þau eru ansi lunkinn við það Sirrý og Kjartan alveg frá því opnað var í Landnámssetrinu að búa til afþreyingu.“

Hvað ertu búinn að sýna Ferðabók Gísla Einarssonar (En hvorki Egggerts né Bjarna), lengi?

„Við frumsýndum 14. janúar síðastliðinn,“ segir hann. „Sýndum tvær sýningar annars staðar, vorum með styrktarsýningu í íþróttahúsinu á Svalbarðseyri til styrktar ungum dreng, ellefu ára frænda konu minnar, sem er með taugahrörnunarsjúkdóm. Svo var ég með sýningu á Borgarfirði eystra því ég var þar á ferðinni út af öðru. Hér í Landnámssetrinu fer að nálgast fjörutíu sýningar um það bil 3000 manns hafa sótt okkur heim. Við höfum auglýst síðustu sýningar nú í nóvember en við sjáum hvað setur. Ef hópar óska eftir getum við auðveldlega riggað upp sýningu. Ég hef gert það oft með Mýrarmanninn og stokkið til ef vantar afþreyingu hér. Þau eru ansi lunkinn við það Sirrý og Kjartan alveg frá því opnað var í Landnámssetrinu að búa til afþreyingu.“

Og sú afþreying er vel þess virði að njóta hennar. Ferðabók Gísla Einarssonar er fyndin, svolítið beitt á köflum en sannleikanum verður hver sárreiðastur. Í Landnámssetrinu er fyrirtaksveitingastaður og hægt að borða kjöt í karrí að hætti Gísla og rabarbaragraut á eftir. Það er góður undirbúningur undir það sem bíður á Söguloftinu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 5, 2023 07:00