Svoddan ljós mætti fleirum lýsa

Föstudaginn langa 19. apríl n.k. munu sjö leikkonur flytja Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju og hefst dagskráin klukkan 13. Fimm þeirra fluttu sálmana um síðustu páska í Hallgrímskirkju í Saurbæ og þá kom fjöldi fólks til að hlusta. Þær sem fluttu sálmana þar voru Margrét Guðmundsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir, Kristbjörg Kjeld og Edda Þórarinsdóttir. Tvær bætast nú í hópinn frá í fyrra, þær Ragnheiður Steindórsdóttir og Helga E. Jónsdóttir. Ragnheiður er að vísu enginn nýgræðingur í lestri Passíusálmanna og varð fyrst kvenna til að flytja þá í Seltjarnarneskirkju, þegar hún var bæjarlistamaður þar fyrir nokkrum árum. En það er Steinunn sem er umsjónarmaður dagskrárinnar. „Það var umtalsverð fyrirhöfn að ná hópnum saman fyrir myndatöku og æfingu því svo virkar eru allar þessar konur á aldrinum 66-85 ára!“, segir hún.

Yfirskrift flutningsins að þessu sinni er „Svoddan ljós mætti fleirum lýsa“ og er tilvitnun í hvatningu sem Hallgrímur fékk frá skáldbróður sínum til þess að hefja útbreiðslu á verki sínu. Vorið 1660 sendi Hallgrímur frá sér fyrstu þrjú handritin til þriggja valinna kvenna sem hann treysti til þess að kynna sálmana fyrir öðrum, verja þá fyrir gagnrýni og sjá til þess að þeim yrði ekki „undir bekk varpað“  eins og hann orðaði það. Konurnar voru Ragnhildur Árnadóttir í Kaldaðarnesi, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Helga Árnadóttir í Hítardal, allar innbyrðis tengdar og í áhrifastöðu á sínum tíma. Vorið 1661 fékk Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti fjórða handritið ritað eigin hendi skáldsins, sem er það eina sem varðveist hefur til okkar daga.

Handritin sem þessar samtímakonur Hallgríms fengu frá höfundinum gegndu lykilhlutverki fyrstu árin og aldirnar sem Passíusálmarnir voru að vinna sér sinn einstæða sess í sál þjóðarinnar. Það er til þess að heiðra minningu kvennanna í innsta hring skáldsins sem leikkonurnar sjö sameinast um flutning á verkinu nú.  Tónlistin verður í höndum Björns Steinars Sólbergssonar, organista Hallgrímskirkju. Flutningurinn hefst klukkan 13.00 og lýkur upp úr klukkan 18 á föstudaginn langa.

Það var ljósmyndarinn Hilmar Þorsteinn sem tók myndina af þeim stöllum við Hallgrímskirkju.

 

 

Ritstjórn apríl 16, 2019 14:19