Tengdar greinar

Syntu nær 12 hringi í kringum landið í fyrra

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi, sem hófst í gær og stendur allan nóvembermánuð.  Syndum heitir átakið sem er ætlað að hvetja almenning til að hreyfa sig oftar og meira í daglegu lífi og nota meðal annars sund til þess. Átakið hófst í fyrra, einnig í nóvember og stóð líka í heilan mánuð. Þá var þáttakan gríðarlega góð, að því er fram kemur í tilkynnngu frá Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands. Þáttakan jafngildir því að í fyrra hafi landsmenn synt alls alls 11,6 hringi í kringum landið.

Landsátakið Syndum er viðburður innan Íþróttaviku Evrópu. Markmið vikunnar er að kynna iþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Í tilkynningunni segir svo orðrétt:

Það er margt sem við getum gert til að bæta og viðhalda líkama og sál og allt telur. Íslendingar hafa verið duglegir að stunda sund enda búum við vel að góðum sundlaugum um allt land. Sund er fyrir alla óháð bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æaðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman.

Allir skráðir sundmetrar safnast saman og hægt er að skoða þá á forsíðu átaksins, www.syndum.is. Þar verður einnig hægt að sjá hversu marga hringi landsmenn hafa synt í kringum Ísland. Á síðunni er einnig að finna skemmtilegan fróðleik og upplýsingar um allar sundlaugar landsins.

Ritstjórn nóvember 2, 2022 13:25