Taktu vel á móti þeim sem börnin þín elska

Þegar börnin þín komast á þrítugsaldurinn, breytist sambandið við þau. Verkefnið verður þá að finna sameiginlegan flöt í samskiptunum. Málið fer að snúast um, hversu miklum tíma þið verjið saman og hvernig. Hvaða upplýsingum þið deilið. Hvenær rétt er að taka slaginn við þau og hvenær er best að láta kyrrt liggja. Hvenær á að gefa ráð og hvenær er réttast að þegja.

Samkvæmt nýrri bandarískri könnun segjast 75% foreldra hafa betra samband við börnin sín fullorðin, en þegar þau voru 15 ára. Þessi grein er tekin af systurvef Lifðu núna í bandaríkjunum aarp.org og er eftir Elizabeth Fishel og Jeffrey Jensen Arnett en þau eru að gefa út bók um þetta efni. Og við gefum þeim orðið….

En jafnvel gott samband við uppkomnu börnin getur haft sína hnökra. Þau geta til dæmis verið erfiðir vinir, sem svara ekki símtölum foreldra sinna, hætta við að hitta þau á síðustu stundu, eða sitja og senda vinum sínum sms, á meðan þau eru í fjölskylduboðum.

En foreldrar eiga ekki að vera hræddir við að setja ákveðnar reglur, segja þau Elizabeth og Jeffrey. Eins og þær að nota ekki símann við kvöldverðarborðið, eða biðja um að þau svari alltaf sms-i frá ykkur sem hefst á orðinu MIKILVÆGT.

Fólk sem er að hefja sitt fullorðins líf, þarf á annars konar sambandi við foreldra sína að halda en þegar það var á barns- og unglingsaldri. Það þarf tilfinningalegan stuðning sem hjálpar til við að efla, en ekki veikja, trúna á að þau geti bjargað sér sjálf í lífinu.Uppkomnu börnin þurfa  á foreldrum að halda sem staðfesta að þau hafi getu til að taka á sig ábyrgð, jafnvel þótt það komi afturkippir eða misfellur á þeirri leið.

Hér eru fimm leiðir til að hlúa að vináttu við börnin ykkar, sem eru orðin tvítug og eldri.

Virtu þeirra mörk

Það er grundvallaratriði fyrir börn sem eru að verða fullorðin, að hafa ákveðinn frið, á meðan þau eru að öðlast sjálfstraust til að taka eigin ákvarðanir og læra að standa á eigin fótum. Foreldrum sem hafa haft mjög náið samband við börnin sín á meðan þau voru yngri, kann að þykja særandi þegar þau eldast og vilja ekki hafa pabba og mömmu með í ráðum í öllu. Allt í einu hætta þau að koma jafn mikið heim og hafa heldur ekki tíma til að tala við foreldrana í símann löngum stundum. Það hjálpar að gera sér grein fyrir því að þessi fjarlægð er nauðsynleg þegar börnin eru á þessum stað í lífinu og taka það ekki sem persónulega móðgun.

Hlustaðu meira en þú talar

Nú þarf að sýna sjálfsaga og gæta þess að vera ekki að gefa óumbeðin ráð eða spyrja of nærgöngulla spurninga. Eftir margra ára uppeldisstarf þarf að læra að bíta sig í tunguna, þegar börnin taka ýmist snjallar og heimskulegar ákvarðanir.  Það getur tekið á taugarnar að grípa ekki strax til aðgerða til að leiðrétta mistökin, en ef þú lætur eftir þér að gera það, rænir þú þau tækifærinu til að þróa með sér hæfileikann til að leysa vandamálin sjálf.

Að því sögðu, þá geta komið upp þær aðstæður þegar börnin eru komin á þrítugsaldur, að þú verður að ræða áhyggjur þínar við þau og skipta þér af málum, jafnvel þó þau vilji það ekki og þú sért ekkert sérstaklega ánægður með það sjálfur. Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú átt að segja eitthvað, spurðu sjálfan þig hvort sú hegðun barnsins sem þér mislíkar sé alvarleg, hættuleg eða bara leiðinleg. Til dæmis: Ef sonur þinn kemur órakaður og krumpaður í fjölskylduboðið, er það ekki sérlega huggulegt, en það er hins vegar ekki lífshættulegt. En ef sterkar vísbendingar eru um að dóttir þín sé farin að reykja hass daglega, þá er það vani sem getur skaðað hana. Þú verður að bregðast við því strax og tryggja henni hjálp fagfólks.

Gerðu það sem ykkur finnst skemmtilegt að gera saman

Þegar börnin voru lítil, eyddi fjölskyldan óhjákvæmilega tíma saman. En til að ná tíma með uppkomna barninu þínu, sem hefur fjölmörg járn í eldinum, þarf virkilega að brjóta heilann. Margir foreldrar leggja mikið á sig til að finna tíma og eitthvað skemmtilegt til að gera með þeim. Það getur verið að kaupa miða og fara með þeim á eftirsótta íþróttaleiki, tónleika, fara í hjólreiðartúr, skíðaferð og það er jafnvel hægt að þjálfa með þeim fyrir maraþon hlaup, eins og ein 64ra ára gömul móðir tveggja sona gerði. Eftir hlaupið sagði hún: Ég er slæm í hnjánum, en ég uppgötvaði svo margt um strákana.

Púsluspil fyrir þá sem ekki eru jafn íþróttamannslega vaxnir, er haft eftir annarri móður þriggja sona á aldrinum 18-25 ára. Það færir þau nær hvert öðru að leita sameiginlega að púslum sem vantar. „Ég tek það sem að mér er rétt. Ég ryðst ekki inní líf þeirra og ég ræði yfirleitt aldrei eitthvað sem þeir hafa nefnt í fyrri samtölum. Auk þess virði ég það hvernig þeir tjá sig. Þeir eru stuttorðir og elskulegir. 60-90 sekúndna samtal er langt í þeirra augum.

Verið sammála um að vera ósammála

Helstu kostirnir við að börnin eldast er að þau verða þjálfaðri í að tjá sig. Borið saman við hvernig þau höguðu sér þegar þau voru yngri, eru þau núna líklegri til að ræða málin við foreldra sína og setja niður deilur með friðsamlegum hætti. Þau verða líka betri í að sjá hlið annarra á málunum. Þau þroskast í því hvernig þau koma fram og það þýðir að dómgreindin eykst, þau stjórnast ekki jafn mikið af tilfinningum og það er líklegra að þau hugsi, áður en þau tala.

Ef ágreiningur rís, lægðu öldurnar með því að hlusta á þau án þess að trufla þau og ræða síðan við þau í hlutlausum tóni. Ef það er ekki mögulegt, gerðu þá hlé á meðan þau róa sig niður, rétt eins og þið gerðuð þegar þau voru lítil börn. Að sofa á deiluefninu, eða láta reiðitilfinningar rjátlast af sér, er líka góð leið til að nota við uppkomnu börnin sín, rétt eins og annað fullorðið fólk.

Taktu vel á móti þeim sem þau elska

Þú óskar þess kannski að kærasta sonar þíns, væri ekki með svona mörg tattú eða að kærasti dóttur þinnar væri í betra starfi. En ef það er ekkert í hegðun þeirra sem kveikir aðvörunarljós, reyndu eins og þú getur að taka vel á móti fólkinu sem börnin þín elska. Þegar þau velja sér síðan maka, sættu þig við að það er eðlilegt að hann en ekki þú sért í fyrsta sæti hjá þeim. Jafnvel þegar um stórar ákvarðanir í lífi þeirra er að ræða, eða það hvernig þau mæta miklum erfiðleikum, snúa þau sér fyrst til makans. Jafnvel skylduræknustu uppkomnu börnin gera það. Ef þau gera það ekki, ættirðu að fylgjast með, því sambandserfiðleikar gætu verið í uppsiglingu.

Foreldrar gera sig óþarfa, þegar þeir eru búnir að ala börnin upp. Þá er kominn tími til að elta eigin drauma, á sama tíma og menn rækta góðan vinskap við börnin sem eru orðin fullorðin.

 

Ritstjórn ágúst 3, 2017 10:25