Tengdar greinar

Tannhvöss tengdamamma

Tengdamæður hafa löngum verið hafðar að háði og spotti. Það kunna í það minnsta flestir mis súra tengdamömmubrandara. Þrátt fyrir alla brandarana er hlutverk tengdamóðurinnar mjög mikilvægt, segir í grein á vefnum verywellfamily.com.  Þar segir að ef konur vilji verða góðar ömmur ættu þær að íhuga hvernig tengdamæður þær eru.  Samkvæmt könnun hverrar niðurstöður voru birtar í Time sögðust 60 prósent aðspurðra tengdadætra vera stressaðar í návist tengdamóður sinnar en einungis 15 prósent tengdasona.  Það hafa verið skirfaðar ótal greinar um tengdamæður en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum gildir ekki það sama um tengdafeður. Við glugguðum aðeins í greinina á verywellfamily og eflaust er hægt að heimfæra það sem þar segir um tengdamæður upp á tengdafeður, því það eiga ekki að gilda aðrar reglur um þá.

Tengdamóðir sem vill eiga í góðu sambandi við börn og tengdabörn sín forðast að gagnrýna og gildir þar einu hvort um er að ræða tengdadóttur sína eða tengdason. Tengdamamma ætti til dæmis aldrei að mæta í heimsókn og fara að þrífa. Það mætti skilja slíka hegðun sem henni þætti unga fólkið vera sóðar.  Hún á heldur ekki að gefa óumbeðin ráð eða gefa gjafir sem geta falið í sér neikvæð skilaboð svo sem sjálfshjálparbækur eða kort í ræktina. Það má auðveldlega túlka slíkar gjafir sem fólk sé ekki nógu gott eins og það er.

Margar tengdamæður eru miklar hjálparhellur. Þær lána peninga, sinna ýmsum snúningum og hjálpa til við heimilisverk. Þetta er tengdamóðirin sem kemur oft óbeðin með heimalagaðan mat, fullan poka af matvörum eða gefur nytsamleg eldhúsáhöld. Þetta getur verið þakklátt sérstaklega ef hjónin eru ung og að byrja að búa. Þessi tegund af hjálpsemi getur þó orðið þreytandi með tímanum sér í lagi þegar ungu hjónin átta sig á að þau geta staðið á eigin fótum og vilja gera það. Þá getur hegðun tengdamóðurinnar orðið uppáþrengjandi og skapað leiðindi. Það ætti að leyfa ungu hjónunum að sjá um sig sjálf.

Ástæða samskiptaörðugleika milli tengdadóttur og tengdamóður má rekja til þess að sú síðarnefnda var mikilvægasta konan í lífi sonarins en er það ekki lengur. Konan hans er númer eitt. Þannig á það líka að vera en margar mæður eiga samt sem áður erfitt með að sætta sig við þessa staðreynd, sér í lagi ef þær eru ekkjur eða fráskildar og eiga ekki í nánum samskiptum við önnur börn sín. Mæður ættu af fremsta megni að reyna að láta ekki syni sína velja milli þeirra og eiginkvenna sinna. Það er barátta sem er dæmd til að tapast.

Ýtna tengdamóðirin er einn hópur tengdamæðra, það eru þær sem geta ekki virt mörk.  Stundum eru þær fýlulegar eða koma í heimsókn óboðnar og þegar illa stendur á. Hér eru nokkrar ráðleggingar til þeirra.

Ef þú færð lykil að heimili tengdadóttur þinnar notaðu hann þá einungis ef þú ert beðin um að fara inn á heimilið og þau eru ekki heima. Notaðu lykilinn bara ef það er algerlega nauðsynlegt.

Ekki koma í heimsókn nema hringja á undan þér eða láta vita með fyrirvara að þú ætlir að koma í heimsókn.

Ekki búast við því að þér verði boðið með í frí eða ferðalög, né heldur að þér sé alltaf boðið ætli unga fólkið að bjóða vinum sínum heim.

Þegar tengdadóttirin er barnshafandi hafðu þá í huga að það er ekki víst að hún vilji að þú komir inn á fæðingarstofuna á meðan á fæðingu stendur eða skömmu eftir fæðinguna. Stundum er öfum og ömmum ekki einu sinni boðið á sjúkrahúsið í heimsókn, því ungu foreldrarnir vilja eiga þessa stund fyrir sig. Þetta getur verið verulega erfitt fyrir nýbakaða ömmu eða afa en þau verða að taka tillit til óska foreldranna.

Þegar að tengdamóðir verður amma verður enn nauðsynlegra að halda góðum samskiptum við tengdabörnin.  Það eru þau sem hafa mikið um það að segja  hvort tengdamóðirin fær að umgangast barnabörnin. Ef  öfum og ömmum tekst að halda góðu samband við börn og tengdabörn verða þau ómetanleg fyrir barnabörnin. Ef þau á hinn bóginn hafa átt í slæmum samskiptum við börn og barnabörn má vel vera að þau fái ekki að umgangast barnabörnin og það er eitt það sorglegasta sem til er.

Tengdamæður ættu að muna að regla númer eitt í samskiptum við fullorðin börn er: fjölskyldubönd eru engin afsökun fyrir ókurteisi. Fólk ætti að leggja sig fram við að umgangast tengdabörnin sín af virðingu og væntumþykju á þann hátt er kannski hægt að byggja upp traust samband til framtíðar.

Ritstjórn mars 5, 2019 07:46