Tekjulægstu í hópi aldraðra með 68 þúsund á mánuði

Haukur Arnþórsson

Kjör eldri borgara hér á landi eru orðin betri en eftir hrun og eru nú svipuð og árið 2007. Slakinn sem varð á kjörum aldraðra við hrunið hefur þó ekki verið unninn upp. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar dr. Hauks Arnþórssonar, stjórnsýslufræðings, sem gerð var fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og sagt var frá í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun og á vef RÚV.

Í viðtali við morgunútvarpið sagði Haukur að slakinn sem varð á kjörum þeirra eftir hrunið hafi ekki verið unninn upp. Staða aldraðra sé þó betri en í hruninu. „Kjörin eru orðin svipuð og jafnvel betri en þau voru fyrir hrun. Einhvern tíma var talað um forsendubrest þegar eitthvað gerðist eftir hrunið. Þau hafa ekki fengið til baka það sem þau töpuðu á hruninu en staða þeirra er orðin svona sýnu betri en hún var í hruninu nema hjá þeim sem áttu miklar eignir og höfðu eignatekjur sem sumt gamalt fólk hefur. Það tapaði um 70% af tekjum sínum og það er enn þá þannig,“ segir Haukur.

Lægstu laun aldraðra 68.000 krónur á mánuði

Meðallaun fólks á eftirlaunum eru um það bil helmingur af þeirri upphæð sem vinnandi fólk þénar á mánuði. Um 80 prósent aldraðra hafa á bilinu 200.000 til 450.000 krónur í mánaðarlaun, fyrir skatt. Tekjulægstu og tekjuhæstu hóparnir skera sig úr, að sögn Hauks. Þannig séu um 3000 til 3500 aldraðir sem búi á hjúkrunarheimilum og fái 68.000 krónur í vasapeninga á mánuði. Í hópi þeirra tekjuhæstu er fólk með yfir milljón á mánuði að meðaltali.

Greiðslur úr lífeyrissjóðum hafa hækkað

Lífeyrissjóðir hafa að meðaltali hækkað greiðslur um tíu prósent á ári undanfarin ár og segir Haukur það hafa vakið athygli hans við gerð rannsóknarinnar. Upphæð greiðslna frá Tryggingastofnun hafi hins vegar staðið í stað. Greiðslur þaðan hafi ekki hækkað fyrr en í byrjun þessa árs.

Telur þjóðhagslega hagkvæmt að skerða ekki tekjur

Mikið var rætt um skerðingu eftirlauna hjá ölduðum á vinnumarkaði í kosningabaráttunni í haust. Haukur kveðst telja að þjóðhagslega hagkvæmt, sérstaklega á þenslutímum, að fólk fái að vinna án þess að tekjur skerðist. Kostnaðarsamt sé að flytja erlent starfsfólk inn til landsins og finna fyrir það húsnæði. „Ég held að það sé kosningaloforð sem kosti ekki neitt og borgi jafnvel með sér í þessu þensluástandi sem er núna.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Hauk í Morgunútvarpinu hér.

Ritstjórn nóvember 17, 2017 10:30