Það geta allir lært skapandi hugsun

Oft heldur fólk að sköpunargáfa sé ekki öllum gefin. Kannski heyrir þú fólk segja: „Systir mín er sú sem fékk alla hæfileikana til sköpunar í minni fjölskyldu, hún gengur í listaskóla“. Auglýsingastofur skipta starfsemi sinni gjarnan upp í verkefnastjórn sem annast samskipti við viðskiptavini annars vegar á meðan „hin skapandi“ eru látin hanna og stjórna auglýsingaherferðum. Esteban Gast kennir sköpun við verkfræðideild Háskólans í Illinois. Hann segir í viðtali sem birt er á vefnum aarp.org að verkleg þekking annars vegar og sköpunarhæfileikar hins vegar  byggi á þjálfun og skipulagi. Fólk geti lært að vera skapandi á sama hátt og það lærir deilingu eða píanóleik.

Að upphugsa eitthvað frumlegt

Gast bendir á að bæði deiling og píanóleikur krefjist mikillar þolinmæði og æfinga. Líttu framhjá því sem þér datt fyrst í hug, ráðleggur hann. Sérfræðingar skilgreina sköpunargáfu sem getu til að upphugsa eitthvað frumlegt, helst eitthvað sem engum hefur dottið í hug áður. En okkur er eiginlegt að einblína á eitthvað sem við þekkjum nú þegar. „Ef mér er falið að hanna bíl mun hugur minn fyrst upphugsa eitthvað sem líkist bílum sem nú eru til staðar, útskýrir Gast. En þennan hugsunarhátt má brjóta upp með ögrun: Einfalt, óvænt áreiti eða hugrenningatengsl sem þvinga heilann til að tengja saman hugtök sem virðast vera alveg óskyld. „Hefði sá sem bað mig um að hanna bílinn bætt orðinu náttúra við verkbeiðnina, hefði ég sennilega upphugsað eitthvað alveg nýtt eins og hjól sem sá fræjum svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann.

Gefðu hugmyndunum vængi

Stundum dettur fólki ekkert í hug.

Stundum dettur fólki ekkert í hug.

Ekki ritstýra þér í byrjun.  Ein stærsta hindrun í vegi skapandi hugmynda okkar er sú tilhneiging að lagfæra þær jafn óðum. Öll skapandi vinna gengur betur ef þú gefur þér frelsi til að fara út um víðan völl með hugmyndir þínar fyrst. Síðan má vel endurskoða og laga þegar líður á verkið. Gast kallar þetta að dreifa og safna. Leyfa hugmyndum að flæða fyrst og skoða svo með gagnrýnum augum eftirá. Gefðu þér tíma og síðan enn meiri tíma. Rannsakendur segja að tími sé einn stærsti þáttunum í getunni til að skapa. „Oft er fólk upprifið í byrjun hugmyndavinnunnar“ segir Gast en bætir við: „Svo dragi úr orku og áhuga þegar á líður. Eftir það taka sumir upp þráðinn aftur að fullum krafti en flestir ná ekki að komast á þetta þriðja stig sköpunarvinnunnar.“

Að vera hugmyndalaus

Það er ekki öllum gefin sú þolinmæði að sitja uppi með þá óþægilegu tilfinningu að vera alveg hugmyndalaus, vitandi samt með vissu að það er aðeins tímaspursmál hvenær lausnirnar og hugmyndirnar spretta fram aftur af fullum þunga. Gast ráðleggur fólki að taka pásu. Fólk fái bestu hugmyndirnar þegar það taki það sem sérfróðir kalla kúnstpásu. Fólk fær sínar bestu hugmyndir í göngutúr, í sturtu eða undir stýri segir Gast. Þessi tími sem virðist vera átakalaus gefur undirvitund þinni tíma og frelsi til að tengja hlutina saman. Það er mjög árangursríkt  í skapandi vinnu að taka sér hlé, gera eitthvað einfalt á meðan hugsanirnar liggja í bleyti, og ganga svo ákveðið að því verki sem áður var hafið.

Innréttaðu upp á nýtt

Skapandi hugsun krefst vinnu og aga.

Skapandi hugsun krefst vinnu og aga.

Gerðu þitt nánasta umhverfi persónulegra. Hvað er hægt að gera til að þitt nánasta umhverfi veiti þér innblástur? Gast leggur til að þú innréttir þitt vinnupláss þannig að það hafi einhverja tengingu við þína sköpunargáfu hvort sem það er lýsing, kerti, uppáhalds myndir eða það eitt að þú hafir ávalt ritföng og teikniblokkir tiltækar. Rannsóknir sýna jafnframt að byggingar og skipulag þeirra hefur áhrif á sköpunargetuna segir Gast og bætir því við að: „Vinna þín, hugarástand, hamingja og sköpunargáfa er endurspeglun umhverfis þíns í mun ríkari mæli en þig grunar.“

Farðu í göngutúr

Farðu út. Rannsóknir hafa leitt í ljós að sá tími sem varið er úti í náttúrunni hefur góð áhrif á geðheilsuna allt frá því að draga úr streitu til þess að bæta minni. Allt þetta eykur sköpunargetuna. Að dvelja í náttúrulegu umhverfi, langt frá tækni nútímans, getur gefið huga þínum það frelsi og rými sem hann þarf til að vera opinn og frjór. Farðu í göngu án símans eða eyddu heilum degi í fjörunni eða í ilmandi kjarri án allra tækja annara en skrifblokkar og penna.

Takmarkalausar hugmyndir

Gerðu sköpun að vana. Á sama hátt og þú nærð tökum á hvaða verki sem er, er efling sköpunargetu háð iðkun og æfingu. Þannig er mikilvægt að temja sér hluti sem beint og óbeint þroska sköpunargáfu þína eins og það að stunda hugleiðslu, jóga, skáldsagnalestur eða hreinlega það að umgangast fólk sem gefur þér innblástur. „Láttu sköpun tengjast öllum þáttum lífs þíns“ segir Gast. „Ef þú gerir allt sem þínu valdi stendur til að efla sköpunarmátt þinn verða skapandi hugmyndir þínar takmarkalausar.“

Ritstjórn júlí 5, 2016 11:29