Það sem enginn segir þér um hækkandi aldur

Það er gott að eldast. Það hefur ýmsan ávinning í för með sér til að mynda verðum við oft betri í að nota það sem við höfum lært á lífsgöngunni okkur sjálfum og þeim sem yngri eru til hagsbóta. Samskiptahæfni eykst líka oft með hækkandi aldri. Fúll á móti verður kannski samræðuhæfur eftir að hann er kominn á miðjan aldur.

Hamingjan eykst með hækkandi aldri og fólk hættir að stökkva upp á nef sér við minnsta mótlæti. Vísindamenn vita ekki hvers vegna þetta gerist en þeir hafa samt ákveðnar hugmyndir. Eldra fólk á betra með að hafa stjórn á tilfinningum sínum og á betra með að fanga það besta sem lífið hefur upp á að bjóða. Eftir því sem fólk eldist á það auðveldra með að samsama sig tilfinningum annara. Það fær betri skilning á því hvernig aðrir hugsa og það auðveldar sambandið við ástvini og vinnufélaga.

Því lengur sem fólk lifir þess meira skreppur það saman. Samfall í hryggjarliðum er ástæðan. Fólk getur lækkað um allt að þrjá sentimetra af þessum sökum. Á sama tíma og hárunum á höfðinu fækkar birtast ný og óvelkomin hár í andlitinu og á hökunni á konum en gjarnan í nefinu og eyrunum á körlum. Það eru hormónabreytingar sem orsaka þennan óæskilega hárvöxt.

Kynlífið batnar eftir því sem fólk eldist. Eldri konur stunda kannski minna kynlíf en á meðan þær voru yngri en þær fá mun meira út úr því. Það sama virðist gilda um karla. Annað ekki alveg jafn jákvætt er að með hækkandi aldri, veikindum, lyfjakúrum og ofnæmi getur bragðskynið breyst. Það getur haft áhrif á heilsu og mataræði. Ef fólki finnst að það þurfi að krydda matinn meira notið þá góðar ólífuolíur, ferskar kryddjurtir, hvítlauk, lauk, papriku eða góð krydd til að bragðbæta matinn. Munið bara að halda ykkur frá saltinu. Salt í óhófi er óhollt.

Svo eru góðar líkur á að fólki sem alltaf hefur dreymt um að verða morgunfólk fái þann draum uppfylltan þegar það kemst á sjötugsaldurinn. Svefnvenjur breytast oft eftir því sem árunum fjölgar, fólk fer fyrr í rúmið og fyrr á fætur.

Eldra fólk er oft hrætt við að detta og beinbrjóta sig. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að fólk verður oft varkárara með aldrinum og fer sér hægar.

Sjálfstraustið batnar með hækkandi aldri, betri efnahag, menntun, góðri heilsu og að vera virkur á vinnumarkaði. En sjálfstraustið minnkar hins vegar aftur á sjötugsaldrinum. Það getur gerst vegna þess að fólk fer að hafa áhyggjur af heilsunni eða það fer að leita að nýjum tilgangi í lífinu eftir því sem eftirlaunaaldurinn nálgast. Með heilbrigðari lífsháttum, lengri starfsævi gæti þetta þó breyst. Margir hlakka til að komast á eftirlaun. Það er hins vegar ekki víst að það sé það besta fyrir heilsuna. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem starfar við eitthvað sem því finnst skemmtilegt nýtur lífsins lengst. Það ásamt góðum maka og vinum er lykillinn að góðum efri árum.

Ritstjórn febrúar 20, 2019 08:01