Tengdar greinar

Það tókust ástir með mér og fagottinu

 

Sullað í Pólgötunni á Ísafirði. Mynd Jón A Bjarnason

Sullað í Pólgötunni á Ísafirði. Mynd Jón A Bjarnason

Tónlistarferill Rúnars H. Vilbergssonar  spannar áratugi. Hann er alinn upp á Ísafirði þar sem mikið var um að vera í menningarlífinu. Þar var tónlistarskóli, lúðrasveit og blómleg kórastarfsemi. Auk þess spruttu upp allskonar hljómsveitir sem lifðu mis lengi. Faðir Rúnars spilar á hljóðfæri og var því oft verið að að spyrja púkann hvort hann ætlaði ekki að læra að spila eins og pabbinn. „Ég hafði enga löngun til þess, fann ekki þörfina til þess að fara í skólann. Svo fór ég að spila á trommur um fermingu. Lærði af sjálfum mér og með því að hlusta á aðra. Ég var í nokkrum hljómsveitum fyrir vestan, sem hétu ýmsum möfnum, t.d. Plektar, Hlykkir, Sexmenn, Leones, Jana, Öx og BG og Ingibjörg en með þeirri hljómsveit spilaði ég í a.m.k. sjö sumur,“ segir Rúnar og bætir við að hljómsveitin hittist enn við og við.  Lífið á unglingsárunum og fram undir tvítugt snérist því um rokk og ról og dansmúsík. Bítlarnir og Rolling Stones, The Who, Small Faces, Lovin’ Spoonful og Jimmy Hendrix,  voru í uppáhaldi. Rúnar hafði hins vegar lítinn áhuga á klassískri tónlist. Það gerðist hins vegar einn sunnudagsmorgun að Rúnar uppgötvaði eitthvað nýtt. „Inni í herberginu mínu fyrir vestan var hátalari festur upp á vegg. Hann var tengdur við útvarpstæki sem var inni í stofu. Ég hafði verið úti að skemmta mér kvöldinu áður en vaknaði úthvíldur með opinn huga við að verið var að spila sinfóníu í útvarpinu. Mér að óvörum smaug músíkin einhvern veginn fyrirhafnarlaust inn í huga minn þarna sem ég lá algjörlega afslappaður. Ég sogaðist inn í þennan hljóðheim sem var alveg nýr fyrir mér. Upp frá þessu fór ég smátt og smátt að meta klassíska tónlist,“ segir Rúnar. Hann flutti suður um tvítugt og þá fór hann að sækja tónleika og fór m.a. í ameríska bókasafnið.  Þar var gott plötusafn og hægt að fá lánaðar plötur með allskonar tónlist. „Einhvern veginn togaði klassíkin stöðugt meira og meira í mig.“

Feðgar spila saman.

Feðgar spila saman.

Fór að vinna í verksmiðju

Eftir að Rúnar flutti suður fór hann að vinna í innréttingaverksmiðju í Skeifunni. Hann var staðráðinn í að verða ljósmyndari. „Ég var búinn að tala við ljósmyndara og spyrja hvort ég gæti komist í læri. Hann sagðist ekki taka lærlinga en ráðlagði mér að fara í Handíða- og myndlistarskólann til að þroska formskynið og undirbúa ljósmyndanámið. Þetta varð til þess að ég fór að fara á myndlistarnámskeið til að undirbúa mig og ætlaði svo í inntökupróf haustið eftir.“  Í húsgagnaverksmiðjunni vann Rúnar við að sprautulakka húsgögn. „Þar var tékki sem lék með Sinfóníunni. Hann mætti klukkan tvö á daginn eftir sinfóníuæfingar til að vinna sér inn aukapeninga. Hann var að vinna fyrir utan sprautuklefann og heyrði mig stundum vera að syngja og flauta lög inn í klefanum þar sem ég var að lakka húsgögnin. Hann sagði við mig að ég þyrfti endilega að læra að spila á hljóðfæri. Ég hummaði þetta fram af mér en hann gafst ekki upp og bauðst til að kenna mér frítt. Það var tilboð sem ég gat ekki hafnað. Hann kenndi mér á fiðlu part úr vetri en hvarf svo skyndilega af landi brott um vorið. Það vissi eiginlega enginn hvað varð af honum,“ segir Rúnar.  Hann ætlaði að læra á selló,  eða víólu.  Fékk á endanum lánaða fiðlu í Tónlistarskólanum og lærði nokkur lög.  „Tékkinn sagði að ég þyrfti líka að fara í kór og fór  ég í kórinn hjá Marteini Hunger í Háteigskirkju. Hann sagði að það væri gott að syngja til að tengjast tónlistinni betur. Ég held að það skipti miklu máli fyrir þá sem læra á hljóðfæri að læra líka eitthvað í söng.  það verður önnur snerting við tónlistina.“

Gamall þurs

Rúnar og kona hans Tamila Gámez Garcell ásamt syni þeirra Vilberg Samúel undirritaður í hestakerru í Havana síðasta sumar.

Rúnar og kona hans Tamila Gámez Garcell ásamt syni þeirra Vilberg Samúel  í hestakerru í Havana síðasta sumar.

„Svo fór ég í inntökupróf í Tónlistarskólanum og spilaði lögin sem ég kunni. Ég fékk inngöngu en þá var það spurningin á hvaða hljóðfæri ég ætti að læra. Ég var orðinn of gamall til að læra á fiðlu en það vantaði fagottleikara í skólahljómsveitina. Ég var spurður hvort ég vildi ekki bara læra á fagott. Ég sagði já, var til í að prófa þó ég vissi varla hvað fagott væri. En mér líkaði vel við hljóðfærið það má eiginlega segja að það hafi tekist ástir með mér og fagottinu.“ Rúnar lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum, og aflaði sér réttinda sem tónmenntakennari. Svo hélt hann í framhaldsnám til Hollands þar sem hann var á þriðja ár.  „Mér var sagt þegar ég fór í Tónlistarskólann að ég væri orðinn of gamall til að geta gert tónlist að ævistarfi. Ég gerði ekkert með það og hélt mínu striki,“ segir Rúnar.Á meðan hann var í Tónlistarskólanum var hin vinsæla hljómsveit Þursarnir stofnuð, en sú hljómsveit sló nýja tóna í íslenskri tónlistarsögu. „Egill Ólafsson var í skólanum á sama tíma og sátum við stundum og krunkuðum saman á meðan við biðum eftir því að fara í tíma. Hann spurði mig svo hvort ég væri ekki til í að vera með í Þursunum og ég sló til. Svo var farið að æfa af krafti upp í Mosfellssveit. Þetta var skemmtilegur og gefandi tími enda Þursarnir orginal hljómsveit. Við spilum stundum saman ennþá. Þetta er með því allra skemmtilegasta sem ég hef gert í músíkinni,“ segir Rúnar.Eftir að Rúnar kom heim frá Hollandi fór hann að spila með fólki hér og þar og hafði mikið að gera. Lék með Sinfóníunni, Kammersveit Reykjavíkur, Hljómsveit íslensku óperunnar og ýmsum öðrum hljómsveitum og hljóðfærahópum auk þess sem hann kenndi.  Hann var fastráðinn hjá Sinfóníunni 1988.„Upphaflega var hljómsveitin að hluta skipuð íslenskum hljóðfæraleikurum sem voru dansmúsíkantar að upplagi, mjög hæfileikaríkir en höfðu kannski ekki lært mikið í klassískri músík. Einnig komu menntaðir hljóðfæraleikarar erlendis frá sem styrktu hljómsveitina. Þegar ég byrjaði að spila með Sinfóníunni var upphaflegu frumkvöðlunum farið að fækka en nú eru þeir sem koma inn í hljómsveitina allir langskólagengnir í tónlist. Hljómsveitin hefur þroskast mikið að mínu mati og „standardinn“ hefur hækkað. Ég held að maður verði að vissu leyti betri hljóðfæraleikari með árunum, þetta er krefjandi starf og fer fram í mörgum víddum, maður þroskast og skynjunin dýpkar og eflist með tímanum held ég.“

 

Að takast á við nýja hluti

Fagottleikarar í sinfóníunni stuttu eftir að flutt var í Hörpu. Frá vinstri: Brjánn Ingason, Hafsteinn Guðmundsson og Vilberg

Fagottleikarar í sinfóníunni stuttu eftir að flutt var í Hörpu. Frá vinstri: Brjánn Ingason, Hafsteinn Guðmundsson og Rúnar.

Rúnar segist ekki eiga nein sérstök uppáhalds verk. Yfirleitt finnist honum það skemmtilegast sem hann fæst við hverju sinni. „Ég laðast að ítalskri tónlist t.d. Verdi og Puccini en annars er músík á svo mismunandi bylgjutíðni og hefur svo marga fleti að það er ekki auðvelt að bera saman. Það eru svo margar víddir og ekki auðvelt að sortera þær út og bera saman. Maður fær nýtt prógramm í hverri viku og stundum fleiri en eitt. Svo er það undir stjórnandanaum komið hvort þetta fer á flot eða ekki. Hann hefur mjög mikið að segja um heildar útkomuna. Hans hlutverk er ekki einfalt. Fyrir framan sig í hljómsveitinni hefur hann tugi sérfræðinga sem allir hafa sína hugmynd um hvernig verkið á að hljóma. Ef stjórnendur eru í góðu sambandi við hljómsveitina og ná að mótivera hana þá er eiginlega alveg sama hvað er verið að spila. Það hljómar vel.  Sinfóníuhljómsveit virkar svona eins og kúltursafn það er verið að spila gömul verk sem hafa það mikið gildi að fólk er tilbúið að hlusta aftur og aftur, jafnvel hundruðum ára eftir að þau eru samin. Það virðast vera einhver verðmæti í þessu sem ekki er hægt að setja fingurinn beint á.“ Rúnar segir að klassíski heimurinn og danstónlistin séu að mörgu leyti ólíkir heimar. „Þegar ég er að spila eða æfa upplifi ég þetta eins og sinn hvorn heiminn; sitt hvora deildina. Samt held ég að hjá mér smitist þjálfunin úr dansmúsíkinni yfir í klassíkina og öfugt. Dansmúsík hefur auðvitað haft áhrif á klassísk tónskáld í gegnum tíðina jafnt og klassíkin á dægurlagahöfunda. Í dag finnst mér þessir heimar vera að blandast meira saman ef eitthvað er. Það er erfitt að árangri í tónlist nema menn séu stöðugt að þjálfa sig. Takast á við nýja hluti og hlusta eftir því sem aðrir eru að gera og læra af því.“

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Ritstjórn apríl 29, 2016 12:05