Þarf skíðakortið, peninga og varalitinn

Margir kannast við ljóshærðu konuna með rauða varalitinn, hana Rögnu Fossberg. Hún hefur um árabil unnið hjá Ríkisútvarpinu sem sminka eða förðunarmeistari. Hún er hætt störfum þar á bæ vegna aldurs en það þýðir ekki að hún sitji heima í hægindastólnum og horfi yfir farinn veg með hendur í skauti. Nei, hún er að taka að sér stórt förðunarverkefni í  nýrri kvikmynd og nýtur lífsins út í ystu æsar. Hún skellihlær þegar hún er spurð hvort hún sakni gamla starfsins hjá RÚV. Það gerir hún alls ekki og segist núna ekki gera neitt annað en það sem henni þyki skemmtilegt.

Það hefur færst mikið í vöxt að Íslendingar bregði sér af bæ yfir dimmasta tíma ársins, sérstaklega þegar illa viðrar á haustmánuðunum. Þeir leita í sólina eða í golfið eða á skíði. Ragna kýs það síðastnefnda. Hún fer í tvær skíðaferðir í byrjun árs og hefur gert það árum saman. Þetta bjargar andlegu heilsunni að hennar mati.

Ragna ásamt syninum Ívari

„Sumir fara til í sólarlandaferðir en ég vel að fara á skíði. Ég á ekki skíði sjálf en leigi þau á staðnum, þannig að það eina sem ég þarf nauðsynlega að taka með er skíðakortið, peningar og varaliturinn.  Ég var varla búin að kyngja áramótasteikinni þegar fyrri ferðin hófst þann 3. janúar. Ég fór með einkasyni mínum Ívari Erni Helgasyni og fjölskyldunni hans en börnin eru á aldrinum 7 til 11 ára. Þetta er í sjöunda skipti sem við förum í skíðafrí saman og mér sýnist við öll hafa jafngaman af þessari samveru eftir jól og áramót.

Fjölskyldan fór til Zell am See í Austurríki og bjó á hóteli sem heitir Berner. Þetta er skammt frá jöklinum Kaprun sem er í 3029 metra hæð og vegna hæðarinnar eru hægt að skíða þarna allan ársins hring.

Ívar með Úlf í beisli til að stjórna honum í brekkunum

„En hvað er ég að tala um að skiða?  Krakkarnir fara ekki á skíði heldur eru þau á brettum. Við erum úti allan daginn eða frá níu og fjögur og ég get lofað þér því að heitt kakó smakkast vel eftir daginn í brekkunum „

Ragna lenti í óhappi fyrir nokkrum árum. Hún mjaðmarbrotnaði og þurfti að fá nýjan mjaðmarlið. Ragna hefur alltaf verið grannvaxin og mikið á ferðinni, en sú spurning vaknar hvort hún sé ekkert hrædd um að slasa sig í skíðabrekkunum ?

Hún gerir lítið úr því en segist reyndar skíða varlega. Helsta hættan sé skíðakappar sem vilja ekkert gefa eftir og lenda aftan á þeim sem fara hægar.

Það er falleg á skíðasvæðinu í Zell am See

„Ég  er hins vegar alls ekki neinn öldungur í brekkunum í Austurríki. Brekkurnar eru iðandi af fólki sem er á aldrinum frá 4 ára upp í nírætt og sumir kippa sér ekki upp við að leggja fótalausir í brekkurnar. En auðvitað læt ég skynsemina ráða för og útivistin og hreyfingin er ómetanleg“.

Rögnu dugar ekki ein skíðaferð í skammdeginu. Ferð númer tvö er með skíðaklúbbnum hennar sem hún hefur ferðast með í 15 ár. Ferðinni er heitið til Andermatt í Swiss í febrúar og segist Ragna telja niður dagana. Ragna segir að þegar flestir fara séu þau 16 en stundum séu þau 6-8. Hún segir að það sé mikið hlegið í þessum ferðum og margt brallað bæði í brekkunum og í lok dags.

En hvað kosta nú svona ferð?  Ragna segist fara með svona 200-250 þúsund krónur í ferðina en þá er gist á góðum hótelum eða fjallakofum með fullu fæði, gufu og sundlaug og fleiri þægindum sem gera frí af þessari gerð eftirminnileg.

Frá vinstri Ívar, Eiður, Eyrún Jónsdóttir, Úlfur, Hilmir og Ragna

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 24, 2020 07:19