Þegar vorin kemur loksins er það eins og stórt afþreying

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

 

Það hefur verið mikil og heit umræða um gervigreind og áhrif þessarar nýju tækni á skólaastarf. Heilli M.A ritgerð var skilað inn í Háskóla Ísland á dögunum, sem var unnin með þessari aðferð. Ritgerðin er kannski sú fyrsta en örugglega ekki sú síðasta sem gervigreindin framleiðir fyrir íslenska nemendur.

Ungur herra í fjölskyldunni sýndi mér hvernig þetta virkar. Hann fór inn á forrit sem kallað er chat.gpt.  Ég bað hann um að láta forritið skrifa ritgerð um vorið á Íslandi. Hann pantaði ritgerðina og að minni beiðni bætti hann við að hún ætti að vera eins og hún væri skrifuð af 12 ára barni. Á nokkrum sekúndum ruddist fram texti fyrst á ensku og svo í íslenskri þýðingu. Íslenska útgáfan  byrjaði svona:

Vor á Íslandi er alveg frábært! Við höfum mjög löng og kaldan vetur með mikið af snjó og kuldaboti, svo þegar vorin kemur loksins, þá er það eins og stórt afþreying. Það er eins og allur þjóðin vaknar til lífs! Eitt af því sem ég elska við vor á Íslandi er hvernig snjórinn byrjar að bráðna. Þú getur séð stóra bútta ísins sem fljóta niður á ám og lækjum og stundum eru vatnsstaðirnir mjög háir. Það er ákaflega skrýtið, en einnig alveg æðið spennandi!

Svo mörg voru þau orð. Ég held að barnabarnið hefði ekki fengið háa einkunn fyrir þessa ritgerð hjá  íslenskukennaranum í Brekkuskóla. Hann segir að reyndar séu ensku textarnir betri en þeir íslensku. Nokkur huggun í því.

Ástæðan fyrir því að ég bað hann um að panta ritgerð um vorið var sú að mamma sagði mér einu sinni skemmtilega sögu um ritgerð um þetta sama efni. Elsti bróðir minn var vel gefinn ungur maður en hafði heldur neikvæða afstöðu til margs í skólanum. Eitt af því var að skrifa stíl, eins og það var kallað. Mamma hafði miklar áhyggjur af þessu þar sem hann átti að skrifa stíl sem hluta af lokaprófinu í barnaskólanum, þá 12 ára gamall. Mamma dó ekki ráðalaus. Hún settist niður og skrifaði nokkrar stuttar ritgerðir um efni sem hún taldi líkleg að yrðu valin sem prófritgerðarefni. Vorið var eitt þeirra. Stráksi lærði stílana frá orði til orðs og fór í prófið. Viti menn. Nemendur áttu að skrifa um vorið. Hann fór létt með það. Skrifaði orðrétt ritgerðina hennar mömmu, skilaði fyrstur og gekk út í vorið. Hann fékk fyrstu verðlaun við skólaslit fyrir frábæra ritgerð. Mamma játaði fyrir mér að hún hefði skammast sín svolítið enda prúð og heiðarleg kona.

Þessi litla saga minnir okkur á að það hafa alltaf verið til leiðir til þess að fá smáhjálp við námið. Birtingarmyndirnar hafa hins vegar verið ólíkar. Ég hef heyrt kennara tala um þessa nýju gervigreind og hvernig skólarnir eigi að bregðast við henni. Það verður áhugavert verkefni og vonandi finnast leiðir til þess að nýta þessa tækni til þess að efla fræðslu og nýta tæknina á heiðarlegan og jákvæðan hátt.

Mig langar til þess að ljúka þessu með því að leyfa ykkur að lesa niðurlag tölvutextans um íslenska vorið en ég er sannfærð um að lýsing mömmu á vorinu hefur verið ljóðrænni en þessi lokaorð:

Samtals er vor á Íslandi mjög spennandi tími. Það er tími endurnýjunar og nýrra byrja og það er alveg gaman að sjá landið vakna til lífs eftir langan vetur. Ég get ekki beðið eftir því að vor komi aftur næsta ár!

p.s Sem reyndur kennari ákvað ég að setja chad.gpt textana inn í forrit sem við notum til þess að kanna hugsanlegan ritstuld. Svarið var að hér væri um heiðarlegan texta að ræða.

 

Sigrún Stefánsdóttir apríl 24, 2023 07:00