Tengdar greinar

Þörungarnir í fjörunni urðu áhrifavaldur

Mynd af klóblöðku í fjöru að sumri til.

Bjarni Grétar Bjarnason starfaði í tryggingabransanum í 46 ár áður en hann hætti að vinna 67 ára gamall og var þá sannarlega með áætlun um framhaldið. Bjarni er alinn upp í vesturbænum, í húsi við sjóinn þar sem hann fæddist og átti heima í þar til hann gifti sig og flutti að heiman eins og lög gera ráð fyrir. Eiginkona hans er Sigrún Gunnarsdóttir og eiga þau þrjár dætur sem líka ólust upp í þessu húsi því þegar foreldrar Bjarna féllu frá ákváðu Bjarni og Sigrún að kaupa það. Nú, þegar þau hafa minnkað við sig, keypti ein dætranna húsið og elur nú fjóra syni þar upp. Í húsinu hafa því þrjár kynslóðir alist upp við hafið sem er eins og Bjarni segir ,,heillandi heimur“. Nú er Bjarni hættur að vinna og sneri sér þá aftur að þaranum, leikfangi æsku hans.

Leiksvæðið var fjaran

Leiksvæði Bjarna og félaga hans var mest fjaran þegar þeir voru börn. ,,Við notuðum þarastöngla og

Bjarni með húsið við sjóinn í baksýn.

þang úr fjörunni sem vopn í bardögunum og svo höfðum við gaman af að kveikja bál og kasta blöðruþanginu á bálið sem sprakk með hvelli,“ segir Bjarni og minningin er greinilega góð. ,,Maður var mikið í þaranum“ segir Bjarni glottandi „og spáði mikið í þessu fyrirbrigði; hvað þetta eiginlega væri og hvaða efni væru í honum en slíkar vangaveltur náðu ekki lengra en bara augnablik. Vitneskjan um leyndardóm þörunga síaðist svo inn mörgum áratugum síðar.“ Nú viti hann, eftir smá grúsk, að þarinn og þangið eru brúnþörungar og að þörungar skiptast í smáþörunga, sem er plöntusvif og undirstaða fæðukeðjunnar í hafinu og helsti súrefnisframleiðandi jarðarinnar auk þess að binda koltvíoxíð í gríðarmiklu magni. Og svo eru það stórþörungar sem skiptast í þrjá flokka; brún-, rauð- og grænþörunga“

Bjarni tekur ítrekað fram að hann sé enginn sérfræðingur í þörungum en með tilkomu Internetsins hafi verið svo auðvelt að afla sér upplýsinga og þá hafi áhuginn á

Tjörnin sem kemur alltaf í ljós á fjöru, full af sílum og alls konar ævintýrum.

þaranum eflst fyrir alvöru. Hann tók ákvörðun fyrir mörgum árum að þegar hann myndi hætta að vinna tæki við spennandi tími þar sem þörungar kæmu við sögu.

Sölin hjá Ingu föðursystur mikið sælgæti

Faðir Bjarna var ættaður frá Stokkseyri þar sem hann ólst upp og móðir hans var frá Vestmannaeyjum. ,,Þess vegna er ég alinn upp við að borða söl,“ segir Bjarni. Hann á minningu af því að hafa farið niður í kjallara á heimili frænku sinnar á Stokkseyri þar sem var tandurhreinn hvítur taupoki fullur af vel verkuðum sölvum. ,,Þangað fórum við krakkarnir og máttum fá okkur úr pokanum en urðum bara að passa okkur að borða ekki of mikið. Okkur þótti þetta mikið sælgæti,“ segir Bjarni og brosir.

Hugmynd að samvinnu kviknaði í áramótapartíi 

Það var svo í áramótaboði hjá dóttur Bjarna og Sigrúnar fyrir nokkrum árum að Bjarni hitti fyrir tengdaföður dóttur þeirra, Gest Ólafsson, og tók til við að segja honum

Stjórn Hyndlu frá vinstri: Bjarni Bjarnason, Guðrún Hallgrímsdóttir og Gestur Ólafsson.

frá draumi sínum um þörungana. Gestur heillaðist af hugmyndinni sem kom heim og saman við hans eigin lífssýn. Úr varð að þeir fengu til liðs við sig skólasystur Gests, matvælaverkfræðinginn Guðrúnu Hallgrímsdóttur sem átti hugmyndina að nafni fyrirtækisins, Hyndla. Með samvinnu þessara þriggja kröftugu Íslendinga, öll komin yfir miðjan aldur og með ólíkan bakgrunn, varð til hugmyndabanki sem þau eru komin vel á veg með að láta verða að veruleika í formi frumkvöðlafyrirtækisins Hyndlu. ,,Þegar ég gat farið að kafa ofan í upplýsingar um stórþörunga fann ég auðvitað út að í Asíu hafa menn nýtt sér þessa auðlind í árþúsundir svo þar eru til ýmsar upplýsingar sem við getum nýtt okkur.“

50-80% af súrefnisframleiðslunni fer fram í höfunum

,,Áhrif þörunganna á jarðlífið eru ótrúlega mikil, miklu meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir,“ fullyrðir Bjarni ákafur. ,,Talið er að 50-80 % af súrefnisframleiðslu jarðarinnar fari fram í höfunum, af þörungunum, smáum og stórum. Margir halda að það séu mest regnskógarnir sem sjái okkur fyrir súrefninu en staðreyndin er sú að það eru þörungarnir sem eru aðalsúrefnisgjafarnir okkar. Þeir taka til sín koltvísoxíð (CO2) sem þeir vinna næringu úr fyrir sig. Einmitt efnið sem við erum alltaf að reyna að minnka losunina á. Þörungarnir breyta koltvíoxíði og vatni með ljóstillífun í sykrur sem er orkugefandi fyrir þá og sem aukaafurð úr þessari efnavinnslu kemur súrefni sem þeir losa út í andrúmsloftið. Þetta lífgefandi efni sem allar lífverur jarðarinnar þarfnast – nema kannski nokkrar tegundir sérvitra baktería og þörunga“ Þetta segir Bjarni að sé allt saman svo heillandi og að hafið sé í raun lítt könnuð veröld og í því felist áreiðanlega miklir óuppgötvaðir nýtingarmöguleikar til heilla fyrir mannkynið.

Tilraunir með þörungaræktun á landi

Dæmi um gott sambýli þörunga í fjörunni. Þangskegg vex eingöngu á klóþangi og vill hvergi annars staðar vera.

Fyrirtækið Hyndla sem Bjarni, Gestur og Guðrún reka er að gera tilraunir með ræktun klóblöðku, sem er rauðþörungur, í kerjum innandyra. Klóblaðkan er nýuppgötvuð sem sérstök tegund sem vex einvörðungu hér við land. Tegundin er því alíslensk en Bjarni segir að það hafi verið Karl Gunnarsson, þörungafræðngur Hafrannsóknarstofnunar og þeirra aðal mentor og leiðbeinandi í tilraunum, sem hafi ásamt tveimur breskum vísindamönnum gert þessa uppgötvun. Eins og viðgengst í vísindum, þegar nýjar lífverur uppgötvast, þá fá þær latneskt nafn og Schizymenia jonssonii skyldi hún heita. Jonsonii hluti nafnsins til heiðurs og í minningu Sigurðar Jónssonar, þörungafræðings sem vann allan sinn starfsferil að rannsóknum á þörungum við Vísindaráð Frakklands og var leiðbeinandi Karls á námsárum hans í Frakklandi.

Fyrir tilstilli Karls fékk Hyndla aðstöðu fyrir tilraunir sínar í tilraunaeldisstöð Hafró í Grindavík. Fyrsta spurning þremenninganna var einföld: ,,Er hægt að rækta klóblöðku í kerjum innandyra og nota til þess borholusjó“. Borholusjó sem er tekinn á 20-40 metra dýpi og er hreinn og tær. Fljótlega kom í ljós að seltumagn og næringarefni sjávarins hentaði klóblöðkunni. Slíkar tilraunir eru þolinmæðisverk og taka langan tíma. ,,Þetta er tímafrek vinna, reynir á þolinmæði og þrautseigju því þörungar ljóstillífast og það þarf að finna rétta ljósmagnið og rýmið svo að sem bestur árangur náist. En þetta er um leið gríðarlega spennandi og skemmtilegt“ segir Bjarni. ,,Svo erum við líka að gera tilraunir með ræktun á sölvum og vonandi síðar meir á öðrum rauðþörungum.“

Efni sem fást úr þörungum

Söfnun í fjöru.

Bjarni nefnir að þörungar séu hluti af daglegri fæðu Asíuþjóða og á vesturlöndum, í Evrópu og Bandaríkjunum, séu yfirvöld farin að hvetja til meiri neyslu þörunga og nýtingu þeirra almennt enda með allra hollustu fæðutegundum. Þá eru ýmis efni unnin úr þörungum t.d. hleypiefni til matargerðar s.s. í ísgerð, matarlím, í sósur o.fl. o.fl. Þá eru efni úr þörungum notuð sem fæðubótarefni, í náttúrulyf og hefðbundin lækningalyf. Efni úr þörungum eru notuð í snyrtivörur, í grænmetis- og ávaxtarækt og blómarækt. „Það væri hægt að telja mýmarga aðra notkunarmöguleikar“ segir Bjarni „ en ég verð að ljúka þessari upptalningu með að nefna þá möguleika sem felast í því að draga náttúruleg litarefni úr þörungum. Matvælaiðnaðurinn í heiminum lítur mjög til þörunga í þeim efnum og eins textíliðnaðurinn. Rannsóknir á þeim möguleika eru nú í fullum gangi víða. Hyndla fékk t.d. boð um að vera með í slíku verkefni ásamt fjórum evrópskum háskólum og rannsóknastofnunum sem fékk síðan þriggja ára Evrópustyrk. Talandi um styrki segir Bjarni“ að þau hjá Hyndlu geti ekki kvartað undan skilningsleysi opinberra aðila hér á landi því Hyndla hafi fengið úthlutað úr tveimur rannsóknar-og þróunarsjóðum, annars vegar AVS sjóðnum og úr Sprotasjóði Tækniþróunarsjóðs. Þá megi ekki gleyma samvinnu við MATÍS og Tæknisetur að ógleymdri Hafrannsóknarstofnum sem hafi stutt Hyndlu með aðstöðu og ráðgjöf frá upphafi sem sé ómetanlegt og sýni mikla framsýni stofnunarinnar.

Próteinframleiðsla án ferskvants 

Bjarni segir frá því að nú til dags sé fiskneysla Íslendingar mun minni en bara fyrir nokkrum áratugum og þar með sé joðskortur vandamál, sér í lagi meðal kvenna á barneignaraldri. Í stórþörungum sé auk joðs, vítamína og steinefna mikið af prótíni. ,,Prótín kemur einkum frá kjöti af búpeningi og frá kornrækt og ýmsum fiskafurðum. Við ræktun búpenings og korns þurfi óhemju mikið ferskt vatn sem skortur er á víða í heiminum og fari versnandi. Það er því mikill kostur fyrir prótínframleiðslu heimsins að geta framleitt úrvals prótín í sjó án ferskvatns. 

Ræktun Hyndlu 

Klóblaðka á leið í efnagreiningu til Nofima í Noregi og til Árósarháskóla.

,,Sýn okkar er að geta framleitt mjög hreina og rekjanlega afurð fyrir kröfuharðan markað“ segir Bjarni. Tilgangur Hyndlu segir hann vera  að rannsaka, þróa og rækta

stórþörunga á Íslandi og framleiða og markaðssetja afurðir úr þeim, jafnt innanlands sem utan. Enn fremur að kynna notkun stórþörunga til manneldis og hvers kyns vinnslu verðmætra efna úr þeim, þar með talin lífvirk efni. Í þörungunum er t.d. að finna efni sem gefur svipað bragð og salt og getur komið í staðinn fyrir saltið sem okkur er ráðlagt að halda okkur frá eins og kostur er. Enn ein spennandi staðreyndin um þörungana,“ segir Bjarni brosandi.

Viðhorfsbreyting hefur átt sér stað

Nú segir Bjarni að sé að verða viðhorfsbreytinga meðal manna og ljós sé að kvikna varðandi verðmæti þörunganna. Framtíðin er björt ef við getum haldið svona ótrauð áfram,“ segir Bjarni Bjarnason sem kominn er á eftirlaun og meðeigendur hans sömuleiðis en saman eru þau á fleygiferð að vinna gagn fyrir okkur Íslendinga og um leið fyrir allt mannkynið.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

Ritstjórn ágúst 26, 2022 07:34