Tengdar greinar

Þú sæla heimsins svalalind

Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.

Þannig orti Ólöf frá Hlöðum og víst ná bæði gleðin og sorgin að koma út á okkur tárunum. Michael Trimble atferlis- og taugasérfræðingur segir það vera meira en líkamlegt viðbragð en hann er helsti sérfræðingur heims í gráti. Hann var í viðtali í útvarpsþætti hjá BBC fyrir nokkrum árum þegar starfsmaður þar kvað hann í kútinn með spurningunni: Hvað með fólk sem aldrei grætur? Michael varð svara vant. Hann veit nefnilega margt um þá sem gráta en ekkert um hina. Hann hallaði sér því að hljóðnemanum bað fólk um að senda sér póst ef það væri í þeim hópi sem aldrei felldi tár.

Á örfáum mínútum höfðu hrúgast inn mörg hundruð póstar. Fólk sem ýmist sagðist aldrei gráta eða aðrir sem þekktu steinhjörtu treg til að að hrærast til tára. Michael sagði þessu fólki að tár væru eðlilegt viðbragð við líkamlegum sársauka, taugafræðilegt og enginn gæti fyllilega varast það. Þótt sársaukaþröskuldur manna sér mishár og þar af leiðandi styttra í tárin hjá einum en öðrum. Mörg dýr gráta einnig vegna sársauka. Það að hrærast og klökkna vegna tilfinningalegra upplifana er flóknara. Mjög margir eru ákaflega viðkvæmir og tárin bókstaflega spýtast úr augum þeirra yfir kettlingamyndum og hvolpabjörgun á netinu. Aðrir þurfa mun meira til en það þýðir ekki að þetta fólk sé kaldlynt eða eigi erfitt með að finna til með öðrum. Það leitar sér einfaldlega útrásar á annan hátt..

Strax ungbörn látum við í ljós tilfinningar með gráti. Margir foreldrar læra að þekkja muninn á gráti barns síns eftir þvi hvort það er svangt, pirrað, reitt eða líður óþægilega vegna blautrar bleyju. Helsti líffræðilegi tilgangur tára er hins vegar eingöngu að vökva augun og hreinsa þau. Allt frá upphafi mannkyns hafa menn velt eðli þeirra fyrir sér og sett fram vangaveltur um muninn á þeim sem gráta til að tjá tilfinningar og hinum sem ekki gera það. Elstu varðveittu ritgerðir um það efni eru frá árinu 1500 fyrir Krist. Í gamla testamentinu er gráti lýst sem afleiðingu þess að hjartað ofhitni. Það var ekki fyrr en árið 1662 að danski vísindamaðurinn Niels Stensen uppgötvaði tárakirtlana en sú vitneskja leysti ekki gátuna um samspil tilfinninga og gráts. Hvers vegna kveikja þær á tárakirtlunum? Margar misgáfulegar kenningar hafa litið dagsins ljós meðal annars sú að menn séu komnir af vatnsöpum og þetta viðbragð leifar af því. Nýleg kenning, öllu líklegri, er að grátur sé leið til að eiga í samskiptum og sé hluti af félagslegu kerfi sem menn hafa þróað með sér gegnum aldirnar.

Uppgefin eftir grátinn

Allir þekkja hversu mjög grátur þreytir menn. Hann reynir á marga vöðva líkamans, öndunarfærin og hjartað. Eftir langvarandi grát verða menn uppgefnir. Lítil börn gráta sig í svefn og stundum fullorðnir líka. Í þessu felst meðal annars sú svölun sem gráturinn veitir í sorg. Fólk grætur þar til það getur ekki meira og sofnar út af. Líkaminn nær slökun og það getur hjálpað mönnum að takast á við erfiðar tilfinningar.

Fyrsta tjáning

Börn eru mun vanþróaðri og meira ósjálfbjarga þegar þau koma í heiminn en ungar annarra spendýra. Gráturinn er eina leiðin sem þau hafa til að tjá þarfir sínar og kalla eftir að þeim sé sinnt. Grátur er þess vegna strax í frumbernsku merki þess að eitthvað sé að. Þannig læra börn frá fyrstu tíð að tengja saman tárakirtlana og tilfinningar. Vísindamenn hafa náð að sýna fram á að efnasamsetning tára sem spretta af líkamlegum sársauka eða tára sem koma fram til að hreinsa augun eða við að skera niður lauk, er önnur en þeirra sem stafa af tilfinningalegum viðbrögðum. Tilfinningatárin innihalda meira prótín en hin, eru þykkari og renna hægar niður andlitið en hin. Þau senda skýr skilaboð til annarra um að við þörfnust viðbragða þeirra, stuðnings og hlýju. Þau geta einnig veitt verðmæta útrás og ýtt undir framleiðslu vellíðunarboðefna.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 25, 2025 07:00