Þúsundir eldri borgara með tekjur undir 400 þúsundum á mánuði

Þorbjörn Guðmundsson stjórnarmaður hjá LEB

Samkvæmt samantekt fjármálaráðuneytisins hafa kjör eldri borgara batnað verulega á síðustu árum. Heildartekjur ellilífeyrisþega, sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, hafa aukist um helming frá 2015. Stjórnarmaður í Landssambandi eldri borgara segir að tölurnar sýni að helmingur, eða 16 þúsund eftirlaunaþegar sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum og bætur frá ríkinu, séu með tekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði. Spurningin sé hvort það teljist vera góð kjör. Ríkisútvarpið fjallar um þetta á vef sínum og fer umfjöllunin hér á eftir orðrétt af vefnum.

Meginniðurstaða fjármálaráðuneytisins er að kjör eldri borgara hafi batnað veulega á síðustu árum. Það eigi við um tekjur, kaupmátt auk eigna- og skuldastöðu þeirra. Kjarabætur ellilífeyrisþega hafi á ýmsum sviðum verið meiri en annarra aldurshópa. Í samantektinni kemur fram að útgjöld ríkisins til ellilífeyrisþega hafi aukist verulega.

Útgjöld hafa aukist

Í úttektinni kemur einnig fram að heildartekjur þeirra sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafi hækkað um helming frá 2015. Útgjöld ríkissjóðs vegna lífeyrisgreiðslna hafi aukist á hvern ellilífeyrisþega úr 1,6 milljónum króna á ári í 2,4 milljónir króna. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var fjöldi 67 ára og eldri 45,250 og hafði fjölgað í hópnum um 16% frá 2015.

Í samantektinni kemur fram að útgjöld til málefna aldraðra hafi aukist úr 51 milljarði 2015 í 86 milljarða árið 2020. Það sé 70 prósenta aukning að raunvirði miðað við vísitölu neysluverðs. Hækkunina megi bæði rekja til fjölgunar ellilífeyrisþega og hækkunar ellilífeyrisgreiðslna frá TR. Þá hafi verið gerðar breytingar á almannatryggingakerfinu 2016 með það að markmiði að bæta kjör aldraðra. Í kjölfarið hafi útgjöld til málaflokksins aukist um rúma 16 milljarða á ári.

Hækkunin mest hjá þeim tekjulægstu

Í samantektinni er heildartekjum ellilífeyrisþega sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun skipt niður í tíundir frá maí 2016 til 2020. Inn í heildartekjunum eru bæði greiðslur úr lífeyrissjóði og frá TR. Niðurstaðan er að tekjur þeirra í lægri tekjuhópunum hafa hækkað meira en þeirra í efri tekjuhópunum. Hækkunin nemur að meðaltali 39% í tekjulægsta hópnum og meðal þeirra í næstefstu tíundinni um 9%.

Hægt að reikna á ýmsa vegu

Hver eru viðbrögð aldraðra við þessum tölum? Samkvæmt þeim virðast eldri borgarar hafa það býsna gott. Þorbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í Landssambandi eldri borgara segist ekki ætla í talnaleik við fjármálaráðuneytið. Það megi reikna þetta út á ýmsan hátt.

„Það er alveg klárt að það hefur orðið töluverð breyting á kjörum ellilífeyrisþega,“ segir Þorbjörn. Breytingar hafi orðið með lagabreytingu sem tólk gildi í byrjun árs 2017. Eldri borgarar hafi aldrei véfengt það. „Hins vegar finnst mér svona talnaleikur ekki það sem þetta snýst um. Þetta snýst um raunveruleg kjör eftirlaunafólks. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu og töflunni sem fylgir  kemur í ljós að árið 2020 er miðgildi teknanna 400 þúsund krónur á mánuði. Það eru um 32 þúsund manns á bótum frá almannatryggingum sem segir okkur það að 16 þúsund manns eru með lægri tekjur en 400 þúsund. Spurningin er, teljum við þetta vera góð kjör? Ekki þessar prósentutölur heldur þessar rauntölur. Mín reynsla að vera eftirlaunamaður er að það er bara ekkert ódýrara en að vera launamaður,“ segir Þorbjörn.

Þorbjörn bendir á að fyrir síðustu kosningar hafi málefni aldraðra verið býsna mikið á dagskrá.

„Ef maður gætir allrar sanngirni þá hefur þessi ríkisstjórn ekki verið að efna þær væntingar sem gefnar voru í kosningunum nema þá að litlu leyti. Það er algjörlega ljóst að við eldra fólkið sem erum að vinna í þessum samtökum ætlum okkur að reyna að tryggja það að þessi mál verði á dagskrá í þessum kosningum.“

Vija afnema tekjutengingar atvinnutekna

Stjórn Landssambands eldri borgara kom saman í gær þar sem samþykktar voru tillögur um áhersluatriði í komandi alþingiskosningum.
Í fyrsta lagi snúast þau um að lífskjör eldra fólks verði bætt. Í núverandi kerfi eru frítekjumörk vegna lífeyrissjóðs- og fjármagnstekna 25 þúsund krónur á mánuði og vegna atvinnutekna eru frítekjumörkin 100 þúsund krónur án þess að greiðslur frá almannatryggingum skerðist. Þorbjörn bendir á nú standi yfir málaferli vegna skerðinganna en þau muni taka langan tíma. Þess vegna sé lagt til að á næsta kjörtímabili hækki frítekjumörk vegna lífeyrissjóðsgreiðslna í 100 þúsund krónur.

„Við leggjum líka til að tekjutengingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Við teljum það bara eðlileg mannréttindi að við getum unnið á meðan við fáum vinnu og getum unnið, að við eigum bara að borga skatta og skyldur af því og það eigi ekki að gilda neinar sérreglur um okkur. Svo leggjum við áherslu á það að þarf að nást sátt um það hvernig lífeyririnn hækkar á hverju ári,“ segir Þorbjörn. Ákvörðun um það sé tekin í fjármálaráðuneytinu og hún sé ekki í neinu samræmi við almennar launahækkanir.

Aldurstakmarkanir afnumdar

Landssamband eldri borgara leggur líka til að allar aldurstakmarkanir við starfslok verði afnumdar. Í opinbera geiranum er almenna reglan sú að menn fá ekki að starfa fram yfir sjötugt.

Aldraðir vilja líka að kastljósinu verði beint að búsetuúrræðum fyrir aldraða. Einnig að eftirlaunafólki verið gert kleift að búa heima hjá sér með reisn.

HÉR er hægt að hlusta á viðtalið við Þorbjörn Guðmundsson

– Fréttinn birtist á RÚV mánudag 15. mars í Speglinum. Fréttamaður: Arnar Páll Hauksson

Ritstjórn mars 16, 2021 15:18