Tengdar greinar

Tíu sinnum fleiri bakteríur á snjallsímanum en klósettsetunni

Blaðamaður Lifðu núna hnaut um grein sem heitir 10 staðir sem hægt er að þrífa á 10 mínútum  á vefnum aarp, sem er vefur eftirlaunafólks í Bandaríkjunum. Fyrirsögnin er kannski villandi, eða er hægt að þrífa 10 hluti í íbúðinni  á 10 mínútum? Kannski getur fólk í gríðarlegri þjálfun í hreingerninum gert það. En í greininni segir að Bandaríkjamaðurinn eyði rúmum 23 klukkstundum á mánuði í að þrífa heima hjá sér. En það sé mikilvægt að gleyma engu. Síðan eru talin upp tíu atriði sem vilji gleymast í þrifunum og sem sagt fullyrt að hægt sé að þrífa þau öll á tíu mínútum. Það eru ýmsir hlutir á heimilinu þar sem bakteríur lifa alveg sérlega góðu lífi:

  1. Spaðarnir í viftunni

Viftur eru ekki sérlega algengar á Íslandi en finnast líklega á einhverjum heimilum. Þær eru hins vegar algengar í Bandaríkjunum og eru þá gjarnan í loftinu á herbergjunum. Í greininni segir að viftuspaðarnir safni ryki og þegar viftan sé sett í gang dreifist það ásamt ótal gerlum um allt herbergið. Það er ráðlagt að þurrka rykið af viftuspöðunum með rökum klút.

  1. Skúffurnar í ísskápnum

Fólk skolar kannski af matvælunum sem það tekur úr ískapsskúffunni, áður en maturinn er eldaður. En hvað um skúffuna sjálfa. Rannsóknir hafa sýnt að þær eru kjörlendi fyrir alls kyns bakteríur. Það á að taka skúffuna úr ísskápnum og hreinsa hana með vatni og sápu, láta hana síðan þorna og setja aftur í ísskápinn. Ef maturinn í skúffunni hefur rotnað, er mælt með því að strjúka líka yfir hana með tusku, sem er vætt í ediki og vatni.

  1. Skurðarbrettin

Það er ekki nóg að þurrka skurðarbrettið með klút eftir notkun. Það heldur ekki í skefjum, bakteríugróðrinum sem myndast í leifum af hráu kjöti og grænmeti sem hefur verið skorið á brettinu.

Mælt er með því að nota sérstakt bretti fyrir kjöt og annað fyrir grænmeti og þvo þau vel eftir hverja notkun. Besti árangurinn í baráttunni við bakteríurnar næst hins vegar með því að setja brettin í uppþvottavélina og setja sótthreinsunarprógrammið á, ef það er að finna í vélinni, annars að þvo þau í vel heitu vatni.

  1. Hunda- og kattaskálarnar

Könnun meðal gæludýraeigenda í Bandaríkjunum sýndi að  75% þeirra sem eiga gæludýr hreinsa hvorki skálarnar eða leikföngin sem dýrin nota. Hreinlæti skiptir hins vegar máli þegar kemur að sjúkdómum sem geta borist með matnum úr skálunum og því sé réttast að þvo þær upp eftir hverja máltíð.

Uppáhaldsleikföng gæludýrsins, hvort sem eru boltar eða tuskuleikföng þarf að þvo reglulega. Mælt er með því að setja skálarnar og plast leikföng í uppþvottavélina en tuskudýrin í þvottavéllina Þannig megi forða ferfætlingunum frá bakteríum sem valda sjúkdómum í gæludýrum.

  1. Kaffivélin

Notarðu mjólk og sykur út í kaffið? Hvað með að setja líka út í það slatta af bakteríum? Skoðun á úrgangi í ristum eða hólfum kaffivéla sýndi að 67 mismunandi bakteríur fylgja dreggjunum af kaffinu þangað. Því er jafnvel haldið fram að kaffivélar séu meðal þeirra fimm staða í húsinu þar sem bakteríuflóran er mest. Góð leið til að þrífa kaffivélina er að setja í hana edik og vatn og renna því í gegnum hana.

  1. Eldhúsvaskurinn

Jafnvel þótt eldhúsvaskurinn virðist vera hreinn, getur hann verið útbíaður í bakteríum. Þegar skolað er af matvælum í vaskium og hnífar hreinsaðir, sem hafa verið notaðir til að skera hrátt kjöt, bætist við sníkjudýrin sem svamla í niðurfallinu. Ákveðnar tegundir baktería eru í essinu sínu þar sem stöðugt er nægur raki. Það er mælt með að hreinsa vaskinn daglega, þannig að bakteríur blandist ekki fæðunni sem verið er að meðhöndla þar.

  1. Ruslafatan

Hvernig sem ruslafatan er notuð, fyrir pappír, málm, lífrænan úrgang eða almennan úrgang, er nauðsynlegt að halda henni hreinni. Ef það er ekki passað uppá að fleygja ruslinu og losa sig við til dæmis lífrænan útgang, getur úrgangurinn hitnað með tilheyrandi ólykt. Það þarf að tæma ruslaföturnar reglulega, þrífa þær vel með sápuvatni og þurrka síðan vel, áður en þær eru settar aftur á sinn stað.

  1. Rúmdýnan

Flestir skipta reglulega um sængurföt, en hugsa minna um að þrífa rúmdýnuna. Þar safnast sama sviti, dauðar húðfrumum, jafnvel mylsna af mat og gríðarlegur fjöldi baktería. Rúmdýnuframleiðandi nokkur komst að raun um, að á yfirborði sjö ára gamallar rúmdýnu voru 16 milljónir baktería.  Með því að strá matarsóda á dýnuna og ryksuga hann síðan í burtu, minnkar lyktin af dýnunni og líkur á ofnæmisviðbrögðum í húðinni minnka einnig. Ef blettir eru komnir í dýnuna sem er erfitt að ná burt, má blanda saman vatni og ediki í jöfnum hlutföllum og nota lítið í einu til að nudda blettina. Dýnan þarf að þorna vel, áður en lök og sængurföt eru notuð á ný.

  1. Sturtuhengið

Það kann að vera að sturtuhengið sé óhreinasti hluti baðherbergisins og þar sé 60 sinnum meira af bakteríum en á klósettsetunni. Sveppagróður er stærsta vandamálið við sturtuhengi.  Hann er hægt að hreinsa með því að úða  bleikiefni á sturtuhengið. Láta það vera á í nokkrar mínútur og hreinsa það síðan vel í burtu.

  1. Snjallsíminn

Snjallsímar eru notaðir til að hringja í fólk, tala við fólk í mynd, setja efni á samfélagsmiðla og versla á netinu. Öll þessi viðvik þýða að fólk yfir sextugu er um þrjár og hálfa klukkustund á dag í símanum. Það þýðir að það er meira útsett fyrir alls kyns bakteríum. Rannsókn sem var gerð í Bandaríkjunum sýnir að það eru 10 sinnum fleiri bakteríur á snjallsímanum en klósettsetu. Fólk snertir símann í tíma og ótíma en hann er eiginlega aldrei hreinsaður, segir í greininni. Og það er ekki flókið að hreinsa hann. Nóg að nota til þess blauta þurrku og bakteríurnar eru á bak og burt og snjallsíminn mun hreinni, að minnsta kosti í bili.

Ritstjórn febrúar 9, 2023 06:47