Tóm vitleysa að Óttar Felix hafi séð Bítlamyndina 30 sinnum

Óttar Felix Hauksson, var í viðtali við Morgunblaðið fyrir fimmtíu árum, þar sem sagði að hann hefði séð Bítlamyndina „A hard days night“  þrjátíu sinnum. „Þetta er ekki rétt“, segir Óttar, „Ég var nýkominn úr sveitinni og langt í frá að ég hefði getað séð myndina svona oft.  Viðtal við hann birtist í Morgunblaðinu, en hann telur að það hafi verið sett upp að undirlagi kvikmyndahússins til að fá unglinga til að flykkjast á myndina, en hún var ný og aðsóknin ekki jafn góð og vonast hafði verið til.

Óttar var bítlalegastur

Þrír skólafélagar voru spurðir hvort þeir væru til í tuskið en systir eins þeirra var að vinna í bíóinu . Einn átti að hafa séð hana tíu sinnum , annar tuttugu sinnum og sá þriðji þrjátíu sinnum. Upphaflega átti Óttar að vera sá sem hafði séð hana tíu sinnum en þegar til kastanna kom fannst blaðamanni og ljósmyndara Óttar vera „bítlalegastur“ útlits  og vildu að hann væri sá er farið hefði þrjátíu sinnum. Féllst Óttar á það fyrir þeirra fortölur.  Hann segir að þetta viðtal hafi verið sett upp af fullorðnu fólki og efnistökin hafi verið til þess fallin að gera lítið úr 14 ára unglingi.

Góð saga en ekki sannleikanum samkvæm

„Hvar liggur ábyrgðin?“ segir Óttar.  Hann segist hafa liðið fyrir þetta viðtal árum saman.  Það hafi verið bent á hann og hann þurft að sitja undir háðsglósum „Þarna er fíflið sem sá Bítlamyndina þrjátíu sinnum!“ Vitnað var í viðtalið í grein sem birtist hér á síðunni um Bítlaæðið. Óttar segir að þó sagan sé góð, sé hún ekki sannleikanum samkvæm. Þetta hafi oft verið leiðrétt í fjölmiðlum og er þessari leiðréttingu hér komið á framfæri enn einu sinni.

Ritstjórn júní 14, 2014 17:45