Um eftirlaun

Haukur Arnþórsson

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur skrifar

Umræða um kjör aldraðra hefur verið áberandi undanfarið og sumir stjórnmálaflokkarnir lofa öldruðum bættum kjörum í kjölfar kosninga, bæði hækkuðu frítekjumarki, það er minni skerðingum (jaðarsköttum) á framlagi ríkisins vegna annarra tekna og jafnvel afnámi þeirra.

Hér eru rannsökuð það sem kalla má eftirlaun eða samfélagsleg eftirlaun. Skoðuð eru þau tvö kerfi sem að baki þeim standa, annars vegar framlag ríkisins frá Tryggingastofnun og hins vegar lífeyrissjóðanna, en ekki sparnaður einstaklinga. Spurt er hver þróunin hafi verið síðustu 10 árin, hver staða eftirlaunakerfanna sé í alþjóðlegu tilliti og að lokum hvort eftirlaun mæti neysluviðmiði og hver þau ættu að vera miðað við þjóðartekjur.

Viðmiðunin við bæði kerfin, ríkisframlagið og lífeyrissjóðina, er gerð með hálfum huga og greiðslur þeirra eru skoðaðar aðskildar. Samfélagsleg eftirlaun eru verkefni ríkisins. Ríkið getur ekki yfirtekið lífeyrissjóðina til að sinna því verkefni, þótt ekki nema að hluta sé og hér er átt við með skerðingum, nema til þess að kalla iðgjöld þeirra skatta.

Þróun eftirlauna

Á mynd 1 má sjá þróun eftirlauna beggja kerfanna og þeirra saman og eru þetta meðaltöl á föstu verðlagi ársins 2017. Eftirlaun aldraðra sveifluðust ekki tiltakanlega mikið síðustu 10 árin þrátt fyrir miklar efnahagslegar sviptingar og þau síga upp á við. Ríkisframlagið hækkaði um 7% frá 2007 til 2016 miðað við fast verðlag, sem er helmingur af hækkun launavísitölu þess tímabils. Það þýðir að framlag ríkisins hefur dregist aftur úr launatekjum á markaði. Framlag ríkisins lækkaði á árunum 2008-2015, sú þróun snerist við 2016. Greiðslur lífeyrissjóðanna lækkuðu frá 2008-2012, hjá þeim varð viðsnúningur til hins betra 2013. Þær hafa síðan hækkað um eða yfir 10% árlega síðustu ár, alls 38% á tímabilinu. Hækkun meðalframlaga kerfanna saman er 19%.

Samkvæmt fjárlögum munu greiðslur ríkisins hækka um tæpar 20.000 kr. á árinu 2017 og er það veruleg hlutfallsleg hækkun eða 37% frá 2007 meðan launavísitalan hækkaði um 20%. Hækkunin veldur þó væntanlega lítilli eða engri útgjaldaaukningu ríkisins því skerðingar þess af öðrum tekjum aldraðra aukast með lækkuðu frítekjumarki milli ára og grunnlífeyrir (lágmarksgreiðsla til allra) var lagður af. Þannig lagfærir breytingin einkum hlut lægsta tekjuhópsins, en skerðir hlut flestra annarra og magnar þannig megináhrif skerðinganna sem eru að jafna kjörin niður á við.

Hlutur eftirlauna af þjóðartekjum

Á mynd 2 má sjá reiknað hlutfall eftirlauna af þjóðartekjum í OECD-ríkjunum. Miðað er við tölur frá 2013. Ekki væri sanngjarnt að miða við einföld hlutföll af þjóðartekjum vegna mjög breytilegrar aldurssamsetningar þjóðanna. Því er framlag hvers ríkis umreiknað að teknu tilliti til hennar. Það sýnir Ísland í betra ljósi en annars væri.

Engu að síður er framlag íslenska ríkisins lægst allra ríkjanna, þetta ár var það 1,93% af þjóðartekjum og er það hlutfall stillt á 1 á myndinni. Aðrar tölur myndarinnar eru margfeldi af framlagi íslenska ríkisins. Myndin sýnir vel að íslensku eftirlaunakerfin greiða lítið í alþjóðlegum samanburði. Framlag ríkisins er það lægsta sem þekkist meðal OECD-ríkja, en að viðbættu framlagi lífeyrissjóðanna er Ísland í 8. neðsta sæti.

OECD áætlar hins vegar að þjóðartekjur á mann á Íslandi verði þær þriðju hæstu meðal aðildarríkjanna á árinu 2017. 

Upphæðir eftirlauna

Á mynd 3 eru eftirlaun ríkisins, lífeyrissjóðanna og þau samanlögð (3 fyrstu súlurnar) borin saman við neysluviðmið sem er rauða línan og 2 reiknaðar tölur. Sú fyrri sýnir meðaltal eftirlauna ef allar skerðingar og þök yrðu tekin af eftirlaunum ríkisins og sú síðari ef sama hlutfall af þjóðartekjum rynni til eftirlauna og að meðaltali meðal OECD-ríkjanna að teknu tilliti til mismunandi aldursdreifingar þeirra. Allar tölurnar eru á verðlagi 2017.

Álykta má að verulega hátt hlutfall aldraðra sé með innan við meðaltal eftirlauna, sem er 294.639. Miðgildið er óhjákvæmilega nokkuð fyrir neðan meðaltalið, það byggir á því að há gildi teygja meðaltalið upp. Að þessu sögðu má fullyrða að allt að helmingur aldraðra og jafnvel eitthvað hærra hlutfall njóti eftirlauna sem eru innan við neysluviðmið.

Meðal eftirlaun eru 44,1% af meðaltekjum Íslendinga. Hins vegar hefur verið stefnt að því að lífeyrissjóðakerfið greiði 56% af þeim launum sem eftirlaunaþegi hafði í starfi og hlutur ríkisins bættist síðan við það. Töluvert vantar upp á að þau markmið náist.

Ef skerðingar og þök féllu niður yrðu meðal eftirlaun 408.073. Það er tiltölulega eðlileg tala miðað við eftirlaun annarra þjóða og nánast sama talan og reiknuð meðaltalshlutdeild eftirlauna í þjóðartekjum OECD-ríkjanna. Ef áhugi er á því að bæta kjör aldraðra liggur beint við að leysa málin þannig.

Umræðu um fátæktargildru eftirlaunaaldursins og notkun þess hugtaks yfirleitt má rökstyðja með því hvað margir aldraðir hafa eftirlaun undir framfærslumörkum og að skerðingarnar jafna kjör aldraðra niður á við. Stóru atvinnustéttirnar svo sem verslunarmenn, kennarar og hjúkrunarfræðingar standa í svipuðum sporum og þeir sem engin lífeyrisréttindi eiga. Kerfin færa millistétt og einkum lægri millistétt niður í kjör verst setta hópsins.

Frekari rannsóknir

Í framhaldi af þessum rannsóknum vakna fleiri spurningar. Í fyrsta lagi þarf að skoða önnur mál sem komið hafa í ljós. Meðal þeirra er að tekjur aldraðra aðrar en eftirlaun og launatekjur lækkuðu um 75% frá 2007-2012, sú þróun hefur smám saman gengið til baka en lækkunin frá 2007-2016 er 58%. Þetta líkist eignaupptöku, en eðlilegt má telja að aldraðir eigi tiltölulega miklar eignir að loknu ævistarfi og hafi af þeim tekjur. Meðal launatekjur þeirra voru 108.438 kr./mán. árið 2016 og hafa lítið breyst og umræddar „aðrar tekjur“ voru 109.482 kr., hvort tveggja á verðlagi 2017.

Í öðru lagi þarf að skoða tekjuþróun mismunandi tekjuhópa aldraðra á þessu tímabili og jafnvel lengra aftur. Ganga má út frá þeirri tilgátu sem þegar hefur verið nefnd að skerðingarnar bitni mest á næst tekjulægsta hópnum, hlutfallslega minna á tekjuhærri hópum og því minna sem tekjur þeirra eru hærri. Þær bitna hins vegar ekki á tekjulægsta hópnum, sem á lítinn eða engan rétt í lífeyrissjóðum. Ríkið eignar sér greiðslur lífeyrissjóðanna samkvæmt þessu mynstri.

Lokaorð

Af þessari rannsókn má ráða að eftirlaun hafa ekki breyst mikið síðustu 10 árin. Þau lækkuðu fyrst eftir bankahrunið, en hafa hækkað síðan, framlag ríkisins um 7% frá 2007 og lífeyrissjóðanna um 38%, bæði á föstu verðlagi og er hækkun kerfanna saman 19% frá 2007. Í alþjóðlegum samanburði stendur Ísland illa, eftirlaun eru með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkja og greiðslur kerfisins eru innan við neysluviðmið fyrir um helming eftirlaunaþega. Jaðarskattar ríkisins á eftirlaun virðast valda þessari stöðu.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 7. október 2017)

Ritstjórn október 17, 2017 15:47