Unaðurinn í vatninu

Flot í vatni veitir unað.

Vatn þekur 71% af yfirborði jarðar og er lífsnauðsynlegur vökvi öllum þekktum lífverum. Mjög einfalt er að sjá fyrir hvað gerist ef vatnsskortur á sér stað. Ekkert líf þrífst án vatns og við þurrk harðnar jarðvegurinn og verður nánast vatnsheldur svo að þegar rigingar hefjast verða flóð eins og átti sér stað í Ástralíu nýverið. Vatn er ekki bara undirstaða lífs á jörðunni heldur er óhætt að fullyrða að vatn sé líka forsenda vellíðunar. En af  hverju nýtum við okkur vatnið ekki í ríkara mæli hér á landi fyrst við eigum nóg af því, bæði heitu og köldu?

Vellíðan

Að fljóta í vatni er af mörgum talið mesti unaður sem hægt er að upplifa. Í vatni er viss heilun og jarðtenging sem ekki er svo auðvelt að finna annars staðar. Enginn lætur sér detta í hug að andmæla þeirri staðreynd að betra sé fyrir okkur að hreyfa okkur meira en minna en það getur verið vandkvæðum bundið fyrir þá sem vinnunnar vegna stunda kyrrsetu á daginn. Og þegar heim er komið kallar sjónvarpið á og enn meira hreyfingarleysi. Margir mega af einhverri ástæðu ekki stunda hlaup eða nenna því einfaldlega ekki en það er allt í lagi ef annað kemur í staðinn. .

Að byrja daginn í sundi

Íslendingar eiga auðveldara með að stunda sund en aðrar þjóðir þar sem nóg er hér af heitu vatni. Sundferðir eru ríkur þáttur í menningu okkar enda er öllum skylt að læra að synda sem börn. Margir halda þeirri iðju áfram fram eftir aldri en ekki allir. Sundið er tilvalin leið til að koma sér í form. Unaðurinn við að byrja daginn með sundferð er ávanabindandi enda keyrir vatnið líkamsstarfsemina í gang fyrir daginn og nú bjóða flestar sundlaugar upp á kalda potta jafnt sem heita og sundstaðir opna 6:30 á vikum dögum en 8 um helgar.

Sund ákjósanlegra en hlaup

Sundið er að mörgu leyti ákjósanlegri þjálfunaraðferð en hlaup. Ein ástæðan er sú að vatnið gerir mann léttari og þannig verður minna álag á liði og vöðva á meðan maður er ofan í. Álagsmeiðsl eru til dæmis fáheyrð í sundi. Þess vegna er sundþjálfun tilvalin fyrir þá sem eiga við einhvers konar meiðsl að stríða en líka fyrir eldra fólk eða þá sem eru of þungir o.s.frv.

Byrjaðu rólega og settu þér markmið

Óhætt er að fullyrða að allir sem prófa að stunda stund reglulega verðir háðir því, svo góð er tilfinningin. Og þá er björninn unninn. Markmiðið er að byggja líkamann upp í skrefum og styðjast við mínútur sem varið er í lauginni og/eða metra sem syntir eru. Flestar sundlaugar á Íslandi eru 25 metrar að lengd og alls staðar er að finna klukkur. Þegar líkaminn er kominn í þjálfun eigum við að geta synt 900 – 1000 metra með góðu móti. Og árangurinn skilar sér fljótt.

Skriðsund eða bringusund

Til að byrja með er best að nota sundaðferð sem við ráðum vel við. Allir stærstu vöðvahópar í líkamanum vinna jafn mikið þegar synt er. Þó er gott að geta skipt um sundaðferð, ekki síst af því það er skemmtilegra, allt til að við endumst.

Sundþjálfun þrisvar í viku er tilvalin en allt er betra en ekkert. En eitt er víst að ekki er hægt að stytta sér leið þegar verið er að byggja upp þol og vöðvastyrk. Flestir sundstaðir bjóða upp á gufubað og heita potta. Vöðvarnir mýkjast við hitann og mjög gott er að gera teygjuæfingar í gufubaðinu.

Reglubundin hreyfing er fjárfesting til frambúðar og sýnt hefur verið fram á að það er aldrei of seint að byrja. Notum vatnið!

 

(Upplýsingar úr bæklingi sem gefinn var út á vegum ÍSÍ.)

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 12, 2020 07:04