Undursamlegt Osso buco

Brúnið kjötið vel.

Haustið er gengið í garð. Matarsmekkur fólks breytist oft á þessum árstíma, í stað léttra rétta langar okkur í þyngri mat, sérstaklega á köldum dögum. Osso buco eða nautaskankar eru í miklu uppáhaldi hjá blaðamanni Lifðu núna. Yfirleitt er hægt að fá skankana í kjötbúðum og blaðamanni finnst best að sneiðarnar séu um það bil 3- 4ra sentimetra þykkar. Eitt sem er gott við að elda Osso buco er að maður skellir bara öllu í einn stóran pott og lætur malla lengi annað hvort á hægum hita á eldavélinni eða inn í ofni. Þessa uppskrift fengum við á vefnum Íslenskt nautakjöt.

1 1/2 kg nautaskankar osso buco

1 dl smjör

1 dl hveiti

laukur

gulrætur í stórum bitum

sellerístilkur í stórum bitum

lárviðarlauf

1 lítil dós tómatpúrré

1/2 flaska rauðvín

timinan

salt og pipar

Setjið kjötið í sterkan plastpoka ásamt kryddi og hveiti. Hafið loft inn í pokanum lokið og hristið til, þannig kryddast kjötið á hreinlegan hátt, svo má henda pokanum og brúna kjötið í smjöri á pönnu. Síðan fer það í stóran pott ásamt öllu sem eftir er í uppskriftinni, látið malla við vægan hita allt að tvo klukkutíma. Á pönnunni er brúnað perlulaukur, sveppir og beikon sem gott er að bæta í pottinn þegar u.þ.b. hálftími er eftir af suðutímanum. Eldið kjötið bara nógu lengi, eða þangað til það byrjar að losna af beinunum. Þennan rétt er kjörið að matreiða t.d. fyrir hádegi á laugardegi og hita svo upp um kvöldið. Annað hvort má þykkja sósuna í pottinum t.d. með sósujafnara og rjóma eða hella soðinu í annan pott og þykkja sósuna þar og bera hana fram sér.

Með kjötinu er gott að bera fram grófa kartöflumús, pasta eða jafnvel hrísgrjón. Mörgum finnst svo nauðsynlegt að bera fram Gremolata með Osso buco en það má gera svona: fínsaxið steinselju svona um það bil hálfan bolla, bætið saman við fínsöxuðu hvítlauksrifi og tveimur teskeiðum af rifnum sítrónubörk.

 

Ritstjórn október 5, 2018 09:34