Úr bankanum í þvottahúsið

Vigdís Eiríksdóttir Sigurðardóttir fór á eftirlaun um áramótin 2014/2015, eftir að hafa unnið í þrjátíu ár hjá Landsbankanum. Hún var heima í 20 daga eftir að hún hætti hjá bankanum, en fór þá að vinna hálfan daginn hjá Þvottahúsi Flugleiðahótela.

Stillti sig inná að hætta

Vigdís segir að hún hafi vitað það í þrjátíu ár að hún myndi hætta störfum í Landsbankanum 67 ára og að hún hafi verið sátt við það. Hún segir reglurnar skýrar og sjái að á ýmsum öðrum vinnustöðum fari að hitna undir fólki þegar það sé orðið sextugt. „Ég var algerlega búin að stilla mig inná að hætta 67 ára“, segir Vigdís. Hún segist hafa verið ákaflega ánægð með störf sín í bankanum, þar sem hún vann í mörgum deildum þessi þrjátíu ár og öðlaðist mikla reynslu.

Gott að losna við áreiti

„Ég fór sátt og held að ég hefði ekki viljað vera lengur. Það eru svo miklar breytingar í bankakerfinu að maður verður þreyttur á því, ég tala nú ekki um þegar þetta fer að ganga í hringi“. Hún er að strauja, brjóta saman þvott og ganga frá honum í Þvottahúsi Flugleiðahótela. „Mér finnst það alveg frábært“, segir hún. „Það er mjög gott að vera hér í rólegheitunum“.

Hefur hálfan daginn fyrir sig

Hún segist bara ganga að sinni vinnu og sinna henni þar til klukkan verður 12. Henni þykir mikill akkur í því að eiga svo allan daginn fyrir sig, enda er hún í nokkrum hópum sem hittast reglulega. Hún fer á fætur klukkan 5:00 á morgnana. Fer í líkamsrækt og fær sér te og engiferskot áður en hún mætir í vinnuna klukkan 8:00.

Telur fólk eiga möguleika

Vigdís telur að flestir þeir sem eru komnir yfir sextugt, eigi möguleika á að fá starf ef þeir séu tilbúnir að fara í hvaða störf sem er. „Mér finnst starfið mitt skemmtilegt“, segir hún. Hún segir dæmi um að vinnufélgar hennar sem hættu rúmlega sextugir, hafi farið í hlutastörf. Ein hafi farið að vinna hálfan daginn á Hagstofunni og önnur í apóteki.

Mæta alla daga

Hún er sannfærð um að þær séu ekki síðri starfskraftar en yngra fólk. Þær geti mætt alla daga og búi yfir verðmætri reynslu. Það sé klárlega kostur að hafa góða blöndu fólks á vinnustöðum. „Ég skil ekki þá sem vilja ekki hafa fólk á öllum aldri í vinnu. Ef allir eru á sama aldri með ung börn og það kemur upp einhver skæð barnapest getur fyrirtækið lamast“, segir hún.

Fer að hitna undir mörgum um sextugt

Vigdís hefur engu að síður orðið þess vör að það fer að hitna undir mörgum rúmlega sextugum og nefnir dæmi um fólk á þeim aldri sem hefur verið boðið að hætta og fá starfslokapakka, þrátt fyrir að það sé í fullu fjöri, hokið af reynslu og hreint ekki farið að hugsa um að hætta. „Halda þessir stjórnendur að þeir fari aldrei á eftirlaun?“ segir hún og hlær.

Ættu að fá að vera áfram í vinnu

Hún segir að fyrir 30 árum þegar eftirlaunaaldurinn í landinu hafi verið 67 ár, hafi meðalaldur fólks hér á landi verið nokkuð lægri en hann er í dag. Henni finnst eðlilegt að fólk minnki við sig ábyrgð og álag með aldrinum og að vinnuveitendur beri virðingu fyrir vinnuframlagi þess í gegnum tíðina. „Já og að fólk fái hreinlega að vera áfram í vinnu ef það óskar þess“.

 

 

Ritstjórn desember 1, 2015 11:21