Útlagarnir á aldrinum 50-70 og slá ekkert af

Ganga í Geldingadölum.

Eftir því sem árunum fjölgar verður okkur ljósara hversu mikils virði góð vinátta og skemmtilegur félagsskapur er. Hann skiptir auðvitað máli á öllum aldri en verður mikilvægari þegar við höfum gert okkur grein fyrir hvað heilsan er stór þáttur í því að njóta áranna eftir miðjan aldur og hvað við getum gert sjálf til að hún haldi.

Í göngu á Fimmvörðuhálsi.

Hópur fólks, sem allt er á aldursbilinu 50 til 70 ára, hefur notið útiveru saman allt frá því þau tóku þátt í verkefni á vegum Ferðafélags Íslands sem nefndist 52 fjöll. Þetta var árið 2010 og síðan hafa þau hist helst vikulega og kalla sig Útlagana. Þau hittast alla miðvikudaga þegar veður leyfir og þá ganga þau saman lengri eða skemmri vegalengdir. Covid hefur eðlilega sett strik í reikninginn í þessum félagsskap eins og öðrum en nú sér fyrir endann á þeirri truflun. Einn í þessum hópi, Ágúst Ólafsson, ákvað að fara á námskeið hjá Endurmenntun HÍ sem nefnist  Gönguleiðir á hálendinu, sem Jónas Guðmundsson leiðir, en Ágúst segist hafa ákveðið að fara á þetta námskeið til að stytta sér leið.

Blandaður hópur en engar kvaðir

Þegar verkefninu 52 fjöll lauk vildi hópurinn halda áfram að labba saman og í dag eru eftir um 16 manns sem hittast enn reglulega. Þetta eru mörg pör og nokkrir einhleypir. Enginn formaður er í hópnum en Ágúst segir að þau velji svokallaðan aðalritara sem sjái um að skrá viðburði og göngur inn á FB síðu hópsins. ,,Þetta er blandaður hópur beggja kynja sem hittist alltaf á miðvikudögum og yfir vetrartímann er gengið í 2-4 tíma í senn,“ segir Ágúst og tekur fram að þessi hreyfing og útivera sé þeirra líkamsrækt. ,,Oftast erum við að ganga á fjöllin í kringum Reykjavík eins og Esjuna og Úlfarsfell en svo hefur verið regla að hittast annan hvern laugardag og þá er farið í lengri göngur. Við gerum þó hlé á gönguferðum yfir hásumarið,“ segir Ágúst.

Hann tekur fram að þessum hópi fylgi engar kvaðir sem sé sennilega ástæðan fyrir því að hann helst enn saman. ,,Það er engin pressa að neinu leyti og engir reikningar að borga nema þeir peningar sem fólk ákveður sjálft að verja í eigin búnað. Það er öllum frjálst að mæta þegar þeir geta og vilja og niðurstaðan er sú að fólk mætir alltaf þegar það getur af því þetta er svo skemmtilegt,“ segir Ágúst og brosir.Það  innihaldið trúnaðarupplýsingar

Hjólaferð hópsins til Austurríkis og Ítalíu.

Hópurinn stundar aðra hreyfingu saman líka

Útlagarnir eru reyndar ekki bara í gönguferðum heldur hafa þau hjólað mikið saman bæði innanlands og utan og nýlega prófaði hluti hópsins gönguskíði. ,,Þeir sem vildu og gátu komu með í það verkefni   og allir voru velkomnir að prófa. Svo gerum við ýmislegt annað saman eins og að fara í leikhús og tónleika og út að borða, ekki endilega allir saman alltaf eins og gefur að skilja,“ segir Ágúst og er

Kvöldganga við Meðalfellsvatn.

ánægður að tilheyra þessum skemmtilega hópi sem vináttan heldur saman.Það er nú bara forvitni um þessar auka leiðir sem hann Jónas er að s

Árshátíðin er haldin úti í náttúrunni

Einu sinni á ári fara Útlagarnir í helgarferð á skemmtilegan stað og haldin er árshátíð. Þá gera þau það sem þeim þykir skemmtilegast sem er að ganga saman og njóta náttúrunnar. ,,Svo borðum við góðan mat og segjum sögur,“ segir Ágúst.

Af hverju námskeið?

Ágúst sækir nú skemmtilegt námskeið hjá Endurmenntum Háskóla Íslands til að ná sér í þekkingu sem getur nýst hópnum hans á komandi sumri. ,,Ég heyrði um þetta námskeið sem Jónast Guðmundsson leiðir og varð forvitinn um þessar auka leiðir sem sagt er frá. ,,Það eru földu fjársjóðirnir sem svo gaman er að leita uppi á Íslandi og nóg er af þeim. Maður verður að hafa fyrir því að finna þá og það er sannarlega þess virði. Ég er að stytta mér leiðina að þeim með þessu námskeiði og hef sannarlega ekki orðið fyrir vonbrigðum. Síðan verður líka farið í jarðfræði  landsins sem ég er mjög áhugasamur um. Námskeið eins og þetta gera ferðalögin enn skemmtilegri og dýrmætari,“ segir Ágúst og er mjög ánægður með ákvörðun sína að verja tíma í þrjár kvöldstundir með fólki sem allt hefur sama áhugamál.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 17, 2022 07:37