Tengdar greinar

Útskriftarferð í elliglapaþorpið í Hollandi

Framfarir í öldrunarþjónustu eru miklar að sögn nemenda sem útskrifuðust nýverið úr nýju námi í öldrunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri, en námið er sniðið að sjúkraliðum með starfsreynslu. ,,Aðrar þjóðir eru auðvitað að horfast í augu við sama mál og við varðandi hækkandi aldurs þjóðarinnar og vandamál því tengdum,“ segir Kristbjörg Elín Oddsteinsdóttir, ein úr hópnum. Farið var í útskriftarferð til Hollands til að skoða Elliglapa þorpið Hogeweyk, en það er heilt þorp, sem helgað er elliglapa-,heilabilunar- og alzheimer sjúklingum. Þarna segir Kristbjörg að virðing fyrir þessum sjúklingum sé í fyrirrúmi og til fyrirmyndar og veitt vönduð einstaklingsmiðuð þjónusta, sem stuðlar að innihaldsríku og öruggu lífi fyrir þennan hóp. ,,Í þessu þorpi eru 27 hús og 7 heimilismenn í hverju húsi með tvo starfsmenn. Valið er í húsin eftir manngerð sjúklinganna þannig að saga hvers og eins er skoðuð. Athugað er með lífsstíl og  hvaða áhugamál viðkomandi hafði áður, til dæmis hvaða tónlistar- eða matarsmekk hann hafði áður en hann veiktist. Þegar heilabilun, elliglöp eða alzheimer hrjáir, getur sjúklingur síður tjáð sig um hvað honum þykir gott og skemmtilegt en við erum auðvitað sömu manneskjur og áður en sjúkdómurinn sótti á,“ segir Kristbjörg og bætir við að ef þessu fólki er boðið upp á að hlusta sífellt á klassíska tónlist, en  hafi alltaf haft meiri áhuga fyrir djasstónlist, verði það bara pirrað, svo sem eins og við hin! ,,Með þessari aðferð líður fólkinu miklu betur og er ánægðara, einmitt af því það umgengst fólk dags daglega, sem hefur lifað svipuðu lífi og það sjálft. Í þessu þorpi eru líka fjölmargir klúbbar með ólíka afþreyingu í boði. Þannig eiga allir vistmenn að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Leyfi fékkst til að taka mynd í einu tónlistarherberginu í þorpinu.

Sjálfboðaliðar gífurlega mikilvægir

Að sögn Kristbjargar, er þorpið rekið með styrk frá ríkinu, en um 80 sjálfboðaliðar, séu þorpinu líka geysilega mikilvægir, við aðstoð við heimilismenn og gefandi samveru. ,,Í þessu þorpi eru götur með nöfn og torg og leik- veitinga- og kaffihús og í raun flest það, sem finna má í venjulegum litlum þorpum. Þannig fara íbúar og aðstandendur og sjálfboðaliðar og starfsfólk út að borða saman á veitingastaðnum, eins og á öðrum veitingastöðum og geta notið þar matar, dykkjar og samveru. Ef sjálfboðaliðarnir stoppa í meira en þrjá klukkutíma í senn, við starfann, fá þeir frítt að borða á veitingahúsinu með heimilismönnunum,“ segir Kristbjörg. ,,Allt er þetta svo hvetjandi og elskulegt og allir hagnast. Engar áberandi hindranir eru settar í kringum heimilisfólkið innan þorpsins, og í ljós kom að fallhætta minnkaði mjög mikið við það eitt. Fólkið fer sér ekki að voða því þorpið er öruggur staður. Þú getur farið hvert sem þú vilt innan þorpsins. Og ef enginn er til að stöðva viðkomandi, þá er strokþörfin miklu minni og þeir verða síður pirraðir. En á almennum hjúkrunarheimilum, m.a. hér á landi fer mikil orka starfsfólks í að koma í veg fyrir það að heimilismenn komist út af stofnununum og fari sér að voða. Þá eru heimilismenn oft mjög argir yfir því að fá ekki að fara sinna ferða.

Þorpið í Hogeweyk opnaði 2009

Töluverð reynsla er komin á svona sérstök þorp fyrir elliglapa- heilabilaða- og/eða alzheimer sjúklinga, en Kristbjörg segir að Hollendingar séu mjög viljugir að miðla af reynslu sinni til annarra þjóða og nú hafa viðlíka þorp risið í fleiri löndum. Þetta er allt mjög áhugavert, heimilismenn eru greinilega ánægðir. ,,Í hverju þorpi eru sérmenntað heilbrigðisstarfsfólk og staðreyndin er sú að þegar fólk er komið á þennan stað lífsins, stoppar það ekki lengi við. Oftast er þetta því endastöðin.  Það var svo indælt að sjá hversu mikil virðing var borin fyrir heimilismönnum og að augljóslega er séð um að síðustu dagar lífsins verð góðir. Þorpið er því í raun ekki stofnun, heldur staður þar sem þú getur lifað lífi þínu eins eðlilega og hægt er, þrátt fyrir ástand þitt,“ segir Kristbjörg að lokum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn júlí 13, 2023 07:00