Eldra fólk á engan viðurkenndan rétt til að koma að ákvörðunum um árlegar hækkanir lífeyris almannatrygginga og í grein í nýjasta blaði Landssambands eldri borgara gerir Þorbjörn Guðmundsson stjórnarmaður í LEB, þetta að umræðuefni. Í greininni sem ber fyrirsögnina Valdleysi eldra fólks, bendir hann á að stjórnvöld túlki það mjög frjálslega hvernig laun eldri borgara hækka í samræmi við launaþróun í landinu. Þau taki til að mynda ekkert tillit til launaskriðs. Miðað sé við umsamdar launahækkanir í kjarasamningum, en það séu lágmarks launahækkanir sem séu oftast undir hækkun launavísitölu, sem er mælikvarðinn á breytingu launa á íslenskum vinnumarkaði. Hann bendir líka á að fólk á vinnumarkaði hafi stofnað stéttarfélög sem hafi meðal annars það hlutverk að semja um kjör fyrir þess hönd. Þegar fólk eldist hafi það hins vegar enga aðkomu að ákvörðun um eftirlaunin. Síðan segir í greininni:
Tryggja þarf eldra fólki sambærilegan rétt til að semja við ríkið um sín kjör og réttindi með því að lögbinda aðkomu þess, til dæmis með því að LEB fái hlutverk stréttarfélags til að semja um kjör sinna félagsmanna. Eldra fólki fer fjölgandi og er stækkandi hlutfall af íbúum landsins sem kallar á nýja nálgun. Það er aðkallandi að tryggja eldra fólki sambærileg réttindi og öðrum hópum til að hafa áhrif á umhverfi sitt.
Sé borin saman hækkun lífeyris og launa á almennum vinnumarkaði fyrir tímabilið 1.janúar 2017 til 1.janúar 2022 sést að það hefur átt sér stað veruleg gliðnun og hallar þar verulega á lífeyristaka.
Við ákvörðun stjórnvalda um hækkun lífeyris, birtast afleiðingar valdaleysis lífeyristaka því stjórnvöld komast upp með að taka ákvarðanir um hækkanir sem standast ekki lágmarks viðmiðð 69.gr laga almannatrygginga. Eldra fólk hefur þann eina kost að mótmæla en enginn er skyldugur að bregðast við.
Stéttarfélög geta beitt þvingunarúrræðum svo sem verkföllum og yfirvinnubanni náist ekki samkomulag um viðunandi lausn í deilum þeirra við atvinnurekendur.
Nú er talað um mikilvægi valdeflingar og notaendasamráðs í tengslum við þjónustu við eldra fólk.
Valdefling miðar að því að einstaklingur nái stjórn á eigin lífi og aðstæðum og hafi þannig áhrif á þau úrræði sem hann þarfnast hverju sinni. Valdelfling stuðlar að auknum þroska til að hafa stjórn á eigin lífi.
Notendasamráð er þegar einstaklingur tekur virkan þátt á öllum stigum í mótun þjónustu við sjálfan sig.
Spurningin er hvort hægt sé að skapa pólitíska sátt um að tryggja valdeflingu og notendasamráð við ákvörðun um kjör eldra fólks. Þróa verkferla sem tryggja fagleg vinnubrögð sem tryggi eldra fólki að laun/lífeyrir þess hækki til samræmis við aðra í samfélaginu.
Sjá blað Landssambandsins hér.