Valdi jólaballið og dótturina fram yfir ríkisstjórnarfund

Um Þórunni Sveinbjarnardóttur, fráfarandi formann BHM, er ýmislegt sagt eins og gjarnan er um þá sem skara fram úr. Samstarfsmenn hennar  segja hana vera eldklára, staðfasta og beinskeytta, svona “no bullshit” manneskju.  Hún standi jafnframt þétt við bakið á sínu fólki og sé í senn yfirmaður og vinur. Það sé dýrmætur og sjaldgæfur kostur. Sumir gagnrýnendur hennar hafa sagt hana vera erfiða eins og oft er sagt um frambærilegar konur sem taka pláss í þjóðfélagsumræðu. Þórunn er frumkvöðull í kvennapólítik á Íslandi, einstæð móðir og umhverfissinni sem hefur nú ákveðið að snúa aftur í stjórnmálin reynslunni ríkari. En hver er Þórunn þegar betur er að gáð?

Klisjan um gleymda miðjubarnið

Þórunn er fædd 1965, alin upp í Reykjavík, á foreldra á lífi og tekur fram að hún eigi tvær góðar systur. “Klisjan um að vera gleymda miðjubarnið sem fær útrás með því að hafa hátt á allt við,” segir hún og hlær. Þórunn fór hefðbundna leið í MR og svo upp í Háskóla Íslands. Þar nam hún stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði og tók líka Evrópustjórnmál. Eftir það hélt hún út í heim þar sem hún menntaði sig meira bæði formlega og óformlega og kom reynslunni ríkari heim. Þá fór hún að vinna fyrir Rauða krossinn, gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu og starfaði fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Tansaníu og Aserbaídsjan. Svo kom hinn örlagaríki vetur 1998 – 1999 þegar hún tók þátt í að stofna Samfylkinguna. Það endaði með því að Þórunn fór í framboð í Reykjaneskjördæmi og endaði á þingi þar sem hún sat í 12 ár og var Umhverfisráðherra 2007 – 2009. Og nú 2021 hefur hún ákveðið að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í suðvesturkjördæmi í haust.

Á rætur að rekja út á land

Gengið meðfram Þjórsá á fallegum degi.

Eins og aðrir Íslendingar á Þórunn rætur úti á landi en ólst upp í Reykjavík. Amma og afi í móðurætt bjuggu í Stykkishólmi þar sem Þórunn dvaldist oft og þykir vænt um staðinn síðan. Hin amma hennar var frá Ísafirði og afinn frá Siglufirði en þau bjuggu alla tíð í Reykjavík. Skömmu áður en viðtalið fór fram var Þórunn á leiðinni til Siglufjarðar á gönguskíðanámskeið. Þegar hún er spurð hvort hún sé ekki mikil útivistarmanneskja segir hún að hún geri það sem hún geti en hafi aldrei litið á sig sem íþróttamanneskju. Hún fari þó daglega í göngutúra því hún búi þannig í Garðabæ að stutt sé bæði niður að sjó og út í hraun og hún njóti þess ríkulega að búa í þessu dásamlega landi þar sem náttúran er svo nálæg. Þær mæðgur eigi líka hund sem þurfi að hreyfa og svo fari hún í jóga og ræktina af og til.

Eignaðist dóttur ein síns liðs árið 2003

Þórunn var á þingi þegar hún ákvað að eignast dóttur sína  Hrafnhildi og var þá 35 ára gömul. Hún segir að það hafi verið stærsta ákvörðun sem hún hefur tekið í lífinu því hún ákvað að ættleiða hana ein og það

Mæðgur á Ítalíu.

segir líklega mikið um þessa konu. Sá gluggi hafði opnast og Þórunn tók stökkið og  finnst pressan á að mynda kjarnafjölskyldu hafi minnkað í samfélaginu á undanförnum árum. Hún segir að auðvitað hafi lífið breyst rosalega við það að verða móðir. „Dagarnir eru auðvitað ekki auðveldir hjá einstæðum foreldrum en ég fékk mjög mikla hjálp hjá foreldrum mínum og systrum. Eldri systir mín kom til dæmist með mér til Kína þegar ég fór að ná í dóttur mína. Svo hitti svo vel á að margir vina minna voru seinir til barneigna eins og ég og áttu því börn á svipuðum aldri og það gerði lífið oft léttara. Þetta gekk allt eins og í sögu og stelpan mín er nú orðin átján ára sjálfstæð og glæsileg ung kona á leiðinni út í lífið.

Auðvitað gat lífið verið flókið þennan tíma sem ég var í Umhverfisráðuneytinu og ekki síður á þinginu eftir það. Þá voru þannig tímar á Íslandi og ástand í pólitíkinni að oft reyndi á. Ég held samt að blessað barnið hafi komist óskaddað frá þessu og það er fyrir öllu,” segir Þórunn og brosir. „Nú er Hrafnhildur að verða stúdent á leiðinni út í lífið og ég er svo ánægð með hvernig okkur hefur gengið að flétta líf okkar saman.”

Þurfti aldrei að semja við neinn nema sjálfa sig

Og af því Hrafnhildur er ættleidd þá er enginn pabbi á heimilinu og á því segir Þórunn að séu tvær hliðar. „Í okkar tilfelli hefur hvorki verið helgarpabbi né pabbi í húsi sem gerir álagið auðvitað meira stundum. En á

Þórunn á Snæfellsjökli.

móti kemur að ég þurfti aldrei að semja við neinn nema sjálfan mig um það hvernig hlutirnir ættu að vera. Það gat alveg verið kostur,” og líklega lætur Þórunni vel að geta tekið mikilvægar ákvarðanir ein og óstudd. En hefur hún aldrei verið í sambúð? „Nei, það hefur ekki átt fyrir mér að liggja enn sem komið er. Ég hef bara átt mislánlega kærasta,” segir hún og hlær.

Skrópið og jólaballið

Þórunn forgangsraðaði rækilega í lífi sínu þegar hún ákvað að ættleiða barn og gerði sér grein fyrir því að til þess að hlutirnir gengju upp eins og hún taldi best þá þyrfti að vera ákveðinn rammi í kringum hana og barnið. „Hrafnhildur gekk auðvitað fyrir þegar hún var komin inn í líf mitt og til þess að það gæti gengið þurfti ég að finna jafnvægi fyrir okkur. Ég get sagt frá því núna að ég skrópaði einu sinni á ríkisstjórnarfundi,” segir Þórunn og brosir. „Það var vegna þess að fundurinn hitti einmitt á sama tíma og jólaballið þegar Hrafnhildur var í 6 ára bekk og ég vildi ekki að hún væri eina barnið sem væri foreldralaust á ballinu. Það er til nokkuð sem heitir „lögmæt forföll” og mér þóttu þetta vera lögmæt forföll og sé ekki efir því að hafa valið jólaballið fram yfir ríkisstjórnarfund,” segir Þórunn og brosir. „Svona gat ég látið hlutina ganga upp og með aðstoð fólksins míns gekk allt vel. Stóra breytingin varð svo fyrir 10 árum þegar ég hætti á þingi og var allt í einu alltaf heima hjá mér,” segir Þórunn. „Það var auðvitað risabreyting fyrir Hrafnhildi en við  vorum fljótar að venjast því líka.”

Tók þátt í nýrri bylgju kvenfrelsis

Þegar Þórunn var að komast til vits og ára var að myndast á Íslandi þessi nýja bylgja kvenfrelsis, kvennaframboð og kvennalisti, sem hún segir að hafi haft mikil áhrif á sig sem unga konu. „Það varð til þess að ég gekk til liðs við Kvennalistann og starfaði með honum. Áður hafði ég tekið þátt í stofnun Röskvu í Háskólanum og var fyrsti formaður hennar.

Stígur aftur á svið

Þórunn hlakkar til að stíga aftur á sviðið og gera gagn við uppbygginguna sem framundan er.

Nú segir Þórunn að verkefnið sé að ganga sómasamlega frá á BHM þar sem hún hefur verið formaður í 6 ár og hefja nýja vegferð. Hún kemur nú reynslunni ríkari aftur eftir trúnaðarstörfin innan verkalýðshreyfingarinnar inn á pólitíska sviðið. Hún segist vera glöð og spennt og hlakka til að takast á við komandi verkefni.

„Þetta síðasta ár hefur reynt mikið á okkur öll. Svo sjáum við líka að þótt faraldurinn hafi hitt alla fyrir hafa efnahagslegu áhrifin sem af honum hlutust hitt fólk mjög mis illa fyrir. Atvinnuleysið er gífurlegt og mikið áhyggjuefni. Það er stóra verkefnið í nánustu framtíð og eins gott að vel takist til við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu,” segir Þórunn Sveinbjarnardóttir sem hefur enn og aftur forgangsraðað í lífi sínu og vill nú aftur leggja sitt af mörkum í stjórnmálunum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

Ritstjórn febrúar 19, 2021 07:28