Vilja draga úr tekjutengingum og hækka frítekjumark

„Enginn á að þurfa að búa við fátækt að lokinni formlegri starfsævi,“ segir í stefnuskrá Samfylkingarinnar í málefnum eldra fólks. Flokkurinn segist vilja tryggja afkomuöryggi allra þegar komið sé á efri ár. Hann vill að greiðslur almannatrygginga hækki árlega í samræmi við raunverulega launaþróun í landinu og standi undir mannsæmandi framfærslu. Þá vill hann draga úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu og hækka frítekjumörk.

Einnig er vikið að búsetuúrræðum í stefnuskránni, en þar segir að aldraðir skuli fá stuðning til að geta lifað sjálfstæðu lífi á eigin heimili kjósi þeir það. „Flestir eldri borgarar búa á og reka eigin heimili, rétt eins og fólk á öðrum aldursskeiðum. Þessum hópi þarf að tryggja fullnægjandi framboð heppilegs húsnæðis auk tækifæra til samfélagslegrar virkni, menntunar og atvinnuþátttöku með sveigjanlegum starfslokum og hlutastörfum.“

Einnig segir að ráðast þurfi í stórátak til að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir þá sem þess þurfa þar sem heimilisfólki standi til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta. „Á stofnunum sem þjóna öldruðum þarf að vera tryggt að allir njóti öryggis og virðingar óháð kynhneigð og kynvitund og að tekið sé tillit til óska þeirra, til dæmis um fyrirkomulag mjög persónulegrar þjónustu og hjúkrunar.“

Þá vill flokkurinn að brugðist sé við fjölgun aldraðs fólks með því að leiða saman hið opinbera og aðila vinnumarkaðarins. Búast megi við því að hlutfall 67 ára og eldri hækki um allt að helming á næstu tuttugu árum.

Þá vill Samfylkingin vinna áfram að því að styrkja íslenska lífeyriskerfið, en lífeyrissjóðirnir standi undir stærstum hluta kerfisins og líklegt sé að vægi þeirra vaxi enn á næstu árum. „Almannatryggingar verða þó áfram að gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja afkomu þeirra sem af ýmsum ástæðum eiga lítil önnur lífeyrisréttindi.“

Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar. Flokkurinn býður fram undir listabókstafnum S í komandi alþingiskosningum. Nálgast má stefnu flokksins í málefnum aldraðra með því að smella á þessa slóð.

Ritstjórn september 15, 2021 07:00