Tengdar greinar

Vanræksla flokkast sem ofbeldi gegn öldruðum

Ofbeldi gegn öldruðum er lýst sem ósýnilegum vanda, í skýrslu Greiningadeildar Ríkislögreglustjóra sem nýlega var kynnt um stöðu þessara mála  á Íslandi. Þar segir einnig að birtingarmyndir ofbeldis gegn öldruðum geti verið af margvíslegum toga. Þá sé mikilvægt að hafa í huga að vanræksla geti  flokkast sem ofbeldi líkt og skortur á virðingu fyrir reisn og sjálfsákvörðunarrétti viðkomandi.

Verða fyrir ofbeldi heima og á hjúkrunarheimilum

Vegna þess hversu dulinn vandinn er, hefur reynst erfitt að leggja mat á það hversu útbreitt ofbeldi gegn öldruðum er.  Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO, áætlar að tæp 16% fólks sextugt og eldra verði fyrir ofbeldi, en norsk rannsókn sýnir lægri tölur eða að  5-7% fólks sem er eldra en 65 ára, hafi orðið fyrir ofbeldi.  Íslenskar rannsóknir hafa ekki leitt í ljós svo afgerandi niðurstöður en fyrirliggjandi upplýsingar þykja leiða í ljós að vandinn sé án efa til staðar hér og frekari rannsókna sé þörf. Samkvæmt lögum eru aldraðir hér á landi, þeir sem hafa náð 67 ára aldri.

Hvernig er ofbeldið?

Að hluta tengist ofbeldi gegn öldruðum heimilisofbeldi, en ekki í öllum tilvikum því það kemur fram í skýrslunni að aldraðir verða einnig fyrir ofbeldi á dvalar- og sjúkrastofnunum. Birtingarmyndir ofbeldis gegn öldruðum eru af margvíslegum toga.  Alþjóða heilbrigðismálastofnunin skiptir ofbeldi gegn öldruðum upp í eftirfarandi flokka, en ítrekar að þeir geti ekki talist tæmandi.

  • Líkamlegt ofbeldi: Til dæmis að kýla, slá, sparka, hrinda, halda og að misnota lyf viðkomandi einstaklings.
  • Andlegt ofbeldi: Það að hóta, skamma, ógna, niðurlægja, útiloka frá samskiptum, stjórna, þvinga, einangra, hindrað aðgang að stuðningi og aðstoð. Til andlegs ofbeldis telst einnig ofbeldi og áreitni sem felur í sér mismunun.
  • Kynferðislegt ofbeldi: Til að mynda nauðgun, kynferðislegt áreiti eða kynferðislegar athafnir sem einstaklingur hefur ekki samþykkt, gæti ekki samykkt vegna skerðingar eða var þvingaður til að samþykkja.
  • Fjárhagsleg og efnisleg misnotkun: Svo sem þjófnaður, svik, misnotkun fjármuna, þrýstingur vegna ráðstafana fjármuna, misnotkun og vísvitandi eyðilegging eigna.
  • Vanræksla: Til dæmis vanræksla varðandi lyfjagjöf og líkamlega umönnun.
  • Ofbeldi/áreitni sem felur í sér mismunun: Ofbeldi og áreitni sem beinist til dæmis að uppruna, kyni, kynþætti, kynhneigð, kynvitund, skerðingu eða annarri stöðu viðkomandi.

Þar sem ofbeldi gegn öldruðum er ákaflega falið, er hvatt til vitundarvakningar um málið og í skýrslu Ríkislögreglustjóra er bent á ákveðnar vísbendingar um ofbeldi gegn öldruðum, sem eru fengnar frá Lögreglunni í Toronto í Kanada. Þær eru meðal annars, áverkar og skurðir, óútskýrð meiðsli, brunasár, bjargarleysi, depurð, ótti, týndir skartgripir og borðbúaður, peninga skortir fyrir nauðsyjum, sá aldraði er illa klæddur, sýnilega vannærður, fær ekki umönnun vegna veikinda og meiðsla og á sér sögu um tíð slys. Allt þetta getur bent til þess að aldraður einstaklingur búi við ofbeldi.

Vísbendingar og gerendur í ofbeldismálum

Þeir sem eru gerendur í ofbeldismálum  gegn öldruðum er yfirleitt fólk sem stendur þeim næst, eins og gerist í heimilisofbeldi. En það sorglega er að ofbeldi viðgengst einnig á stofnunum fyrir aldraða og þar eru starfsmenn gerendur.  Á síðasta ári birtist í Noregi rannsókn sem náði til tæplega 3.700 starfsmanna á 100 hjúkrunarheimilum. Niðurstaða höfunda skýrslunnar var í stuttu máli sú, að það væri fremur algengt að aldraðir á hjúkrunarheimilum í landinu yrðu fyrir ofbeldi af hálfu starfsfólks og að þörf væri á fyrirbyggjandi stefnu til að bæta líf og öryggi á þessum stofnunum.

Ofbeldi gegn öldruðum hér á landi

Greint er í skýrslu Ríkislögreglustjóra frá fleiri erlendum rannsóknum en varað er við því að bera saman rannsóknir milli landa, þar sem aðferðafræði og aðstæður eru mismunandi eftir löndum.  Það hafa verði gerðar nokkrar rannsóknir á ofbeldi gegn öldrunum  á Íslandi á undanförnum árum  og lögregla heldur skrá yfir heimilisofbeldi þar sem er að finna flokkun kyns og aldurs. Þá safnar Reykjavíkurborg upplýsingum um heimilisofbeldi. Embætti ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu standa auk þess fyrir árlegri þolendakönnun, þar sem leitað er upplýsinga um ofbeldi meðal annars gegn öldruðum.

Sigrún Ingvarsdóttir félagsráðgjafi gerði könnun árið 2007 en þar kváðust  20% starfsfólks heimaþjónustu hafa orðið vör við eða grunað að ofbeldi gegn öldruðum ætti sér stað. Það vakti sérstaka athygli í könnun Sigrúnar að stór hluti starfsmanna taldi það engu skila fyrir þolandann að láta yfirvöld vita af ofbeldinu!  Í þolendakönnun Ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kváðust 2% þáttakenda 66 ára og eldri hafa orðið fyrir obeldi.

Hvað er til ráða?

Það er samdóma álit þeirra sem hafa rannsakað málaflokkinn að obeldi gegn öldruðum sé hulinn vandi á Norðurlöndum og Ísland er þar ekki undanskilið, þó talin sé ástæða til að rannsaka þessi mál frekar hér. En hvað er til ráða? Fram kemur í skýrslunni að viðbrögð við þessum ósýnilega vanda, geti ekki einvörðungu falist í aukinni áherslu á löggæslu í málaflokknum. Aðkoma lögreglu sé hins vegar nauðsynleg ásamt margvíslum öðrum ráðstöfunum. Listinn í skýrslunni yfir aðgerðir sem þyrfti að grípa til er eftirfarandi:

  1. Efla þarf vitund innan löggæslunnar um ofbeldi gegn öldruðum. Þetta verði gert með aukinni fræðslu og þjálfun.
  2. Mótun stefnu og verklagsreglna sem leggja áherslu á mikilvægi málaflokkksins, en reynsla erlendis frá sýnir að þar sem ekki er fyrir hendi skýr stefna í málefnum aldraðra hjá lögregluliði, hafa lögreglumennirnir oftar en ekki lítinn skilning á eðli vandans.
  3. Hvatning til samvinnu. Fórnarlömb ofbeldis þurfa á inngripum löggæslu, félagsþjónustu og fleiri að halda. Bestur árangur næst með aðkomu og samvinnu á breiðlum grundvelli sem miðar að því að sinna einstaklingnum sem best.
  4. Sérsniðin viðbrögð lögreglu, en oft kemur í hennar hlut að vísa málum áfram til félagsþjónustu eða ákæruvalds.
  5. Vitundarvakning í samfélaginu. Lögreglan getur átt þátt í verkefnum sem lúta að því að auka vitund almennings um vandann, til dæmis um það hvernig bera á kennsl á ofbeldi gegn öldruðum, hvernig tilkynna á slíkt og koma í veg fyrir það.
  6. Könnun á bakgrunni starfsfólks. Lögreglan getur beitt sér fyrir að tekin verði upp könnun á bakgrunni starfsfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
  7. Aðkoma að starfsemi athvarfs. Athvarf fyrir aldraða þolendur ofbeldis myndi vísast treysta á aðkomu sérfæðnga á sviði félagsaðstoðar, öldrunarlækninga og réttarvörslu.

Ritstjórn mars 23, 2021 08:23