Tengdar greinar

Velta fyrir sér verðmæti gráa hársins

Tveir sérfræðingar í fjármögnun fyrirtækja velta fyrir sér virði grárra hára á Íslandi, í grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins. Þetta eru þau Helga Viðarsdóttir og Jökull Jóhannsson. Þau benda á það í greininni að fyrrverandi þingmenn eigi erfitt með að fá vinnu eftir að þeir hætti afskiptum af pólitík, sem sé í andstöðu við það sem þekkist erlendis. Þar sé þekking og reynsla úr stjórnmálum ákaflega mikils metin. Þau segja að með sama hætti megi velta fyrir sér hvort þekking og reynsla úr viðskiptalífinu sé nægilega mikils metin hér. Ekki séu stjórnendur þar æviráðnir og 5-10 ár í stjórnunarstarfi í viðskiptalífinu sé ekki óeðlilegur endingartími fyrir forstjóra hjá einkafyrirtæki í samkeppnisrekstri. Stundum fylgi önnur stjónunarstaða í kjölfarið en eftir því sem fólk eldist minnki líkurnar á því. Þá segir orðrétt í greininni.

Við Íslendingar erum 330 þúsund. Það munar um hvern og einn. Það að við séum fámenn þjóð þýðir að við þurfum að nýta reynslu og þekkingu þeirra sem búa yfir umtalsverðri reynslu eins og best verður á kosið. En hvernig gerum við það? Við þurfum að skapa landlæga menningu þar sem það þykir sjálfsagt að reynt fólk með dýrmætar tengingar miðli reynslu sinni og bjóði fram þáttöku sína í starfsemi til að mynda sprotafyrirtækja. Þetta eru forsvarsmenn og starfsmenn fyrirtækja sem starfa á alþjóðlegum vettvangi, sem selja vörur og þjónustu til erlendra fyrirtækja og fólk sem hefur starfað á opinberum vettvangi ýmissa þjóðmála.

Hafa höfundar í sínum rekstri til að mynda nálgast einn færasta smásölumann landsins með það í huga að fá að nýta þekkingu hans og tengslanet inn í fyrirtæki sem var á leið á alþjóðamarkað með neytendavöru. Það var eins og við manninn mælt. Um leið og viðkomandi maður beitti sér fyrir hönd fyrirtækisins í gegnum sitt faglega net opnuðust gáttir sem einungis eru færar þeim sem hafa lagt leið sína um svipaðar slóðir.

Greinarhöfundar benda á að  það geti haft mjög jákvæð áhrif að leiða saman kraftmikla frumkvöðla og reynda aðila til setu í stjórnum fyrirtækja eða í ráðgjafarráði þeirra. Það þurfi þó ekki einungis að vera í formi stjórnarsetu.  Í Bandaríkjunum hafi þróast hefð fyrir því að reynt fólk miðli reynslu sinni áfram sem svokallaðir „lærimeistarar“, líkt og tíðkist í iðngreinum með samvinnu lærlinga og meistara. Sams konar samvinna sé vissulega mikilvæg í fleiri greinum og þeir telja að það mætti nýta þetta samstarf í meira mæli hér á landi.

Ritstjórn desember 27, 2018 11:21