Tengdar greinar

Verð brjáluð ef þú spyrð hvert ég er að fara

Þegar Nancy K.Schlossberg fór á eftirlaun, eftir að hafa verið háskólaprófessor í sálfræði árum saman, var hún viss um að það yrði ekkert mál. Hún hafði nefnilega skrifað bók um það hvernig best væri fyrir fullorðið fólk að takast á við breytingar. En þetta reyndist ekki jafn auðvelt fyrir hana og hún hafði haldið.  Þetta kemur fram í grein á www.considerable.com  sem fer hér á eftir stytt og endursögð.

Maður Nancy, Stephen lögmaður í vinnurétti, hafði farið á eftirlaun nokkrum árum áður. Þegar hún fór að vera heima með honun,var hann stöðugt að spyrja. „Hvert ertu að fara og hvenær kemurðu heim?“.

„Í hvert skipti sem hann spurði mig, svaraði ég hástemmdri röddu: Ef þú hættir ekki að spyrja mig hvert ég er að fara, verð ég brjáluð“, segir Nancy..

Mörg pör sjá fyrir sér að það að fara á eftirlaun sé reynsla sem þau fari í gegnum saman. En oftar en ekki er raunin önnur. Annað þeirra fer kannski á eftirlaun vegna þess að starfið hans eða hennar er lagt niður, eða vegna þess að það ræður ekki lengur við að vinna fulla vinnu. Sumir fá jafnvel nóg af vinnunni og hætta enn fyrr. Stundum kemst parið líka að því að annað þeirra neyðist til að vinna lengur, ef þau eiga að hafa efni á því að lifa lífinu á eftirlaunum eins og þau höfðu hugsað sér.

Sama hver ástæðan er, sýnir rannsókn Samtaka bandarískra eftirlaunamanna að einungis eitt af tíu pörum, fer samtímis á eftirlaun. Það er algengara að eiginmaðurinn fari á eftirlaun á undan konunni. Þar á ofan bætist, að flest pör eru hreint ekki á sömu blaðsíðu þegar kemur að lífinu á eftirlaunum. Önnur bandarísk rannsókn sýnir að helmingur para er ósammála um hvenær best sé að fara á eftirlaun og þriðjungur hefur ekki sömu hugmyndir um það hvernig lífi þau vilja lifa á eftirlaunaaldrinum. Menn eru ekki endilega tilbúnir til að eyða öllum deginum, alla daga með makanum sem er kominn á eftirlaun. Hér á eftir fara nokkur ráð til að auðvelda fólki þessi umskipti.

Gerið ráð fyrir árekstrum

Líst þér ekkert á þann ávana eiginmannsins að fara ekki að sofa fyrr en um tvö-leytið á næturnar? Gerðir þú þér grein fyrir að konan þín væri alltaf í tennis? Líf makans á eftirlaunum er hugsanlega allt öðruvísi en þú gerðir þér í hugarlund fyrirfram. Líklega hafið þið allt aðrar venjur.

„Gerið ykkur ljóst að þetta er tími breytinga“, segir Chambers  forstöðumaður Fjölskyldustofnunar við háskóla í Norðvestur ríkjunum „ Eins og allar breytingar, geta þær gengið upp og niður, en að lokum kemst fólk að niðurstöðu og skapar sér nýjar hugmyndir og viðmið um eðlilegt fyrirkomulag lífsins við breyttar aðstæður“.

Stigið eitt skref afturábak í stað þess að fara að rífast og gefið makanum tíma. „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að hann er að kljást við heilmiklar breytingar“, segir rithöfundur sem hefur skrifað um það hvernig konur eiga að lifa það af, þegar eignmaðurinn  fer á eftirlaun. „ Þó flestum pörum finnist þetta gríðarleg breyting á lífinu, er hún kannski minniháttar, ef hún er borin saman við annað sem fólk hefur farið í gegnum saman á lífsleiðinni“, segir hann.

Horfið á markmiðin

Þegar eiginmenn sem eru nýlega farnir á eftirlaun, komast í kreppu, finnst konunum alltof oft að þær beri ábyrgðina og þurfi að hlúa að þeim tilfinningalega“, segir Roberta Taylor, meðferðaraðili sem hefur skrifað bók um það þegar hjón fara á eftirlaun. Hún segist oft ræða við konur á sjötugs og áttræðisaldri, sem trúi henni fyrir því að þær séu í uppnámi vegna þess hvernig sambandinu við makann sé háttað. En þær endi yfirleitt á að segja. „ Ég vil bara ekki að honum líði illa“.

Hún segir jafnframt að það sé gagnlegt að breyta umræðunni milli makanna þannig að hún snúist ekki um tilfinningar heldur markmið. Það geti brúað bilið á milli þeirra. En til að takast á við dýpri tilfinningar sé gott að leita til góðs vinar eða sálfræðings.

Chambers leggur til að að fólk horfi fram á við og spyrji sig spurninga eins og „Hvernig getum við gert næsta kafla lífsins ánægjulegan?“ Eða „Hvað getum við gert núna sem við gátum ekki gert áður þegar við höfðum aldrei tíma til neins?“

„Ef makinn þinn er kominn á eftirlaun og vill verja meiri tíma með þér en þú hefur áhuga á, talið þá saman í hreinskilni um það sem þið hafið þörf fyrir hvort um sig. Dragið upp mynd af því hversu mikinn tíma þið viljið hafa útaf fyrir ykkur og hversu miklum tíma þið viljið eyða saman á daginn. Þannig njótið þið betur tímans sem þið ákveðið að verja saman“.

Sýnið þolinmæði

Það er ekki til nein uppskrift af því hversu langan tíma það tekur að komast til botns í tilfininngamálum eins og þessum. Fyrir sum pör getur það tekið nokkra mánuði, eða jafnvel nokkur ár.

Ef þið hafið góðan stuðning og eruð bjartsýn, þá leysast þessi mál, en það getur verið erfitt um tíma“, segir  Nancy Schlossberg, sem hefur haldið áfram að skrifa bækur um eftirlaunafólk eftir að hún fór sjálf á eftirlaun. „Ég sé það núna að ef ég hefði fundið upp þolinmæðis pillu, væri ég orðin forrík“, segir hún.

Þau hjónin höfðu verið gift í 35 ár, þegar Nancy fór á eftirlaun og að lokum fundu þau fyrirkomulag sem hentaði þeim vel. „ Á endanum var ég þakklát fyrir það að einhvern langaði að vita hvert ég væri að fara og hvað ég væri að gera“, segir hún.

Ritstjórn apríl 16, 2020 11:37