Verðum ekki heiladauð við það eitt að verða 67 ára

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman skrifar

Á útifundi sem Grái herinn stendur fyrir á Austurvelli á fimmtudaginn kemur, þurfum við að koma þeim skilaboðum á framfæri af ákveðni og festu við alþingismenn og ráðamenn þjóðarinnar að það sé alrangt að halda því fram í opinberri umræðu og í drögum að frumvarpi til laga um almannatryggingar að grunnstoð eftirlaunakerfisins sé lífeyrissjóðirnir og síðan komi almannatryggingar. Þetta heitir að snúa samleikanum upp í andhverfu sína.

Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir sem viðbót við almannatryggingakerfið.

Ef takast á að hækka  eftirlaunaaldur eins og  kemur fram  í frumvarpi sem liggur nú fyrir alþingi, þarf að breyta viðhorfi gagnvart eldri borgurum.

Þar þurfa alþingismenn og ráðamenn þjóðarinnar að byrja á því að láta af einelti gagnvart eldri borgurum. Þetta fólk gæti t.d. látið af því að kalla okkur ellilífeyrisþega og  laun okkar ellilífeyri. Þessi orð þýða á okkar máli það sama og segja sig til sveitar. Það gæti hætt að nota orðalag eins og gera þurfi betur fyrir þá sem minna mega sín og fátækustu eldri borgarana. Greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðunum eru áunnin réttindi. Þeir sem eru 67 ára og eldri eru komnir á eftirlaun, ýmist frá ríkinu eða lífeyrissjóðunum.

Fjölmiðlar þurfa að breyta sínum fréttaflutningi af málefnum eldriborgara. Í fjölmiðlum í dag birtast þeir oftast sem þurfalingar á flókaskóm með hjólagrindur. Við verðum ekki heiladauð við það eitt að verða 67 ára. Eldri borgarar búa yfir gífurlegri þekkingu og reynslu sem nýst gæti atvinnulífinu vel á þeim miklu umbrotatímum sem eru í  dag.

En grunnurinn að þessu öllu er þó að frítekjumark launatekna verði hátt ef eldri borgarar eiga að sjá sér hag í því að halda áfram að vinna.

Mætum á útifundinn á Austurvelli á fimmtudaginn klukkan 17:00 og sýnum samstöðu. Samstaða er okkar vopn til að ná fram réttindum okkar.

 

 

Ritstjórn september 5, 2016 09:37