Tengdar greinar

Verður aðjúnkt 75 ára

Þórunn Sigurðardóttir

Þórunn Sigurðardóttir leikstjóri hefur verið gerð að aðjúnkt við Háskólann á Bifröst, 75 ára gömul. Hún segist hafa verið stundakennari við skólann og þetta sé ákveðin uppfærsla á stöðu, en ekki beint ráðning. „Ég varð  hissa þegar mér var tilkynnt þetta, því ég  bjóst frekar við að þeir myndu segja mér að þetta yrði ekki lengra“, segir hún í stuttu samtali við Lifðu núna. „Auðvitað er þetta ákveðin viðurkenning á því sem ég er að gera en það kemur á óvart að það skuli frekar verið að festa fólk í sessi í kennslunni 75 ára, en vísa því á dyr“, segir hún. Þórunn situr svo sannarlega ekki aðgerðarlaus , hún er stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík sem nú er 50 ára og heilmikið um að vera á afmælisárinu. Hún er líka í stjórn norræna menningarsjóðsins og sinnir ýmsum öðrum verkefnum. Hún þarf því ekki að kvarta yfir verkefnaskorti. „Og burtséð frá því hugsa ég aldrei um hvað ég er gömul, aldrei“, segir hún og bætir við að ef fólk hafi heilsu geti það gert allt.

Magnús Árni Magnússon

Aldurinn ekkert atriði í mínum huga

En hvernig stendur á því að Háskólinn á Bifröst færir manneskju upp í aðjúnktstöðu á þessum aldri? „Það er mikið af stundakennurum hjá okkur, sem kenna ár eftir ár. Við ákváðum að í stað tímabundinna samninga, myndum við gera við þá fasta samninga um aðjúnktstöður, sem eru uppsegjanlegir af beggja hálfu.  Aðjúnktstaðan veitir fólki aukinn rétt, til dæmis til að sitja deildarfundi hjá okkur“ segir Magnús Árni Magnússon deildarforseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.  „Ég vissi ekki einu sinni hvað Þórunn er gömul. Hún hefur kennt hjá okkur árum saman við góðan orðstír  og aldurinn er ekkert atriði í mínum huga. Hún er fínn kennari sem hefur miklu að miðla og við viljum gjarnan hafa hana hjá okkur sem lengst“ segir hann.  Háskólinn á Bifröst er ekki ríkisstofnun, heldur sjálfseignarstofnun og er því ekki bundin af því að segja fólki upp störfum þegar það er sjötugt. Magnús Árni segist ekki minnast þess að nokkrum manni á Bifröst hafi verið sagt upp störfum vegna aldurs.

Ritstjórn október 29, 2019 07:14