Vettvangur til að fræðast og fræða aðra

„Það hvíla á mér örlög. Ég þarf alltaf að vera í einhvers konar samstarfi, eða samskiptum við fólk“, segir Hans Kristján Guðmundsson eðlisverkfræðingur, sem nýlega tók við formennsku í samtökunum um Háskóla þriðja æviskeiðsins, U3A Reykjavík. Hans Kristján, sem hefur varið stórum hluta lífs síns í að skipuleggja og búa til verkefni á sviði vísinda, segjst telja að hann sé betri í að koma verkefnum af stað, en enda þau.

Fræðslan í fyrirrúmi

„Ég get ekki sagt að draumar mínir um U3A séu skýrir, en ég sé það fyrir mér að samtökin muni vaxa og verða að vettvangi þar sem kraftur félaganna er virkjaður“, segir hann. „Þetta eru ekki samtök sem munu gera eitthvað fyrir fólk, heldur samtök þar sem fólk er með í að gera eitthvað áhugavert. Það má sjá fyrir sér vinnu í hópum, en fræðslan er það sem verður í fyrirrúmi og ætlunin er að nýta mannauðinn í U3A á sem bestan máta“.

Ákvað að taka stökkið

Hans Kristján sem síðast gegndi starfi forseta viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri fór að velta því fyrir sér, þegar leið að því að ráðningatíma hans hjá HA lyki, að hætta í launuðu starfi og fara að gera það sem hugur hans stóð til. Hann fór að skoða lífeyrismálin og ákvað að taka stökkið og hætta. Á þeim tíma vissi hann ekkert um U3A, en heyrði útvarpsviðtal við Jón Björnsson sálfræðing og Ingibjörgu R. Guðlaugsdóttur fyrsta formann samtakanna, sem honum þótti áhugavert.

Kominn á kaf í ný verkefni

„Mér þótti þessi hugmynd, að skapa vettvang til að fræðast og fræða aðra hljóma skemmtilega“, segir hann og fannst áhugavert að taka þarna þátt. Hann hafði samband og síðan leiddi eitt af öðru og hann var farinn að undirbúa umsókn um Evrópustyrk í BALL verkefnið ásamt Ingibjörgu, sem átti hugmyndina. Þau fengu svo fyrirtækið Evris í lið með sér til að skipuleggja og reka verkefnið. Þau komust í samband við fólk sem tengist Háskóla þriðja æviskeiðsins í öðrum löndum, sendu inn umsókn í samstarfi við Pólverja og Spánverja og fengu styrk. Lögð er áhersla á það í BALL verkefninu að fólk búi sig skipulega undir þriðja æviskeiðið og líti á það sem skeið frelsis og nýrra tækifæra.

Ólst upp í krafti kvenna

Konurnar sem önnuðust uppeldi Hans Kristjáns, lengst til hægri á myndinni, sem  er tekin á Landakotstúninu árið 1938

Konurnar sem önnuðust uppeldi Hans Kristjáns, lengst til hægri á myndinni, sem er tekin á Landakotstúninu árið 1938

Hans Kristján fæddist í Reykjavík skömmu eftir stríðslok og bjó ýmist vestan eða austan lækjar. „Ég er ófeðraður og nýt þess að hafa alist upp í krafti kvenna. Móðir mín harðneitaði að segja öðrum hver faðir minn var og tók loforð af öllum í kringum sig um að ljóstra því ekki upp. Hún var saumakona alla tíð og vann í Vinnufatagerð Íslands við að sauma gallabuxur“, segir hann. Amma Hans Kristjáns, Ólafía Katrín var hins vegar heima og sá um uppeldi dóttursonarins. „Hún kenndi mér að lesa og skrifa og kenndi mér líka alls kyns gátur“.

Blómarós í móttökunni

Hans Kristján gekk menntaveginn og útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1966. Um sumarið fékk hann vinnu við landmælingar í Húnavatnssýslunni á vegum Raforkumálaskrifstofunnar. Starfsmennirnir héldu til í viðbyggingu við hótelið á Blönduósi og teningunum var kastað. Ung og fönguleg blómarós frá Skagaströnd var að vinna í móttökunni á hótelinu. Þar var komin Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir nemandi í Menntaskólanum á Akureyri. Þau felldu hugi saman og óraði ekki fyrir því þá hvað þau áttu eftir að búa í mörgum löndum.

Bjuggu lengi í Stokkhólmi

Ungu hjónin í Stokkhólmi með son sinn árið 1971

Ungu hjónin í Stokkhólmi með son sinn árið 1971

Sólveig átti eftir tvö ár í menntaskólanum en ákvað að flýta sér að klára, með því að taka fimmta bekk með sumarvinnu . „Til að geta drifið sig á eftir mér til Svíþjóðar“, segir Hans Kristján en þangað fór hann til að læra eðlisverkfræði. Þau bjuggu í Stokkhólmi í 12 ár og þar fæddist einkasonurinn Gunnar Ólafur, sem nú er kvæntur kanadiskri konu og býr í Vancouver. Þau eru bæði málfræðingar og Gunnar Ólafur starfar við Háskóla Bresku Kólumbíu (UBC). Hans Kristján og Sólveig eiga tvær afa og ömmustelpur. „Það er leiðinlegt að hafa þau svona langt í burtu“, segir Hans Kristján og segist þakka fyrir nútímatæknina sem gerir þeim kleift að vera í góðu sambandi.

Fluttu inn fljótandi helíum

Hans Kristján stundaði nám við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi og lagði sig þar eftir grunnrannsóknum. Honum var svo boðin staða við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og dreif sig heim, þótt hann væri ekki búinn að ljúka doktorsritgerðinni sinni. Það gerði hann tveimur árum síðar. Hann hafði verið að skoða eiginleika efna nálægt alkuli. og flutti m.a. fljótandi helíum til landsins, en helíum er í fljótandi formi við -269 gráður á Celcius. „Það var áhugavert fólk í kringum mig og verkefnin voru spennandi“ segir Hans Kristján. „Ég var ekki að hugsa um hagnýtingu þessara rannsókna, heldur að bæta við þekkingu í vísindaheiminum“.

Túristar á Missisippi

Túristar á Missisippi

Ný málmsteyputækni

Hans Kristján ákvað seinna að snúa sér að iðnaðarrannsóknum og fór að vinna á Iðntæknistofnun. Hann fór að skoða málmsteyputækni og stýrði verkefnum sem tengdust m.a. tveimur fyrirtækjum, Málmsteypu Þorgríms Jónssonar í Reykjavík og Alpan á Eyrarbakka. Þau snerust um þróun nýrrar málmsteyputækni. Þetta starf leiddi til þess að fyrsta íslenska rannsóknarverkefnið fékk styrk frá Evrópusambandinu, en það var verkefni um hátækniálsteypu.

Hjónin flugust á

Eftir að hafa unnið hjá Iðntæknistofnun sem forstöðumaður málmtæknisviðs og efnatæknisviðs, ventu þau hjónin kvæði sínu í kross og héldu á vit nýrra ævintýra í Brussel. Þar starfaði Hans Kristján hjá EFTA til að byrja með, en síðar hjá sendiráði Íslands í Brussel. Vísindi, menntun og menning voru á hans verksviði en Sólveig, sem er mannfræðingur að mennt, vann hjá ESA. Síðar lá leiðin til Noregs þar sem Hans Kristján veitti Norrænu vísindamenntastofnuninni, NorFA, forstöðu. Þar sem Sólveig hafði ekki lokið störfum sínum í Brussel „flugust þau á í tvö ár“, segir Hans Kristján.

Hefur oft skipt um starf

Hans Kristján tók seinna við sem forstöðumaður Rannís og þaðan lá leiðin til Háskólans á Akureyri. Hann situr á móti blaðamanni Lifðu núna við borðstofuborðið sitt á Reynimel með alla þessa reynslu í farteskinu, formaður stjórnar U3A. „Ég hef setið við allar hliðar borðsins þegar kemur að vísindum, hef hætt störfum mörgum sinnum og í mörgum löndum“, segir hann „og það hafa aldrei verið kölluð starfslok“. Hann er vanur því að ný verkefni taki við af þeim sem lokið er og þannig er hann enn á ný að hefja nýjan kafla.

Getur verið að þú sért systir mín?

Eitt þeirra nýju verkefna sem fjölskyldan stendur frammi fyrir er að hún komst í samband við föðurfjölskyldu Sólveigar í Ástralíu, en foreldrar hennar voru Þjóðverjar sem komu hingað til lands til að stunda landbúnaðarstörf skömmu eftir stríð. Þau skildu og faðirinn flutti úr landi og alla leið til Ástralíu. Móðir Sólveigar giftist Georg sem gekk henni í föðurstað. Sólveig missti sambandið við blóðföður sinn og fjölskyldu hans.

Kynnast föðurfjölskyldum sínum

Fyrir nokkrum árum fékk hún hins vegar bréf frá manni í Ástralíu sem spurði, Getur verið að þú sért systir mín? Það stóð heima og nú hefur Sólveig eignast stóra föðurfjölskyldu í Ástralíu og Þýskalandi. Þessi jákvæða reynsla Sólveigar varð til þess að Hans Kristján fór sjálfur að grennslast fyrir um sína föðurfjölskyldu, sem vissi ekki af tilvist hans. Hann komst í samband við eldri systur sína og segir að það hafi verið mjög ánægjulegt og gefandi.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr fjölskyldualbúmi Hans Kristjáns og Sólveigar.  Elsta myndin er tekin í lautarferð árið 1948.  Hans Kristján ásamt móður sinni og ömmu lengst til hægri á myndinni.

 

Ritstjórn apríl 1, 2015 16:00