Víðtæk löggæsla um verslunarmannahelgina

Útihátíðir um verslunarmannahelgar eiga sér langa hefð hér á landi. Margir muna sjálfsagt eftir útihátíðum í Vaglaskógi, Hallormsstaðaskógi, Húsafelli, Þjórsárdal að ógleymdum Þórsmerkurhátíðunum. Það var mikið drukkið og dansað á þessum hátíðum, þar sem íslenskt æskufólk skemmti sér án afskipta hinna fullorðnu. Fyrir verslunarmannahelgina árið 1965 sagði frá því í Vísi að víðtæk löggæsla yrði um verzlunarmannahelgina, og verslunar skrifað með setu eins og þá tíðkaðist. Þar sagði að flokkar lögreglumanna yrðu í Þórsmörk, Bjarkarlundi og á Laugarvatni. Þrír vegaeftirlitsbílar yrðu úti á vegunum en nýr bíll hefði bæzt við í vegaeftirlitið. Þá átti að vera eftirlit á Snæfellsnesi, í Húnavatnssýslu og Skagafirði.  Ennfremur var sagt í blaðinu.

Ef vart verður við óspektir á einhverjum stað, þá verður flokkur lögreglumanna tiltækur hér í Reykjavík og einnig er löggæzlan skipulögð þannig að hægt sé að færa lögreglumenn milli staða án mikillar fyrirhafnar“

Elliðaárbrekkan var breikkuð þannig að hægt var að aka tvær akreinar upp brekkuna og niður, til að ráða við verslunarmannahelgarumferðina. Og lokaorð Ólafs Jónssonar, fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík í samtali við blaðið fyrir næstum hálfri öld, hafa endurómað hverja verslunarmannahelgi síðan.

Það er von lögreglunnar að allar samkomur sem efnt verður til nú um helgina megi fara vel fram og umferðin á þjóðvegum landsins gangi vel fyrir sig, og þessi verslunarmannahelgi sem nú fer í hönd verði slysalaus“

Frá þessu greinir í bókinni Ísland í aldanna rás:1951-1975 eftir Illuga Jökulsson.

Ritstjórn ágúst 1, 2014 11:00